föstudagur, september 11, 2009

Hann á afmæli í dag...


Það er alveg ótrúlegt að það sé bráðum áratugur síðan ég kynntist honum fyrst. Við Erling vorum nýkomin heim frá Spáni þegar Íris sagði okkur að hún hefði farið út að borða með vini sínum. Við vorum auðvitað forvitin foreldrarnir og stuttu seinna vorum við kynnt fyrir honum Karlott og þau munu halda uppá 8 ára brúðkaupsafmælið sitt bráðum.

Sem ættmóðir margra þá er eðlilegt að það sé oft verið að halda uppá afmæli hjá einhverjum og í dag er það áður nefndur tengdasonur minn hann Karlott sem fagnar einu árinu enn og í þetta sinn í 34. skipti. Karlott er einstaklega ljúfur og góður drengur og segja má að hann sé hvers manns hugljúfi. Hann er með mikla veiðidellu og vill heldur ekki læknast af henni og ég gæti best trúað að eftir ferðalagið okkar stórfjölskyldunnar um síðustu helgi hafi hann smitast illilega af jeppadellu og hálendisferðagleði, allavega veit ég að hann skoðar bílasölur vel þessa dagana og grun hef ég um að það séu jeppar sem heilli mest.

Íris og Karlott eiga 3 yndisleg börn saman og eru einstaklega samhent um allt er viðkemur heimilishaldi og barnauppeldi. Hann starfar við heimaþjónustuna í Hafnarfirði og einnig við liðveislu og þá fer hann með fatlaða einstaklinga út á lífið og ég veit að skjólstæðingar hans eru mjög ánægðir með hann. Við Erling erum mjög ánægð með hann og stolt af honum.

Elsku Karlott minn, ég óska þér innilega til hamingju með daginn þinn, veit að Íris og börnin munu dekra þig. Sjáumst svo sem fyrst.....