mánudagur, júní 25, 2007

Þegar draumur verður að veruleika.....

Erling tók að sér að passa hjólið hans Kidda meðan hann skrapp erlendis

Erling er í mörg ár búinn að dreyma um að þeysa um landið á mótorfák og því var ég mjög glöð þegar hann dreif sig í prófið fyrir nokkru síðan með Badda vini sínum. Þeir eru báðir búnir að kaupa sér hjól og í gær þegar við vorum á leiðinni heim af Fitinni þá hringdu þeir sig saman félagarnir og ákváðu að fara í hjólatúr í þessu líka frábæra veðri sem var í gær. Jakob, vinur Badda, slóst í för með þeim og það voru flottir félagar sem þeystu úr hlaði hér við Húsið við ána og vélfákarnir voru sko ekki af verri endanum. Þeir eru í “öldungadeildinni” og gæta sín vel að aka ekki yfir hámarkshraða enda skynsamir menn á ferð sem gera sér fulla grein fyrir þeirri miklu ábyrgð sem mótorhjólaakstur er.


Það er hverjum manni nauðsynlegt að stefna að því að láta drauma sína rætast. Lífið er svo stutt og við vitum ekki hversu langan þráð við höfum til ráðstöfunar. Við Erling vorum rækilega minnt á það sl laugardagskvöld þegar við vorum að njóta þess að vera til í fjallakofanum okkar á Föðurlandi og síminn hringdi rétt fyrir miðnætti. Jói, mágur Erlings og svili minn, hafði fyrr um kvöldið fengið hjartaáfall og það var hárréttum viðbrögðum Hildar mágkonu minnar að þakka að hann lifði af. Jói hefur ekki kennt sér neins meins varðandi hjartað og því kom þetta sem þruma úr heiðskíru lofti. Hann er nú á sjúkrahúsi en er á batavegi og við þökkum Guði fyrir að ekki fór verr.

Helgin var frábær að venju, alltaf gott að skreppa austur á Föðurlandið í sveitakyrrðina þótt hún sé reyndar líka til staðar hér á Selfossi. Við skruppum svo í afmæli til Bjössa seinni partinn í gær, ég fór á bílnum og Erling kom svo á hjólinu þegar þeir voru búnir með hjólatúrinn félagarnir. Eftir afmælið skruppum við svo aðeins og kíktum á vini okkar í Grafarvoginum, Sigrúnu og Heiðar og þar voru fyrir aðrir vinir okkar, Júlíana og Rúnar. Góðir vinir er dýrmætir og því um að gera að rækta slíkt samfélag.

Framundan er fyrri hluti sumarfrísins og við ætlum að eyða þeim hluta heima við og á Föðurlandi svona eftir því sem okkur langar til. Ég hlakka mikið til, það er notalegt á báðum stöðum. Við ætlum einnig að skreppa á fjöll og reyndar bara gera það sem okkur langar til að gera í það og það skiptið.

Njótið lífsins vinir mínir, það geri ég svo sannarlega og þakka fyrir hvern þann dag sem ég fæ að vakna heilbrigð og frísk, það er ekki sjálfgefið........Þangað til næst

föstudagur, júní 22, 2007

Hann á afmæli í dag

Sæt hjón, Eygló og Bjössi

Eins og lesendur mínir vita þá er ég svo heppin að tilheyra stórri fjölskyldu og í minni eigin nánustu fjölskyldu þá er ég ættmóðir margra og því eru oft afmælisskrif á síðunni minni og það er einmitt í dag.

Annar tengdasonur minn, hann Bjössi hennar Eyglóar á afmæli í dag, 33 ára kappinn.
Ég kynntist honum fyrst svona að einhverju ráði fyrir rúmu ári síðan og leist ágætlega á hann. Ég spurðist aðeins fyrir um hann hjá fólki sem ég þekki og vissi að þekkti hann betur en ég og það voru alls staðar sömu svörin, hún verður heppin sem fær hann Bjössa því hann er einstakt góðmenni. Fólk vissi ekki afhverju ég var að spyrja en ég var ánægð með svörin. Bjössi hefur síðan sýnt það með viðmóti sínu og framkomu að umsagnir um hann voru ekki orðin tóm. Hann er duglegur strákur, elskar og umvefur Eyglóina sína og þau hjónin eru dugleg og samhent í að koma sér vel fyrir og njóta lífsins. Hann er með veiðidellu eins og tengdapabbinn og Karlott hennar Írisar og þeir hafa nú þegar farið í eina veiðiferð saman tengdafeðgarnir og Bjössi kom heim með eina fiskinn sem kom á land í þeirri ferð :o) Ég er hinsvegar alveg viss um að það var bara fyrsta ferðin þeirra saman en ekki sú síðast.

Bjössi minn, ég óska þér innilega til hamingju með daginn, hlakka til að kynnast þér enn betur og bið Guð að blessa þig ríkulega í leik og starfi.

þriðjudagur, júní 19, 2007

Töffarinn á bænum

Flottur

Þetta er nú eitthvað dularfullt hvað ég er oft orðin ein heima, ætli ég sé svona leiðinleg? Nei ég held varla, enda er ég ekki alveg ein heima. Við Hrund erum hér tvær í húsinu þar sem aðaltöffarinn á heimilinu fór í morgun í árlega veiðiferð strákanna úr Kotinu.
Kl rúmlega átta í morgun voru hér mættir á svæðið fjórir töffarar og sá fimmti var hér fyrir. Stefnan var tekin á Þórisvatn en þangað hafa þeir farið saman í nokkur ár frændurnir og komið heim með góðan afla. Silungurinn úr Þórisvatni er sá allra besti og ég hlakka bara til að fá grillaðan fisk annað kvöld.


Sl föstudag hringdi Erling til mín í vinnuna fljótlega eftir hádegi. “Erla mín” sagði hann, “væri nokkur möguleiki á að þú værir komin heim á Selfoss fyrir kl þrjú?” “Ja ég veit það ekki, ég er að vinna verkefni og ég veit ekki alveg hvenær ég er búin”, var svarið.
“Sko, sýslumannsskrifstofan lokar kl þrjú og mig vantar svo að láta fara með pappírana mína úr bifhjólaprófinu þangað svo ég fái bráðabirgðaökuheimild fyrir helgina” sagði minn frábæri eiginmaður. “En Erling minn, útskriftarveislan hennar Kötu byrjar kl sjö í kvöld og svo erum við að fara til Akureyrar í fyrramálið þannig að þú getur hvort sem er ekkert hjólað um helgina OG SVO ÁTTU EKKERT HJÓL HELDUR.” “Ég er að fara að skoða hjól á eftir sem mig langar að kaupa” sagði hann “og ef þú getur þetta ekki þá get ég ekki hjólað á því heim og þá get ég ekki hjólað eftir veisluna og aðeins á laugardagsmorgni áður en við förum”. Þetta skildi ég alveg og vinnufélagarnir sýndu þessu mikinn skilning, ekki hægt að hafa þetta af honum og auðvitað fór ég austur og fékk þetta fyrir hann.

Kl hálf sjö hringdi hann og spurði hvort það væri ekki í lagi að koma ekki alveg á réttum tíma í veisluna þar sem hann væri akkúrat að ganga frá kaupum á hjólinu og ætti eftir að hjóla heim. Erling er stundvísasti maður sem ég þekki og því vissi ég að þetta var honum mjög mikilvægt fyrst hann var til í að koma ekki á tilsettum tíma. Það var hörku töffari sem kom heim, algallaður með hjálm á höfði og stoltur af gripnum sínum. Þetta er hjól sem hægt er að fara á út fyrir malbikið og ég veit að honum finnst það stór kostur.

Norðurferðin gekk vel og helgin var mjög skemmtileg. Við fórum á Bifhjólasýningu og Bílasýningu og meira segja fannst mér gaman að þessu. Tilefni norðurferðar var hinsvegar að fagna með henni Júlíönu vinkonu okkar, konunni hans Rúnars, en hún var að útskrifast sem þroskaþjálfi.

Það er alltaf gott að koma heim eftir ferðalög og Selfoss tók á móti okkur með sól og blíðu og veiðimennirnir voru mættir á Ölfusárbakkann strax í gærkvöldi.

Jæja, ég ætla að fara upp til Hrundar og athuga hvað hún er að bralla.
Njótið lífsins vinir, munið Pollýönnuleikinn ef á móti blæs, hann gagnast oftast..... Þangað til næst........

mánudagur, júní 11, 2007

11. júní - 1 ár liðið

Frábær dagur er að kvöldi kominn, sólin skín enn þótt klukkan sé langt gengin í tíu.
Ég er ein heima þessa stundina, Erling er í mótorhjólatíma ásamt Badda vini sínum og það styttist í prófið sem verður næsta mánudagskvöld, þ.e. eftir eina viku.

Sniglar.is er vinsæl síða þessa dagana enda er verið að leita að flottu og öflugu hjóli sem getur borið okkur bæði og það er víst þannig að það hjól þarf að vera með nokkra sterka hesta í vélinni. Hrund skrapp til Reykjavíkur eftir vinnu að heimsækja systur sínar. Hún fékk vinnu á sambýli hér á Selfossi og er mjög ánægð þar, finnst þetta bæði gefandi og skemmtileg vinna. Henni býðst svo vinna þarna í vetur við liðveislu en það felst í að fara með íbúana á Sambýlinu út á kvöldin, t.d. í bíó eða á kaffihús.

Helgin var góð, eftir vinnu á föstudag kíktum við á fjölskylduna okkar í Háholtinu og litli prinsinn dafnar vel og systur hans kunna sko alveg umgengnisreglur um hann. Ljósan er búin að spjalla við þær og kenna þeim aðeins á hann og það er gott. Þau mæðgin eru að jafna sig á fæðingunni og Erling Elí er alveg kominn með eðlilegan húðlit og er alveg yndislegur.


Gott að hafa puttann á afa svona til öryggis, ekkert smá sætt

Eftir þessa heimsókn fórum við í afmæli til Ellu systur og alltaf gaman að hitta fólkið sitt. Síðan var stefnan tekin austur yfir fjöllin tvö (eins og Petra Rut segir) og heim í Húsið okkar við ána. Erling var búinn að kaupa rafmagnsgeislahitara til að hafa á pallinum og við settumst út á pall og sátum þar undir hitanum og spjölluðum saman langt fram á nótt. Bara notalegt og skemmtilegt.

Arna kom á laugardeginum með gullin sín og seinni partinn fór Sara Ísold til afa síns, vafði litlu handleggjunum um hálsinn á honum og spurði hvort þær mættu ekki bara gista í afahúsi. Það var auðsótt mál og því var heilmikið fjör hér alla helgina en bara gaman að því. Eygló og Bjössi komu líka við og þegar börnin voru sofnuð löbbuðu stóru krakkarnir sér út á Olís og keyptu shake handa okkur og við sátum á veröndinni undir geislahitaranum langt fram á kvöld og enn var spjallað saman og mikið hlegið.

Í gær fór Erling að vinna aðeins fyrir austan en kom heim fyrir kaffi og Hjalli og Sigrún komu við hjá okkur á leiðinni í bæinn og það var mjög gaman að hitta þau.
Fólk er miklu duglegra að kíkja við hér á Selfossi heldur en í bænum og okkur finnst það alveg meiriháttar skemmtilegt.

Í dag er ár síðan við fluttum hingað og við erum alltaf ánægðari og ánægðari með lífið og tilveruna enda erum við lukkunnar pamfílar og við lútum höfði í þakklæti frammi fyrir Guði sjálfum sem gaf okkur líf í fullri gnægð og möguleika til að njóta þess til hins ítrasta.
Hafið það gott vinir mínir.........þangað til næst

mánudagur, júní 04, 2007

Nýjar myndir

Það er svolítið skrýtin sú tilhugsun að það sé kominn lítill strákur í fjölskylduna. Stúlka hefði alveg verið jafnvelkomin en auðvitað er gaman að eiga bæði kynin. Því miður var Erling svo upptekinn í dag að hann hafði ekki tíma til að kynna unga prinsinn aðeins fyrir veiðidellunni en það er alveg víst að hann eins og systur hans og frænkur munu eiga eftir að njóta veiðidellu afans og fá að fara með á staði sem hentar þeim. Svo hefur afinn stofnað ísfélag með barnabörnunum og þá er gott fyrir hann að fá dreng með svona aðeins til að rétta kynjahlutfallið af.

Það má greinilega sjá Kotsvip á þessum fríða unga manni

Ég skrapp aðeins eftir vinnu og leyfði systrunum að kíkja á bróðir sinn sem kom heim í dag í öruggri fylgd foreldra sinna. Þær ætluðu samt að gista aðra nótt hjá okkur í “Húsinu við ána” en langaði bara aðeins að sjá bróðirinn áður en við myndum keyra yfir bæði fjöllin til Selfoss eins og Petra Rut segir. Þá á hún við Svínahraun og Hellisheiði. Skýrleiksstúlka á ferð. Hún sagði mér líka að hún væri stóra stóra systir hans og að Katrín Tara væri stóra systir hans :o)
Flottustu mæðgin sem ég þekki

Þarna er stóra stóra systirin að umvefja bróður sinn

Ég tók nokkrar myndir af fjölskyldunni í Háholtinu og nýjasta meðlim hennar. Eins og þið sjáið þá er bláminn aðeins að víkja fyrir eðlilegum húðlit en þessi blámi er ekkert til að hafa áhyggjur af, þetta er víst mjög algengt þegar fæðingin ber brátt að og bláminn hverfur á nokkrum dögum.
Stoltir fallegir foreldrar með fallegu börnin sín


Yndislegastur

Erling Elí Karlottsson

Klukkan var bara 9:45 á sunnudagsmorgni þegar ég var vakin með símhringingu. Í símanum var Petra Rut og hún tjáði mér að þær systur þyrftu að koma til okkar afa hennar í dag því mamma hennar og pabbi væru að fara til læknisins og litli bróðir hennar kæmi á morgun.

Ég dreif mig á fætur og eftir að hafa drukkið kaffibolla með Erling sem var auðvitað löngu kominn á fætur þá ók ég til Hafnarfjarðar og sótti litlu ömmustelpurnar mínar sem þar búa. Það er nú ekki venja hjá mér að óska neinum þess að versna verkir en ég kvaddi samt dóttur mína með óskum um að líðan hennar færi versnandi og við þrjár ókum svo heim á Selfoss.


Það var svo rúmlega sex sem Íris hringdi og sagði okkur frá því að litli prinsinn væri mættur á svæðið og hann væri fullkominn. Hann er tíundi afkomandi okkar og það var ekki laust við að amman klökknaði og ég var full þakklætis því börnin eru jú sannkölluð Guðs gjöf inn í líf okkar. Litli prinsinn fékk nafn í höfuðið á afa sínum honum til heiðurs, og heitir Erling Elí. Hann var 17 merkur og 54 cm.
Við fórum áðan og kíktum á snáðann og systur hans vissu ekki alveg hvernig þær áttu að vera, þetta var allt svo spennandi. Erling Elí er alveg yndislegur, líkur Katrínu Töru og þar af leiðandi pabba sínum líka. Írisi og prinsinum heilsast vel en fæðingin var erfið og reyndi á þau bæði.

Tek undir með afanum www.erlingm.blogspot.com að við erum rík, moldrík. Blessunum Drottins rignir yfir okkur.
Hafið það gott vinir mínir......þangað til næst