laugardagur, mars 31, 2012

Marta Líf eins árs afmælisprinsessa



Það er alveg hreint ótrúlegt að það skuli vera komið heilt ár síðan litla (ekki samt minnsta :) ömmustelpan mín ákvað að skjótast í þennan heim á "Saga class" eins og mamma hennar orðaði svo skemmtilega. Ég var búin að fara í bæinn og sækja systkini hennar því það var ljóst að daman var um það bil að fara að láta sjá sig. Það var svo snemma kvölds sem Íris hringdi og spjallaði fyrst við eldri börnin sín og sagði okkur svo frá að daman hefði verið tekin með bráðakeisara en allt gengi vel og að þeim mæðgum heilsaðist vel. Hún fékk strax nafnið Marta Líf og er alger gleðigjafi inní líf okkar allra. Hún er alltaf svo brosandi og kát og yndisleg að það er enginn vandi að heillast algerlega af henni.

Stóru systkini hennar eru dugleg að leika við hana og eldri systurnar passa hana af kostgæfni.

Hún er dugleg stelpa og fer vel fram og hún er svo heppin að mamma hennar gat lengt fæðingarorlofið og unnið heima við svo sú stutta nýtur lífsins í dekri og þægindum.

Elsku litla yndigull, við afi þinn óskum þér til hamingju með daginn og hlökkum til að koma í afmælisveisluna þína. Við elskum þig endalaust litli gleðigjafi og hjartabræðari.

mánudagur, mars 12, 2012

Mamma afmælisskvísa



Elsku bestasta og yndislegasta mamman mín á afmæli í dag og þótt það trúi því fáir sem sjá hana þá er hún orðin 72ja ára gömul þessi unglega stelpa. Það var ekkert til sparað þegar Guð skapaði hana, henni var úthlutað óteljandi hæfileikum og fegurð og ég segi það enn og hef alltaf sagt að það er ekkert sem hún getur ekki gert þessi elska. Hún er svo sannarlega einstök kona og allir sem kynnast henni elska hana enda ekki annað hægt. Hún er ekki fyrirferðamikil kona en hún hefur breitt bak og hefur tíma fyrir alla sem leita til hennar og þeir eru sko ófáir. Ég er líka svo heppin að eiga hana ekki bara fyrir mömmu heldur erum við líka vinkonur og hún er alltaf til staðar fyrir mig og allt mitt fólk. Þar sem hún er hjúkka þá er auðvitað alltaf byrjað á að leita ráða hjá henni fyrst ef eitthvað kemur uppá enda hefur reynslan kennt henni svo margt og hún er oft á við besta lækni, getur allavega vel metið hvert á svo að halda næst ef það þarf að leita lengra.



Elsku mamman mín um leið og ég óska þér til hamingju með daginn þinn vil ég segja þér að ég er Guði svo þakklát fyrir að hafa valið þig til að vera mamman mín og ég er svo stolt af þér og elska þig milljón. Njóttu dagsins þíns í botn. Knús frá okkur Erling úr sveitinni

fimmtudagur, mars 01, 2012

Eygló og Arna afmælisstelpur



Ég man það eins og það hafi gerst í gær þegar ég fékk að vita að barnið sem við Erling áttum von á var ekki bara eitt heldur tvö. Í þá daga tíðkaðist ekki að feður færu með í sónar og því fórum við Íris, sem þá var rúmlega tveggja ára, tvær saman til Reykjavíkur með Akraborginni og mamma, þessi elska, sótti okkur á bryggjuna og keyrði mig upp á spítala í sónarinn. Þá var heldur ekki til sónar á öllum landsbyggðarsjúkrahúsum eins og er í dag og konur fóru ekki í sónar nema grunur væri um að eitthvað væri ekki alveg samkvæmt áætlun og í mínu tilviki hélt ljósan að ég væri gengi lengra með en dagatalið sagði. Mig grunar nú samt alveg að henni hafi grunað hvað þetta var en ekki viljað segja neitt um það. Við Erling áttum heldur ekki heimasíma og því höfðum við ákveðið að hann færi á símstöðina í hádeginu til að hringja í mig og fá fréttir. Hann stóð því í símaklefa og ég sagði honum frá tveimur börnum á leiðinni og hann missti málið, sagði ekkert og þá meina ég ekkert í eina til tvær mínútur og ég alveg...Erling, Erling ertu þarna?


Já það hefur margt breyst síðan þá en samt eru bara 31 ár síðan Eygló og Arna, tvíburadætur okkar fæddust. Þær elska að vera tvíburar en það má samt ekki tala um þær sem tvíbura og þegar þær voru litlar þoldu þær ekki ef krakkar komu og spurðu eftir "tvíburunum". Þær eru ótrúlega samrýmdar og hugsa oft eins og það er eins og það sé óskiljanlegur þráður á milli þeirra. Stundum dreymir þær sömu drauma sömu nótt. Þær hafa alltaf verið okkur miklir gleðigjafar og við erum ákaflega stolt af þeim. Þær vinna báðar á leikskóla en samt ekki sama og það á vel við þær að vinna með börnum. Eygló er gift honum Bjössa og þau eiga tvö börn, Erlu Rakel 3ja ára og Andra Ísak eins árs. Arna er gift honum Hafþóri og hún á þrjár dætur frá fyrra hjónabandi, Daníu Rut 9 ára, Söru Ísold 8 ára og Þórey Erlu 6 ára. Arna og Hafþór eignuðust svo litlu Hrefnu Björgu 21. febrúar sl og er hún því rétt um viku gömul og það munaði bara einum degi að hún fæddist á afmælisdegi Andra Ísaks frænda síns.


Elsku stelpurnar mínar, við pabbi ykkar óskum ykkur innilega til hamingju með daginn ykkar, við vitum að þið munuð njóta hans og við hlökkum til að hitta ykkur hér í sveitinni á laugardaginn. Við elskum ykkur meira en orð fá lýst.