laugardagur, janúar 08, 2011

Hrund afmælisprinsessa


Það er alveg með ólíkindum að í dag séu liðin 22 ár frá því að yngsta barnið mitt fæddist en engu að síður er það staðreynd. Það var sunnudagurinn 8. janúar og klukkan alveg að verða fjögur að degi til þegar hún fæddist. Hún opnaði annað augað, sá föður sinn, leist vel á hann og lokaði augunum aftur, hefur sennilega séð að hún var komin í öruggar hendur. Hrund er ein af þeim sem eru fæddir leiðtogar og því hefur það reynst henni auðvelt að fá félaga sína til að láta af leiðinlegri breytni sinni gagnvart þeim sem eru minni mátttar. Hún er líka samkvæm sjálfri sér og lætur verkin sín frekar tala en orð en samt er henni aldrei orðavant, það má segja að frá því hún var altalandi, aðeins eins og hálfs árs gömul, þá hefur hún varla stoppað.

Í haust hóf hún nám á sálfræðibraut Háskólans í Reykjavík og líkar vel þar enda búin að kynnast fullt af skemmtilegum krökkum sem hún eyðir tíma með bæði við nám og skemmtun. Núna á þriðjudaginn verða þau tímamót hjá henni að hún tekur á leigu íbúð hjá Námsmannaíbúðum og það er að vonum stórt skref.

Elsku Hrundin mín, við pabbi þinn óskum þér innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn og við vonum að hann verði þér góður. Við elskum þig meira en hægt er að segja með orðum og erum afar stolt af þér. Guð blessi þig og veiti þér það sem hjarta þitt þráir.