sunnudagur, maí 27, 2007

Komin heim

Ég er alltaf þakklát þegar hjól flugvélarinnar snerta flugvöllinn. Það átti að venju líka við þegar við lentum í Keflavík á fimmtudagskvöldið var. Það var búið að vera þó nokkur ókyrrð í aðfluginu og þótt flugstjórinn hafi skellt vélinni mjög harkalega á völlinn þá var gott að vera komin niður.
Ísland tók á móti okkur með 3ja stiga hita og frekar kalsalegt veður en ég verð samt að segja það að ég vildi ekki fyrir nokkurn mun skipta á landinu mínu fagra og öðru landi með betra veðurfari.

Dagarnir í Kaupmannahöfn voru góðir og skemmtilegir og veðurguðirnir léku svo sannarlega við okkur. Við eyddum heilu kvöldi í Tívolí, vorum komin þangað um sjöleytið og vorum til klukkan ellefu þegar þeir lokuðu. Stelpurnar fóru í tækin og sum (stóra rússibanann) allavega fjórum sinnum. Hrund náði takmarki sínu og fékk Örnu með sér í fallturninn en bara einu sinni samt. Arna sagði eftir á að hún tryði því varla að hún hefði farið þarna upp. Hrund fór svo einu sinn ein í hann og fékk svo pabba sinn með sér einu sinni. Þau feðgin enduðu svo skemmtilega Tívolíferð með að fara í 100 metra háa hringekju og saman sveifluðust þau í rólu hátt yfir höfðum okkar Örnu og þau nutu útsýnisins yfir borgina sem var böðuð ljósum næturinnar.

Arna bjó til bangsa handa stelpunum sínum
Mæðgurnar komnar í Fields
Komin í Tívolí
Rólan háa (kallað himnaskipið)
Arna og Hrund í fallturninum, sjáið svipinn á þeim

Systurnar fóru í tvö söfn og við Erling nutum þess á meðan að sitja á Ráðhústorginu og horfa á alla kynlegu kvistina sem skreyta lífsins trén. Við skoðuðum líka Marmarakirkjuna frægu og fallegu, lífverði drottingarinnar og margt margt fleira.



Þessar tvær að ofan eru teknar á Ráðhústorginu

Á Kastrupflugvelli á heimleið

Þetta var í alla staði eins vel heppnuð ferð og hægt var að hugsa sér og það voru fótalúnir en ánægðir ferðalangar sem hittu pabba minn í Leifstöð og ókum heim til okkar í frosti yfir heiðina :o)

Í dag, hvítasunnudag, ætlum við öll að hittast á Föðurlandi voru í Fljótshlíð og grilla saman. Klukkan flotta sem kom með okkur frá antikbúðinni á Jótlandi er komin upp á vegg hér í Húsinu við ána og klukka sem var þar fyrir fer á Föðurlandið. Það er fallegri hljómur í “nýrri” klukkunni og því ákváðum við að hafa hana hér heima þar sem við njótum hennar oftar.
Litli prinsinn lætur okkur enn bíða eftir sér en Íris mín er orðin nokkuð þreytt og því væri gott að hann færi að láta sjá sig. Fyrir stuttu var einhver að spyrja Petru Rut hvort hann færi ekki að koma en þá sagði hún, “það verða bara allir að bíða eins og við”.

Á þriðjudag tekur við mikil vinnutörn hjá mér þar sem vsk dagur er
5. júní og þá þarf ég að vera klár með allt fyrir mína viðskiptavini. Ég hins vegar kvíði því alls ekki, vinnufélagar mínir eru frábærir og ég hlakka til að hitta þau öll.

Njótið dagsins vinir mínir.....þangað til næst

3 ummæli:

Eygló sagði...

VÁ skemmtilegt blogg :) Og flottar myndir, þetta hefur án efa verið algjörlega frábær ferð hjá ykkur, það var ekkert smá gaman að koma til ykkar á föstudaginn og sjá myndir og allt sem þið keyptuð úti :) Takk svo fyrir samveruna á Föðurlandi í gær, var alveg stórskemmtilegt :) Þín uppáhalds Eygló

Íris sagði...

Já, það er alveg víst að þetta hefur verið snilldarferð! Pant koma með næst ;) hehe
Og takk fyrir samveruna í gær. Algjör snilld að fara svona öll saman og stelpurnar nutu sín alveg í botn!
Sjáumst vonandi sem fyrst!
Þín Íris

Nafnlaus sagði...

Ohhh, skemmtilegt blogg, þetta var svo mikil SNILLDARFERÐ og allt sem var svooo gaman. Þessari ferð gleymi ég ALDREI. Þið pabbi eruð alveg frábærir ferðafélagar og þolinmóð að bíða eftir okkur Hrund gamalmennunum. Hehehehe, Arnan þín.