laugardagur, janúar 20, 2007

Lífið sjálft

Ég vaknaði við að einhver kom inní herbergið og það skrjáfaði í einhverju sem var lagt á náttborðið mitt. Ég opnaði annað augað og sá Erling fara út aftur og ég stoppaði hann og sagði honum að ég væri vöknuð. Hann kom þá og beygði sig yfir mig, kyssti mig og óskaði mér til hamingju með daginn.

Ég er auðvitað að lýsa því þegar ég vaknaði á afmælisdaginn minn sl sunnudag og það var afmælisgjöfin mín sem skrjáfaði svona í.
Þegar ég kom niður hálftíma seinna þá var hann búinn að leggja á borð nýbakað brauð og alls kyns álegg og kaffi. Ég opnaði pakkann frá honum og það var .....IPOD nano 4gb sem mig var búið að langa svo lengi í. Seinna um daginn komu svo dætur mínar og þeirra fólk ásamt vinum og vandamönnum sem komu til að fagna deginum með mér. Ég hef stundum ætlað að fullorðnast að þessu leyti og hætta að þykja svona gaman að eiga afmæli en ég er hætt við það. Erling sagði líka við mig að ef ég reyndi það þá væri ég bara að leika eitthvað sem ekki væri og maður má alveg halda í þetta barnalega í sér. Ég er bara svona.

Ég mun seint hætta að dásama fallega landið mitt og þegar ég ók til Reykjavíkur í dag, yfir Hellisheiði þá fylltist hugur minn lotningu yfir fegurðinni, allt var svo hvítt og hreint, sólin glampaði á fjöllin og snjórinn glitraði bókstaflega. Ég er oft spurð að því hvernig mér finnist að keyra svona á milli og hvort ég sé ekki þreytt á því. Í sannleika sagt þá finnst mér þetta ekkert tiltökumál, ég er ekki oft ein á ferð og þegar það gerist þá set ég bara skemmtilega tónlist á og læt hugann reika. Það er gott fyrir alla að vera stundum einir og þá fæðast oft ýmsar hugmyndir eða lausnir á vanda sem hefur verið að hrella mann.

Í dag var ég að hugsa um fjölskylduna mína bæði kjarnafjölskylduna mína og stórfjölskylduna. Ég er svo lánsöm að við erum öll náin hvert öðru og við stöndum saman þegar eitthvað blæs á móti. Það er ekki sjálfsagt eða sjálfgefið heldur er það ávöxtur af uppeldi og þeirri vinnu sem hver og einn leggur í fjölskylduna sína. Það gleður mig meira en orð geta lýst að stelpurnar mínar eru allar bestu vinkonur og svo fæ ég að vera vinkona þeirra líka.

Núna er degi farið að halla, það er komið laugardagskvöld og ég sit uppi í sjónvarpsholinu með tölvuna í fanginu og skrifa þessa færslu. Við vorum að enda við að horfa á fyrsta hlutann í Söngvakeppninni og lagið sem ég kaus komst áfram. Það heitir Húsin hafa augu og hinn stórskemmtilegi söngvari Matthías úr Pöpunum söng það. Þetta var eina skemmtilega lagið í kvöld að mínum smekk.

Erling er farinn niður að grilla kvöldmatinn, við ákváðum í gær að hafa kósíkvöld þar sem við erum bara tvö heima. Þá eldum við eitthvað gott, kveikjum á kertum, leggjum fallega á borð, opnum góða rauðvínsflösku og kvöldið er fullkomið. Kostar ekki mikið en er bara frábærlega skemmtilegt. Jæja nú kallar hann, best að fara til hans, þangað til næst......hafið það frábært

mánudagur, janúar 08, 2007

Hrund er 18 ára í dag, hún lengi lifi.....


Í dag eru 18 ár síðan yngsta dóttir mín fæddist, opnaði annað augað, sá föður sinn, leist vel á hann og lokaði augunum aftur, hefur sennilega séð að hún var komin í öruggar hendur. Það er skrýtin tilfinning þegar öll börnin manns eru orðin fullorðin og sjálfráða.
Lögum samkvæmt getur Hrundin mín gert það sem henni sýnist og við foreldrar hennar höfum ekkert með það að segja. Sem betur fer eigum við Erling það gott samband við hana og systur hennar að það er engu að kvíða. Hrund er yndisleg stúlka og hefur verið okkur til mikils sóma hvar og hvenær sem er. Hún hefur alltaf verið ákveðin og vitað hvað hún vill, hún má ekkert aumt sjá og hefur oft verið skólasystkinum sínum til hjálpar þegar aðrir hafa snúist gegn þeim. Hrund er ein af þeim sem eru fæddir leiðtogar og því hefur það reynst henni auðvelt að fá félaga sína til að láta af leiðinlegri breytni sinni gagnvart þeim sem eru minni máttar. Hún er líka samkvæm sjálfri sér og lætur verkin sín frekar tala en orð en samt er henni aldrei orðavant, það má segja að frá því hún var altalandi, aðeins eins og hálfs árs gömul, þá hefur hún varla stoppað.

Hrund er á öðru ári við Kvennaskólann og unir hag sínum afar vel enda segir hún að Kvennó sé langbesti skólinn, á því sé enginn vafi. Ég verð að monta mig aðeins af einu jólakorti sem kom á heimilið og var stílað á hana. “Ég vona að þetta kort hitti þig glaða og fríska í jólaleyfinu. Tilefni kortsins er fyrirmyndar skólasókn þín og reglusemi í samskiptum þínum við skólann á nýliðinni haustönn. Þetta vil ég fyrir skólans hönd þakka og óska þér og fjölskyldu þinni gleðilegra jóla. Við erum sannfærð um að framkoma af þessu tagi er mikilvæg undirstaða velfarnaðar í námi og starfi og horfum björtum augum til samstarfsins á komandi ári.”
Undir þetta skrifar svo skólameistari skólans.
Hrund ákvað í byrjun annar að gera allt sem í hennar valdi stæði til að fá 100% skólamætingu án vottorða og henni tókst það.

Elsku Hrund mín, ég óska þér innilega til hamingju með 18 ára afmælisdaginn þinn og bið Guð að blessa þig í leik og starfi um ókomin ár.

föstudagur, janúar 05, 2007

Svo komu áramót

Á fimmtudegi fyrir áramót hringdi Arna í okkur og sagði okkur að Davíð myndi ekki geta komið suður með litlu stelpurnar á laugardeginum eins og áætlað var en hún átti að hafa þær yfir áramótin. Þórey Erla hafði veikst deginum áður og var komin í rannsókn á spítalanum fyrir norðan. Um kvöldið kom í ljós að það þurfti að leggja hana inn á barnadeild því hún var með smitandi bakteríusýkingu í lungum og með eyrnabólgu. Hún þurfti að fá lyf og næringu í æð og var látin vera í einangrun vegna smithættunnar.

Daginn eftir kom svo í ljós að hún yrði á spítala allavega fram á nýársdag. Nú voru góð ráð dýr því Doris átti að vinna alla hátíðina og Davíð yrði auðvitað með Þórey Erlu á sjúkrahúsinu og því þyrfti helst að koma Daníu Rut og Söru Ísold til mömmu sinnar.

Til að gera langa sögu stutta þá töluðum við Doris saman og það varð úr að við afarnir og ömmurnar keyrðum á móti hvort öðru á laugardegi og við mættumst á Blönduósi og þar tókum við Erling við litlu gullunum og fórum með þær til Örnu sem vissi ekkert af þessu ráðabruggi okkar. Þórey Erla útskrifaðist af spítalanum 2. janúar og Davíð flaug með hana suður og hún er núna hjá mömmu sinni og þær allar mæðgurnar eru alsælar.

Sama kvöld og við fórum norður fórum við svo á tónleika í Laugardalshöllinni með Sálinni og Gospelkór Reykjavíkur en Íris er einmitt meðlimur í þeim kór. Tónleikarnir voru frábærir og ég var mjög stolt af stóru stelpunni minni en hún er mjög lífleg og skemmtileg á tónleikum.

Í fyrsta sinn í mörg ár vorum við heima hjá okkur allt gamlárskvöld. Við erum vön að hitta fólkið mitt heima hjá Ellu Gittu og Katli strax eftir áramótaskaupið en að þessu sinni þá tilkynntum við fjarveru okkar. Við ætluðum að eyða kvöldinu heima í “Húsinu við ána”. Það er auðvitað alltaf gaman að hitta fólkið sitt og ég er reyndar mjög ánægð með hvað við systkinin erum dugleg að hittast en ég naut þess virkilega vel að vera bara heima þetta kvöld með dætrunum öllum, tengdasonum og auðvitað litlu hjartabræðurunum mínum. Þær voru að vísu bara fjórar þar sem Þórey Erla var enn á spítalanum fyrir norðan.

Við erum ekki alveg eins vanaföst með matarhefðir á gamlárskvöld og breytum stundum til og það gerðum við að þessu sinni. Erling bjó til þessa líka snilldar humarsúpu í forrétt og við matarborðið voru hafðar upp háværar kröfur um að þetta væri nú þegar orðin hefð. Lögfræðineminn í hópnum sagði okkur að venja þyrfti að vera viðhöfð í 10 til 15 ár til að kallast hefð og lögfræðingurinn tók undir með henni en okkur var alveg sama :o)
Síðan grillaði Erling lambafille með fiturönd og það verður að segjast eins og er að maturinn var alger snilld. Heimabúinn karamellufromage og heimatilbúinn ís setti svo punktinn yfir iið.

Við horfðum saman á skaupið og svo rétt fyrir miðnætti fórum við niður að ánni og horfðum á flugeldana speglast í henni. Alveg mögnuð sjón.

Rúmlega tólf datt svo Sara Ísold illa niður af stól, lenti á bakinu og hnakkanum, missti andann og var mjög undarleg, eins og hún væri að detta út og svaraði okkur engu. Við hringdum og fengum að tala við lækni hér á Selfossi og þótt Erling væri búinn að hita bílinn til að fara með hana þá vildi læknirinn láta sjúkrabíl sækja hana. Ömmunni fannst þeir nú heldur of lengi á leiðinni en það voru samt bara nokkrar mínútur. Þegar þeir komu og lýstu í augun á henni og sögðu svo: “Við skulum fara með hana út í bíl eins og skot”, þá er ekki laust við að mér hafi brugðið all nokkuð.

Þetta fór þó allt mjög vel, hún hafði fengið heilahristing og fengið áfall og þess vegna talaði hún ekki og mér fannst mjög heimilislegt að sjá þegar sjúkrabíllinn stoppaði aftur fyrir utan húsið okkar seinna um nóttina og þá voru þeir bara að skutla þeim Erling, Örnu og Söru Ísold aftur heim og við áttum bara að vekja hana yfir nóttina. Hún vaknaði svo á nýársdagsmorgun hress og spræk. Það er víst óhætt að segja að hann sé hollur sá sem hlífir.

Ég þakka Guði fyrir varðveislu hans yfir öllu mínu fólki og bið ykkur lesendum mínum Guðs blessunar á nýju ári. Þið ykkar sem hafið áhuga á að lesa um helstu viðburði liðins árs, bendi ég á síðuna hans Erlings en þar hefur hann að venju skrifað áramótapistil www.erlingm.blogspot.com

Þangað til næst.....