föstudagur, desember 26, 2008

Jólin...

Það er ekki skrýtið að mann hlakki mikið til jólanna því þau eru svo hrikalega skemmtileg. Hér í Húsinu við ána hefur verið líf og fjör þessa yndislegu jólahátíð. Við, Hrund amman og afinn, nutum þeirra forréttinda að hafa Örnu og litlu dömurnar hennar hjá okkur, þær glæða húsið svo skemmtilegum blæ. Þær litlu voru við það að fara yfir um af spenning á aðfangadag en samt var mesta furða hvað þær létu pakkaflóðið undir trénu eiga sig. Ef einhver gerðist of nærgöngull við pakkana þá létu þær í sér heyra að það mætti ekki kíkja „fyrr en í kvöld“. Það var margt fallegt sem kom upp úr þeim pökkum og stuttu seinna leit stofan út eins vera ber á aðfangadagskvöld, varla hægt að þverfóta um gólf fyrir leikföngum, pappír og fleira. Eins gott að ég mundi eftir að kaupa svarta stóra ruslapoka.

Í gær, á jóladag, komu svo hinar stelpurnar með sitt fólk og við áttum saman mjög notalegan dag, vorum dugleg með nammiskálarnar og litla fólkinu fannst ekki leiðinlegt að það var alltaf sagt já þegar þau spurðu hvort þau mættu fá mola. Þótt enn hafi fjölgað hjá okkur þá var samt enn pláss fyrir alla við borðstofuborðið enda er Erla Rakel aðeins rúmlega tveggja mánaða. Þetta er mér svo dýrmætt að ég kem þeim hugsunum ekki á blað, get ekki lýst því hvað það gleður mig að hafa allt fólkið mitt hjá mér og allir eru sáttir og glaðir. Við hjálpumst öll að og þess vegna tekur undirbúningur og frágangur eftir matinn stuttan tíma og svo geta allir sest inn aftur yfir kaffi og Nóa konfekti ásamt ýmsu góðgæti sem var verslað í Boston, svona öðruvísi nammi.




Ég er nú vön því á frídögum að vera ekki að rífa mig upp allt of snemma og núna um jólin er engin undantekning á því. Þegar ég vaknaði í morgun var Erling að lesa og ég fór aldrei þessu vant á fætur á undan honum. Eftir sturtuna kom ég inn til hans og voru þá ekki komnar þrjár skvísur í mitt rúm og þeim fannst það ekki lítið fyndið. Ég sagði þeim að þær væru svo mikil krútt. Þá gall í Söru Ísold, „við erum krútt en ekki amma og afi.“ Nú sagði ég hvað erum við þá. Þá setti hún upp þetta líka fallega bros og sagði mjög blíðlega „þið eruð yndigull“ Getið þið ímyndað ykkur að það sé hægt að fá fallegri gullhamra? Það get ég alla vega ekki.


Í dag er stefnan svo sett á Fitina, ætlum að fara með stelpurnar og sýna þeim breytinguna þar en Hrund og Arna hafa ekki komið þangað síðan um verslunarmannahelgi og það er bara ekki hægt.
Litlu dömurnar eru spenntar að fara þangað, vita líka að amman ætlar að hafa til nesti og kókomjólk, ekki leiðinlegt finnst þeim. Við komum aftur heim í kvöld því þá er okkur boðið að vera með í góðra vina hópi og við hlökkum til

Njótið lífsins vinir mínir, það er bæði gott og skemmtilegt....Þangað til næst...

sunnudagur, desember 21, 2008

Jólin eru alveg að koma, jibbí

Þá mega jólin koma, húsið er skreytt og fallegt jólatréð stendur í stofunni og marglit ljósin lýsa upp skrautið á því. Hver hlutur á trénu á sína sögu og það er svo gaman þegar þeir koma uppúr kössunum og rifja upp hvar þeir voru fengnir. Stelpurnar okkar vita alveg hvað á að vera hvar og taka hiklaust eftir ef eitthvað vantar í skreytingum á trénu. Nostalgía hvað......

Helgin hefur verið viðburðarík og skemmtileg með eindæmum. Stelpupartí á föstudagskvöld, jólatónleikar Sinfóníunnar í gær og eftir þá var brunað beint á Skagann til að fagna með vinum okkar Barbro og Sigga en Marianne dóttir þeirra var að útskrifast sem stúdent og hún gerði sér lítið fyrir og dúxaði eftir að hafa lokið 148 einingum á 7 önnum í stað 8 eins og venjan er. Dugleg skvísan sú.

Við náðum samt að komast heim í gærkvöldi áður en veðrið versnaði og allt varð kolófært. Hér á Selfossi hefur snjóað mjög mikið og í morgun var gatan okkar bara alveg ófær. Erling fór tvisvar út í dag að aðstoða fólk sem var búið að festa bílana sína fyrir framan gluggana okkar.

Nú er frábær dagur að kvöldi kominn, eins og segir í upphafi þessa pistils þá er búið að skreyta allt húsið og við meira að segja brutum áralanga hefð og skreyttum jólatré áður en sjálf Þorláksmessa rann upp svo nú er bara spurning hvað á eiginlega að gera á Þorláksmessu fyrst ekki þarf að skreyta og pússa allt hér heima? Hrund er að reyna að draga okkur gömlu með á jólatónleika á Thorsplani í Hafnarfirði en hún hefur samt ekki enn fengið svar við því.

Á morgun er síðasti vinnudagur fyrir jól og reyndar kannski á þessu ári, veit það ekki alveg en í mesta lagi þarf að mæta aðeins milli jóla og reikna laun annað ekki. Ég er líka alveg viss að vinnudagurinn á morgun verður ekki langur, kannski til kl eitt. Eftir það ætlum við Hrund að skreppa aðeins saman að versla jóla, jóla, jóla........og fá okkur svo einhvers staðar kaffi á eftir, hún er að segja mér að smakka kaffi latte, hef aldrei smakkað það en „barnið“ drekkur það :o) Alllavega hlakka ég til að eyða deginum með henni og svo keyrum við þrjú saman heim að loknu dagsverki okkar allra.

Jólalögin óma úr stofunni, ég ætla að fara inn í límsófann og njóta samveru við feðginin mín, þau eru svo skemmtileg....Njótið daganna því þeir eru góðir...... Þangað til næst

mánudagur, desember 15, 2008

Hvað eiga kindakæfa og jólabréf sameiginlegt....

......Lokahönd lögð á hvort tveggja í sama eldhúsinu:o)

Við vorum snemma heima í dag hjónin. Eins og venjulega togaði límsófinn fast í okkur en að þessu sinni var ekki kaffi í bollunum heldur bjó Erling til heitt súkkulaði, aðventukaffi fyrir tvö sagði þessi frábæri maður minn.

Á heimleiðinni höfðum við komið við í SS og keypt 10 kíló af kindaslögum og eftir súkkulaðið þá var hafist handa við kæfugerð, þ.e Erling fór að búa til kæfu. Það var svo notalegt að vera hér í fallega eldhúsinu okkar, ég var að ljúka við jólabréfið okkar og Erling var að malla kæfu, þetta var bara svo hrikalega heimilislegt.

Núna er klukkan alveg að verða miðnætti, Hrund er nýkomin heim og Elva vinkona hennar er með henni og þær sitja hér hjá mér við eldhúsborðið og þær tala hvor í kapp við hina, ekki þögn eina mínútu. Gaman að þessum elskum. Erling er farinn að prenta út sýnishorn af bréfinu góða og við ætlum að setjast inn og lesa það yfir áður en það verður prentað endanlega.

Við erum tilbúin í jólin, húsið skreytt, kæfan tilbúin, reykti laxinn í kistunni, það gæti ekki verið betra. Njótið lífsins vinir, það er svo skemmtilegt.....

miðvikudagur, desember 03, 2008

4ra ára afmælisprinsessa

Hún er ljóshærð með blá augu, mjög fjörug og skemmtileg, uppátektarsöm með afbrigðum og lætur hafa fyrir sér, ákveðin og veit svo sannarlega hvað hún vill en brosið hennar.......blikið í augunum......ískrið í henni þegar henni þóknast að koma og knúsa ömmu sína.

Hún Katrín Tara, ein af ömmustelpunum mínum og vinkona mín, algerlega ómótstæðileg lítil (stór) dama er fjögurra ára í dag og hún er sko búin að bíða lengi eftir að verða fjögurra ára og geta sýnt fjóra putta. Ég veit að hún fékk að fara í kjól í leikskólann í dag og það var sko ekkert smá spennandi enda er hún með afmælisveislu þar í dag. Ég og hún eigum okkar spes kveðju. Þegar hún var yngri þá vildi hún aldrei kyssa bless og þar sem ég er algerlega á móti því að þvinga börn til að kyssa fullorðna þá fundum við upp okkar eigin kveðju og höfum haldið því við. Þegar þau fjölskyldan eru að fara frá okkur eða við frá þeim þá labbar hún í burtu, snýr sér svo við og ég sendi henni fingurkoss sem hún svo grípur og skellir á kinnina á sér og svo fæ ég einn tilbaka. Þvílíka krúttið.

Elsku Katrín Tara mín, innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, ég bið Guð að vaka yfir hverju þínu spori. Þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar eins og systkini þín og litlu frænkurnar þínar. Ég elska þig meira en orð fá lýst og það eru mín forréttindi að fá að vera amma þín

miðvikudagur, nóvember 26, 2008

Hvaða stefnu?

Mér finnst nú hálf ótrúlegt að eftir aðeins 4 vikur verði kominn aðfangadagur jóla. Ég er örugglega ekki ein um að finnast við nýbúin að ganga frá jólaskrautinu og var það þó gert í fyrstu viku janúarmánaðar eins og vera ber. Hins vegar er ég alltaf mjög spennt fyrir jólunum og hlakka mikið til þeirra. Jólin eru táknmynd upp á fæðingu frelsarans og þeim fylgir svo mikil gleði og friður. Kannski ætti ég að segja að þeim ætti að fylgja gleði og friður því það er ekki alltaf svo alls staðar. Því miður er alltof mikið um að fólk týni þessari gleði og þessum sanna jólafriði í öllum látunum við að kaupa jólin.

Í dag sem aldrei fyrr er mjög nauðsynlegt að njóta þessa tíma sem framundan er. Eftir allt sem gengið hefur yfir íslenska þjóð undanfarnar vikur þurfum við að staldra aðeins við og átta okkur á hvað það er sem við viljum. Eigum við að halda áfram að vera reið, pirruð, ergileg, vonlaus og allt það eða taka ákvörðun um að láta ekki kringumstæður þrykkja okkur niður heldur horfa fram á veginn. Amma mín sem er dáin fyrir mörgum árum sagði einu sinni við mig að þegar við ættum ekkert nema tvær tómar hendur, væri það besta sem við gerðum við þær, að leggja þær saman í bæn til Guðs.

Í fyrradag var ég að keyra til borgarinnar og í baksýnisspeglinum sá ég sólarupprásina, svo fallega og yndislega. Mér varð hugsað til landsins míns, náttúrunnar og alls þess sem Guð hefur skapað og gefið okkur. Þetta er allt á sínum stað okkur til yndis og ánægjuauka. Landið þar sem við fáum hreint vatn bara með því að skrúfa frá krananum heima hjá okkur. Í Ameríku voru margir sem spurðu okkur hvaðan við værum og einn sagði við mig, ummm eruð þið frá Íslandi þar sem maður fær gott vatn beint úr krananum. Íslenskar afurðir eru frábærar og þær eru á sínum stað eins og svo margt annað.

Ég hvet ykkur lesendur mínir til að njóta daganna og eyða ekki orku í ergelsi og pirring. Við erum engu bættari með því nema síður sé. Vissulega hefur fjármálaumhverfið og atvinnuumhverfið breyst ískyggilega hratt og ég geri ekki lítið úr þeim erfiðleikum. Það er ömurlegt að missa vinnuna og heimili sitt en það má samt ekki gleyma því að það er líf eftir gjaldþrot. Reynsla áranna hefur kennt mér að það er alveg hægt að setja sig á þann stað að vera ánægður með sitt, hverjar sem kringumstæðurnar eru. Það þarf bara að sníða sér stakk eftir vexti.

Setjumst niður með börnunum okkar, líka þessum fullorðnu, tölum saman, eigum tíma saman, styðjum hvert annað og sýnum hvert öðru ást og umhyggju. Heimsækjum þá sem eru veikir, gefum af tíma okkar, gefum börnunum jólagjafir og sleppum þeim fullorðnu ef veskið er létt. Það þarf ekki endilega að eyða svo miklu í gjafirnar því börn eru alltaf börn og flest telja hvað þau fá marga pakka en eru ekki að reyna að finna út hvað þeir kostuðu. Verndum börnin fyrir of miklu krepputali, litlar sálir eru svo viðkvæmar og geta heyrt allt annað en sagt er og það valdið þeim miklum óþarfa áhyggjum.

Svo er þetta spurning um hver ætlar að vera fyrstur til að bjóða okkur Erling heim í heitt jólasúkkulaði með þeyttum rjóma????? Ég mun líka bjóða þeim sem kíkja á aðventunni uppá heitt súkkulaði, keypti fullt af Bónus suðusúkkulaði áðan og bráðum fáum við hluta af afla sumarsins úr reyk :o)

Ég er glöð og horfi björtum augum fram á veginn, hef séð það svartara í mínum persónulegu fjármálum og ratað út úr þeim hremmingum. Þangað til næst.....

miðvikudagur, nóvember 19, 2008

Boston ferðasaga, varúð löng lesning

Eins og segir í færslunni hér fyrir neðan þá rann loksins upp dagurinn sem búið var að bíða eftir í eitt ár. 5 dagar í Boston voru framundan og mikil spenna lá í loftinu. Um klukkan hálfeitt komu Hansi og Auja hingað en þeir bræður höfðu sammælst um að Erling myndi keyra okkur en Hansi ætlaði að sækja okkur. Veit ekki hvort það hafði eitthvað með það að gera að Hansi er á pallbíl með húsi og því nóg farangurspláss, kannski hafa þeir haldið að við kæmum heim með fleiri töskur en við fórum með. Það var reyndar ekki alveg rétt því við fórum með allar töskur með okkur en bara hvora ofan í annarri. Við komum svo við í Hafnarfirðinum og tókum Gerði með okkur. Hildur, Sigrún, Gerða og Una voru komnar á undan okkur á flugvöllinn.

Ekki vorum við nú fyrr komnar inní Fríhöfnina fyrr en hin kvenlegu gen okkar komu í ljós og setning sem átti eftir að heyrast oft í ferðinni, heyrðist í fyrsta sinn; „Hvar fékkstu þetta, mig vantar líka svona“ Bara gaman að því. Eftir að hafa rölt um og verslað það sem nauðsynlegt þótti, settumst við niður og fengum okkur brauð, vatn og sumar fengu sér rauðvín eða hvítvín. Gerða vakti forvitni okkar því hún sagðist vera með leyndó í töskunni en við fengjum ekki að vita hvað það væri fyrr en síðar.

Mér finnst alltaf skrýtin tilfinning þegar flugvélin hefur sig á loft frá íslenskri grund, það er sennilega þessi mikla þjóðernisremba sem er í mér. Flugið gekk vel og það var svo heiðskýrt að glöggt mátti sjá Grænland langt fyrir neðan okkur, há fjöllin og tignarlega jöklana. Við höfðum fengið bréf frá Icelandair áður en við fórum af stað þar sem okkur var tilkynnt um nýja þjónustu um borð, nú væri matur ekki lengur innifalinn en þar sem við höfðum keypt flugið okkar fyrir þetta löngu þá fengjum við samloku ÓKEYPIS. Reyndar kom svo í ljós að við gátum valið á milli þriggja rétta en svo kom að því að leyndarmálið hennar Gerðu var upplýst. Haldið þið að þessi elska hafi ekki verið búin að smyrja handa okkur öllum ekta vestfirskar Hrefnu hveitikökur með hangikjötisalati og svo líka með osti. Þessu hafði hún svo pakkað inn og sett slaufu utan um. UMMMM, þetta var sko vel þegið.
Við lentum í Boston rúmlega hálfsex að staðartíma og það gekk bara vel að komast í gegnum tollinn og það allt, en reyndar eru þeir ferlega taugaveiklaðir og spyrja ótrúlegra spurninga, við sem erum bara sárasaklausar skvísur á leið að skemmta okkur ærlega í fallegu borginni þeirra. Þeir meira að segja voru svo forvitnir að vilja vita hvað við Gerða vorum með mikla peninga á okkur.....
Við tékkuðum okkur inná Hótel Lenox, gamalt og virðulegt hótel frábærlega staðsett rétt hjá hinni frægu götu Newbury street. Við rétt skelltum töskunum inn og fórum svo út að fá okkur að borða. Það voru þreyttar en hrikalega ánægðar konur sem komu upp á herbergi um kl. tíu um kvöldið að þeirra tíma en þrjú um nóttina að okkar tíma. Við vorum fjórar saman í öðru herberginu, ég, Sigrún, Hildur og Gerða. Í hinu herberginu voru svo Una, Auja og Gerður. Þegar við vöknuðum svo daginn eftir var enn hánótt í Boston en líkamsklukkan okkar sagði að það væri kominn dagur. Ég heyrði í systrunum „hvísla“ saman og hafði lúmskt gaman af en heyrði ekki orðaskil þær voru svo tillitsamar þessar elskur. Það var svo ekki fyrr en síðasta morguninn sem við gátum sofið aðeins fram á dag hjá þeim.

Þar sem ég er engin „sloppakona“, ég fer t.d aldrei niður hér heima án þess að vera komin á fætur og búin að búa um, þá var það nýbreytni fyrir mig að drekka morgunkaffið í rúminu. Við vorum svo hagsýnar að við keyptum okkur rúnstykki, skinku, ost og ávexti í matarbúðinni (það var lítill ísskápur í herberginu) og svo var Gerða svo viljug að ná alltaf í kaffi handa okkur sem var í boði niðri í lobbýi á hótelinu. Síðasta morguninn var meira að segja eftirrétturinn (ca 1/3 af honum) frá Cheesecake factory borðaður í rúminu, OSTAKAKA, hrikalega góð.

Ég get sagt ykkur það lesendur mínir að það var mikið hlegið og mikið skrafað, mikið verslað/veitt, mikið borðað, mikið drukkið, hlegið meira og verslað enn meira í þessari ferð. Við vorum góðar vinkonur strákanna í móttökunni sem hjálpuðu okkur inn með pokana okkar og vildu allt fyrir okkur gera. Þar sem við erum hagsýnar þá versluðum við í Outlettum og gerðum mjög góð kaup þrátt fyrir hátt gengi á dollar.

Matarskammtar á veitingastöðum í Ameríku eru nú ekkert smá stórir, næst ætlum við að muna að það dugar að panta einn skammt fyrir tvær. Já þið lásuð rétt, ég skrifaði næst þegar við förum, við ætlum nefnilega að fara aftur saman ef Guð lofar. Við fórum t.d á humarstað, mjög flottan og pöntuðum okkur sitt hvorn humarinn nema Una fékk sér nautasteik, og þvílíkir skammtar, engin okkar gat klárað sinn. Í annað skipti fórum við á frábæran stað sem heitir Cheesecake factory og við fengum hláturkast þegar við sáum salatið sem Gerða pantaði. Það sá ekki högg á vatni þegar hún var búin með þetta og það dugði fyrir nokkrar með rúnstykkjunum næsta morgun. Þarna er nefnilega vani að taka afganga heim með sér.

Flottasti staðurinn sem við fórum á heitir Top of The Hub og er staðsettur á 52. hæð í útsýnisturni sem er rétt hjá hótelinu. Ég sat þarna við borðið, horfði á útsýnið í allar áttir og mér fannst ég vera drottning í ævintýri. Vissulega var gaman að vera með þessum skvísum þarna en samt hugsaði ég með mér hvað það væri rómantískt að vera þarna með besta vininum mínum, flotta manninum mínum, en það bíður betri tíma. Maturinn var frábær, nautasteik með tilheyrandi, rauðvínsglas, creme brulee í eftirrétt (alveg eins gott og þegar ég geri það, sagt með mikilli hógværð) og kaffi. Algerlega himneskt.


Við fórum í útsýnisferð um borgina með einhverskonar bílabát og það var mjög gaman. Fyrst var ekið um borgina og svona helstu staðir kynntir, svo ók hann niður að á og skellti sér bara útí og sigldi um ána. Þetta var í ljósaskiptunum og meiriháttar að sjá breytinguna á borginni og svo ljósin frá húsunum fara að endurkastast á vatninu. Næstum eins flott og Ölfusá... en samt ekki alveg :o)
Við gengum niður í garðinn þeirra á leiðinni í miðbæinn og gaman að sjá allt fólkið þar, sumir á hraðferð, aðrir að leika við börnin sín, gamall maður að gera feng shui æfingar, fjölbreytileiki mannlífsins í beinni og íkornar sem þáðu með þökkum brauð sem leyndist í veskinu hennar Sigrúnar.
Ferðin heim til Íslands gekk vel, það var notaleg tilfinningin þegar vélin lenti á íslenskri grund, Ísland er land mitt því aldrei ég gleymi. Tollarinn í Keflavík var mjög forvitinn um innihald tasknanna okkar, ótrúlegt hvað þeir geta verið smámunasamir. Frammi biðu flestir kallarnir okkar glaðir að heimta okkur heim.
Eins og fyrr sagði fékk ég far með Hansa og Auju heim á Selfoss og þar beið Erling eftir okkur, búinn að fara í bakaríið og þau hjón komu inn og drukku með okkur morgunkaffið. Ekki veit ég hvort var glaðara að sjá hitt, ég eða Erling.
Þessi ferð hefur svo sannarlega þjappað okkur betur saman mágkonunum og það var nú einn aðaltilgangur ferðarinnar. Einhvern veginn þykir mér vænna um þessar stelpur heldur en áður og þótti mér samt mjög vænt um þær. Það er bara þannig að fólkið manns er það sem mestu skiptir í lífinu og ég er blessuð með að eiga frábæra að, bæði mín megin og Erlings megin. Þótt ég sé mikill Íslendingur í mér þá er ég samt með þessa amerísku skoðun að fólkið hans Erlings er mitt frændfólk og ég kalla þau hiklaust frændur og frænkur.
Þúsund þakkir fyrir frábæra samveru stelpur mínar, hlakka til að hitta ykkur næst.
Þið sem hafið haft þolinmæði að lesa alla leið hingað,hafið þakkir fyrir það, njótið daganna það geri ég svo sannarlega.....þangað til næst....

fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Boston

Fyrir um einu ári ákváðum við mágkonur og svilkonur í Erlings ætt að fara saman í stelpuferð til útlanda. Í apríl var svo pöntuð og borguð ferð til Boston og í dag er komið að því að leggja í hann. Vélin fer í loftið kl 1700 og það eru 7 spenntar konur að leggja í ævintýraferðalag. Við ætlum að hafa það mjög skemmtilegt, fara út að borða, fara í útsýnisferð í bílabát, kíkjum kannski aðeins í búðir en aðaltilgangurinn er samt að eiga tíma saman, þjappa okkur saman og vera fjölskylda.
Við förum á tveimur bílum út á völl en hef ekki hugmynd hvað marga þarf til að koma okkur heim aftur :o)

Njótið daganna lesendur góðir, Boston ferðasagan í máli og myndum verður komin hér inn fyrr en varir.

miðvikudagur, október 29, 2008

Til umhugsunar...

Gerða mágkona mín sendi mér þetta í dag;


Íslensk kona hefur verið að styrkja námsmann í Uganda sem "óvænt varð á vegi hennar" eins og hún orðaði það. Hann var búinn að lofa að senda henni einkunnirnar sínar sem hann og gerði þegar þar að kom. Þar kom fram að hann hafði fengið A í öllum fögum og góða umsögn að auki. Það var nefnilega búið að gera honum ljóst að góður árangur væri lykillinn að því að hann fengi áframhaldandi styrk.
En allt er breytingum undirorpið í henni veröld og ýmislegt getur vissulega haft áhrif á afkomu Frónbúans og getu hans til að láta gott af sér leiða. Hún var að velta því fyrir sér hvort rétt væri að reyna að segja honum frá gangi mála hér á landi, þ.e. kreppunni og öllu því. Og það gæti því miður reynst nauðsynlegt að skera eitthvað niður styrkinn vegna hins breytta ástands hérna megin. Það eru nefnilega tiltölulega litlar líkur á því að fréttir af Íslenska skipbrotinu hafi borist alla leið til hans þarna í Entebbe. Og svo er alls ekki víst að hann skilji alvöru málsins á sama hátt og við hér heima.
En ef reynt væri að útskýra hið Íslenska kreppuástand fyrir honum sem virðist ætla að fara langt með að sliga þjóðina einhver þó nokkur ár inn í framtíðina, gæti það samtal orðið á eftirfarandi nótum.

*Heyrðu félagi, það er úr vöndu að ráða. Íslenska þjóðin er gjaldþrota!
Hvað segirðu, en leiðinlegt að heyra, eigið þið þá ekki fyrir baunum og maís?
*Jú reyndar eru búðir fullar af mat og enginn vöruskortur.
Hvað segirðu, þið eigið þá mat. Það er gott. En eigið þið þá ekki þak yfir höfuðið lengur!
*Jú við eigum reyndar íbúð eins og flestir og það eru fáir heimilislausir á Íslandi.
En hvað segirðu mér þá? Gengur plága yfir landið, eru allir veikir og heilbrigðiskerfið lamað?
*Nei nei reyndar ekki, við fáum nánast ókeypis læknaþjónustu og erum með ágætt heilbrigðiskerfi.
Nú jæja. Það var gott að heyra. En eru þá skólarnir að loka og fá kannski ekki allir tækifæri til að læra að lesa lengur og sérstaklega þá ekki konur.
*Jú reyndar er 99,9% læsi á Íslandi og menntakerfið er ágætt, margir með háskólagráður og konur ekki síður en karlar.
Það er nú gott, en þið verðið þá að passa er að lenda ekki í stríði við nágrannaþjóðir ykkar.
*Uuuu við erum reyndar ekki með her og teljumst nú frekar friðsæl þjóð. En við þurfum bara að hlusta á bullið og stríðsyfirlýsingarnar í fíflinu honum Gordon Brown. Það er það sem við munum líklega komst næst því að fara í stríð.
Ok. Segðu mér nú samt ekki að þið komist ekki í hreint vatn.
*Við eigum reyndar besta vatn í heimi.
Nú, er vegakerfið þá ónýtt? Hérna í Afríku ganga allir eða nota asna og stundum reiðhjól. Það eru líka til strætisvagnar hérna, en þeir eru alltaf yfirfullir. Eru kannski strætóarnir hjá ykkur hættir að ganga?
*Neeee... Það er verið að ræða um hvort almenningssamgöngur hér eigi að vera ókeypis, en það eru flestallir vegir malbikaðir og næstum allir eru á nýlegum bílum.
Eigið þið þá enga peninga til að gera ykkur glaðan dag? Ég meina, þú sagðir að þjóðin væri gjaldþrota.
*Flestir eiga reyndar einhvern sparnað á bókum þó sumir hafi tapað honum eða hluta hans síðustu daga. Það verður alla vega erfitt að kaupa stærri flatskjái og utanlandsferðunum verður að fækka.
Já, ég á kannski einhvern tíma eftir að fara til útlanda, en ég er nú líka frá Uganda. Hefur kannski enginn vinnu og þurfið þið núna öll að betla?
*Neiiij...! Atvinnuleysið er um 2% en við verðum að flytja Pólverjana aftur heim og fara sjálf að vinna vinnuna sem þeir unnu.
Hmmm... Svo þið hafið peninga, mat, húsaskjól, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, búið við frið, eigið nóg hreint vatn og samgöngur eru góðar.

Segðu mér, hvert var vandamálið aftur?

Eftir þessar vangaveltur um aðstæður okkar hérna uppi á skerinu og þetta ímyndaða samtal,ákvað hún að vera ekki að íþyngja honum með ræfilslegum áhyggjum sínum af "gjaldþrota" eyríki norður í ballarhafi. Námsgjöld hans skulu greidd hér eftir sem hingað til og kannski fær hann líka smá vasapening með. Hann getur þá kannski tekið strætó í skólann endrum og sinnum í stað þess að þurfa ganga í marga klukkutíma. Fé hins meinta íslenska terrorista yrði þá líklega bara vel varið.

sunnudagur, október 26, 2008

Til hamingju með daginn elskan mín

Þegar ég gifti mig fyrir 30 árum síðan var ég ákaflega hamingjusöm ung stúlka. Ég hafði kynnst frábærum strák sem að sögn foreldra minna bauð af sér góðan þokka og það var jafn mikilvægt þá og núna, skil það samt enn betur þegar ég sjálf hef verið í sporum foreldra minna og verið kynnt fyrir tilvonandi tengdasonum mínum.

Erling hefur svo sannarlega staðið undir væntingum mínum og langt umfram það, ég er í dag enn hamingjusamari en ég var á brúðkaupsdaginn okkar, við erum svo lánsöm að vera bestu vinir, getum setið endalaust í límsófunum okkar og spjallað um allt milli himins og jarðar. Við erum meira en bara vinir hann er nefnilega sálufélagi minn og sá einasti eini sem þekkir mig betur en ég sjálf og er mjög næmur á mig og allt sem mér viðkemur. Það þýðir ekkert að segja honum eitthvað annað en satt þegar hann spyr um mína líðan og hann er óþreytandi í að gleðja mig og dekra á allan mögulega hátt.

Afkomendahópurinn stækkar sífellt og eins og áður sagði hafa tengdasynir bæst í hópinn. Dæturnar eru 4 og barnabörnin 7, elsta er 6 ára og sú yngsta aðeins 3ja vikna. Við elskum að ferðast og í vor héldum við uppá 30 ára brúðkaupsafmælið okkar og fórum í frábæra ferð til Egyptalands og mun sú ferð aldrei gleymast. Þess utan á Erling tvö stór áhugamál og ég er mjög ánægð með að hann sinnir þeim vel. Annars vegar er það veiðidellan, enda er það skylda hvers manns að draga björg í bú, er það ekki annars.....ekki síst á þessum kreppudögum og hins vegar er það mótorhjóladellan sem hann er svo búinn að smita mig af.

Ég er ákaflega stolt af manninum mínum, elska hann meira en hægt er að lýsa í einni bloggfærslu og bið Guð að leyfa okkur að eldast saman, svo við getum gengið saman inní sólarlagið, tvær krumpaðar sveskjur hönd í hönd.

Til hamingju með daginn flotti maðurinn minn.....

þriðjudagur, október 21, 2008

Hver er sá heppni....

...sem fær að kaupa hornsvefnsófann okkar Erlings? Við erum sem sagt að selja mjög flottan, lítið notaðan og vel með farinn hornsvefnsófa. Alveg tilvalinn í gestaherbergið eða sumarhúsið...
Fyrstur kemur, fyrstur fær.....kostar nýr 150.000 en þessi kostar bara 55.000 en svo má auðvitað gera tilboð.....

sunnudagur, október 19, 2008

Rólegheit og góðir dagar...

Eina hljóðið sem heyrist núna í Húsinu við ána er í þvottavélinni en hún er að vinna verkin sín. Ég hef verið ein heima alla helgina fyrir utan að Hrund kom heim í nótt úr Reykjavík en er farin aftur til borgarinnar. Erling og Hlynur eru á Fitinni í sinni árlegu bræðraferð. Þótt ég elski fólkið mitt meira en orð fá lýst þá finnst mér líka gott að eiga tíma bara með sjálfri mér. Smá tími í gær fór í tiltekt á húsinu og svo skrapp ég aðeins í kaffi til Tedda og Kötu, alltaf gaman að kíkja við hjá þeim og þegar ég var nýkomin þaðan var bankað og úti voru Christina og Auja, vinkonur mínar úr Fljótshlíðinni. Við áttum saman skemmtilegt samfélag áður en þær héldu svo heim á leið. Aldrei þessu vant kveikti ég á sjónvarpinu og horfði á Skjá einn fram á nótt. Sá m.a. einn leiðinlegasta þátt sem ég hef séð, Singing bee, úff skil ekki hvernig ég nennti að horfa á hann allan...

Annars gengur lífið sinn vanagang hér hjá okkur. Auðvitað fylgist ég með umræðunni í þjóðfélaginu en læt ekki bölmóð og svartsýni hafa áhrif á mig. Það eru mörg tækifæri í þessu skrýtna ástandi á landinu okkar fagra og um að gera að nota þau. Ég er stolt af þjóðerni mínu þótt ég sé ekki ánægð með framgöngu þessara ríku auðmanna sem hafa komið okkur í þessar aðstæður. Landið mitt er alltaf fallegasta land í heimi og enginn tekur frá mér náttúruna sem blasir við út um gluggann minn, yndislegu sólarupprásina á morgnana eða tunglskinið sem speglast svo fallega í ánni seint á kvöldin. Það tekur heldur enginn frá mér ástina eða fjölskylduna mína og það er það sem mestu máli skiptir í þessari orrahríð. Það kostar ekkert að brosa til samferðamanna minna, vera hughreystandi og uppörvandi eins og kostur er. Ég veit að bakvið skýin er sólin og að öll él birtir upp um síðir. Á veturnar verður stundum ófært vegna snjókomu og óveðurs og þá er bara að vera rólegur heima við og bíða af sér veðrið og svo koma snjóruðningstækin og moka frá og leiðin verður örugg og greið. Það sama gildir núna, sumar leiðir eru ófærar og við getum ekki farið allt sem við viljum eða gert allt sem við viljum en við skulum bara vera róleg þangað til leiðir opnast og við getum haldið ferðinni áfram.

Að allt öðru, um síðustu helgi fluttum við Erling dótið okkar yfir í stærri kofann á Föðurlandi og það var bara gaman. Auðvitað er ekki allt orðið eins og við viljum en samt vel íveruhæft. Erling er búinn að tengja kamínuna og mikið var notalegt að sitja í sófanum og horfa á eldinn leika sér innan við glerið. Hansi, Auja, Gylfi og Christina kíktu á okkur og laugardagskvöldið var svo skemmtilegt í góðra vina hópi. Við fórum svo heim í hádeginu á sunnudegi því við vorum búin að bjóða litlu fjölskyldunum okkar í heimsókn, það var svo langt síðan við höfðum verið öll saman en við Erling leggjum mikið upp úr samfélagi við krakkana okkar. Lítil stúlka, Erla Rakel, aðeins 7 daga gömul var þá að fara í sitt fyrst ferðalag austur yfir fjöllin tvö, gaman að þvi.

Framundan er svo skemmtilegt síðdegi hjá mér, ég á von á Erling heim á eftir með allan veiðiaflann og svo er heil vinnuvika framundan með öllum sínum tækifærum og upplifunum. Njótið daganna lesendur mínir og munið að allt það besta í lífinu er ókeypis.......Þangað til næst

föstudagur, október 17, 2008

Þórey Erla afmælisbarn

Gat ekki valið mynd og set því bara báðar :o)
Þar sem ég er orðin sjö barna amma þá er ekki skrýtið að það séu oft afmælisblogg á síðunni minni. Það er mér samt alltaf mikil og sönn ánægja að segja ykkur frá afmælum þessara yndigulla sem skreyta lífið okkar Erlings meira en hægt er að segja.

Hún Þórey Erla, næst yngsta prinsessan mín á afmæli í dag, hún er orðin þriggja ára daman. Það er alveg merkilegt hvað svona lítil mannvera á auðvelt með að snúa stórum mannverum eins og mér um fingur sér og hefur ekkert fyrir því. Brosið hennar, stóru augun hennar og þegar hún kemur til manns og smellir kossi á mann með stórum smelli, allt þetta er algerlega ómótstæðilegt. Þórey Erla er mjög geðgóð og veit alveg hvað hún vill og að eigin mati þá getur hún allt. Algert yndi.

Elsku Þórey Erla mín, ég óska þér innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, þú ert sannkölluð Guðs gjöf inn í líf okkar allra og ég bið Guð að gæta þín hvar sem þú ferð

sunnudagur, október 05, 2008

Erla Rakel Björnsdóttir

Stoltir foreldrar

Yndisleg en ber enn merki eftir tangirnar

Nöfnurnar
Við Erling búum við mikið barnalán og í morgun bættist enn í ört vaxandi hópinn okkar. Rúmlega 11 í morgun hringdi síminn og þreytt rödd dóttur minnar sagði: „Ég er orðin mamma, það var stúlka og hún er fullkomin og fallegust“. Hún fékk strax nafnið Erla Rakel, rúmar 16 merkur og 52 cm með mikið dökkt hár. Fæðingin gekk ekki alveg nógu vel og eftir mjög erfiða nótt hjá mömmunni og auðvitað pabbanum líka því það er ekki auðvelt að horfa á sársaukann hjá maka sínum og geta ekkert gert, þá var litla daman sótt með töngum. Þeim mæðgum heilsast samt vel en þurfa að hvíla sig vel og jafna sig á þessum átökum. Erla Rakel er Guðs gjöf og það má með sanni segja að Eygló og Bjössi séu búin að bíða þó nokkuð lengi eftir henni. Já það ríkir mikil gleði hér í Húsinu við ána og við fórum í bæinn áðan og kíktum á litlu hamingjusömu fjölskylduna okkar. Ég er bæði hrærð og glöð fyrir þann heiður sem foreldrar hennar veita mér með því að velja henni nafnið mitt en þetta er í þriðja sinn sem ég er þess heiðurs aðnjótandi.
Njótið lífsins vinir...þangað til næst....

mánudagur, september 22, 2008

Haust

Þær brostu að mér í vinnunni í dag þegar ég kvaddi þær rétt fyrir kl fjögur og þaut út. „Bless, Erla barnapía“ sögðu þær enda óvanar því eins og ég sjálf að þurfa allt í einu að hendast út til að gleyma ekki að sækja börnin á réttum tíma. Það tókst samt, ég var komin í skólann til Daníu Rutar rétt rúmlega hálffimm og þá búin að sækja hinar dömurnar í leikskólann. Arna og Hrund fóru sem sagt á mót til Toronto og litlu dömurnar verða hér hjá okkur þessa viku og þær sögðu mér áðan systurnar að mamma þeirra hefði farið til útlanda til að ná í nammi handa þeim. Enda hvað ætti hún svo sem að vera að gera annað en einmitt það. Þegar þær voru svo loksins komnar í háttinn og ég var að byrja að biðja með þeim þá spurði Sara Ísold hvort hún mætti gera söður (ekki stafsetningarvilla hún sagði söður) og heilags anda og byrja á Daníu Rut því hún væri elst. Leyfið fékkst og hún þaut uppúr rúminu að systrum sínum og laut yfir þær og signdi þær. Þvílíka krúttið.

Það má segja að hver árstími hafi sinn sjarma þótt auðvitað eigum við öll okkar uppáhalds árstíð. Mitt uppáhald er vorið og svo sumarið en aftur á móti en haustið svo rómantískur tími. Ég er gjörn á að byrgja mig upp af kertum á þessum árstíma og veit fátt notalegara en sitja í stofunni með kertaljós og félagsskap af fólkinu mínu og vinum. Á haustin er maður líka duglegri í alls konar félagslífi, saumaklúbburinn minn byrjar og mér þykir svo vænt um stelpurnar sem eru í honum enda er þessi saumaklúbbur svo gamall að við vitum ekki einu sinni réttan aldur hans. Við Erling erum nokkuð dugleg að fara á tónleika og í leikhús og er svolítið framundan í þeim efnum. Við reyndar horfum nánast ekkert á sjónvarpið, okkur báðum finnst það tímasóun en ég hef samt ekkert á móti sjónvarpi, fínt fyrir þá sem nenna að horfa á það. Ég vil frekar horfa á mynd á dvd þegar mig langar til þess.

Það styttist mjög í að stærri kofinn á Föðurlandi verði íveruhæfur og ég hlakka ekkert smá til þess að sitja þar í notalegum kúrusófa, með snarkandi eldinn í kamínunni sem við fengum á Barnalandi á ótrúlegu verði. Við höfum ekki farið í frí saman síðan við fórum til Egyptalands í apríl en erum staðráðin í að vera þar í nokkra daga núna seinni partinn í október.

Já lífið er skemmtilegt en við söknum auðvitað Hrefnu og það er skrýtið að keyra framhjá Vífilstöðum og eiga ekki erindi þangað. Þótt hún hafi verið orðin veik og ekki alltaf þekkt mig þegar ég kom þá gat maður samt kíkt við, haldið í hendina hennar og sagt henni hvað var að gerast í lífi okkar Erlings. Hún var límið sem hélt krökkunum hennar saman og nú er svo mikilvægt að við höldum merki hennar á lofti. Ég held að fátt hafi henni fundist betra en vita af krökkunum sínum saman, allavega vorum við aldrei of mörg í einu hjá henni í Kotinu forðum daga.
Njótum alls þess góða sem lífið hefur uppá að bjóða, látum ekki krepputal fjölmiðlanna þrykkja okkur niður. Þangað til næst lesendur mínir....

fimmtudagur, september 11, 2008

Karlott er 33ja ára í dag, hann lengi lifi........


Eins og ég hef oft sagt ykkur þá er ég svo heppin að vera ættmóðir margra og ég er líka svo heppin að eiga vináttu fólksins míns og fyrir það er ég mjög þakklát. Í stórri fjölskyldu eru því auðvitað oft afmæli og í dag á annar tengdasonur minn og vinur afmæli. Það er alltaf ánægjulegt þegar fólk fyllir eitt árið í viðbót og á því er engin undartekning núna.

Karlott er einstaklega ljúfur og góður strákur og er vel liðinn hvar sem hann kemur. Hann er forfallinn veiðidellukall eins og tengdapabbi hans og svili og mér finnst frábært þegar við erum öll samankomin og þeir „kallarnir“ eru uppteknir við veiðisögur og fleira því tengt.

Karlott og Íris eiga þrjú yndisleg börn saman og þau eru einstaklega samhent í öllu er viðkemur heimilishaldi og uppeldi á börnunum.Karlott nýtur einnig mikillar hylli á vinnustað sínum, Landsbankanum og eru bæði yfirmenn og samstarfsfélagar mjög ánægðir með hann og stendur hann sig með stakri prýði.

Karlott minn, ég óska þér innilega til hamingju með daginn og bið Guð að blessa þig ríkulega. Við Erling erum stolt af þér. Sjáumst sem fyrst....

sunnudagur, ágúst 31, 2008

Hún er þrítug í dag, hún lengi lifi.....

Húsið var gamalt, veggirnir gulir og vinalegir og starfsfólkið alveg hreint framúrskarandi. Ég var búin að vera með verki sem gerðu ekkert annað en versna í 21 tíma og ég hélt að ég myndi örugglega deyja áður en ég fengi að sjá fyrsta og að mínu mati örugglega eina barnið mitt. Nóttin var erfið en svo kom að því….kl 8:35, 31. ágúst 1978, fæddist þessi yndislega stúlka sem alla tíð síðan hefur verið yndi okkar foreldra hennar og hvarvetna verið okkur til sóma. Já ég lifði þetta af og síðan fleiri slíka atburði sem betur fer. Ég man hvað við vorum stolt af henni, kornungir foreldrarnir, og ég gat varla beðið eftir að sýna fólki hana og þegar nýbökuð amman, mamma mín, kom að sjá hana fyrir hádegi sama dag sagði ég við hana; mamma hefurðu nokkurn tímann séð fallegra barn?Það var eins gott að ég var með eyru því annars hefði höfuðið á mér klofnað í tvennt svo breitt var brosið.
Í morgun þegar ég vaknaði var ég að hugsa hvað það væri skrýtið að það væru komin 30 ár síðan við Erling urðum foreldrar í fyrsta sinn. Vissulega er mjög langt síðan en finnst ykkur lesendur mínir ekki jafn fyndið og mér að við foreldrarnir séum bara rétt rúmlega fertug og eigum barn á fertugsaldri :o)
Íris hefur alla tíð verið okkur mikill gleðigjafi og við erum ákaflega stolt af henni. Hún á yndislegan mann og 3 frábær börn og í vor útskrifaðist hún sem lögfræðingur og er núna byrjuð í mastersnámi í lögfræði og hefur hug á að sérmennta sig í skattalögfræði. Þau Karlott hafa búið sér fallegt heimili í Hafnarfirði og núna í ágúst var eldri dóttirin Petra Rut að byrja í skóla og var hún afar stolt af því. Í afmæli mömmu sinnar í gær gekk Petra Rut um allt og tók myndir af gestum með myndavél sem hún fékk frá foreldrum sínum í sex ára afmælisgjöf um daginn. Hún virðist hafa erft ljósmyndaáhugann frá móður sinni en Íris er mjög flink með myndavélina og frændfólk hennar er farið að biðja hana að taka ljósmyndir við ýmis tækifæri.
Elsku Íris mín, ég óska þér innilega til hamingju með daginn og bið þér ríkulegrar Guðs blessunar í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur. Mundu svo að þú hefur viku til að velja fyrirmynd af afmælisgjöfinni þinni frá okkur pabba þínum :o)
Elska þig endalaust og miklu meira en það.......Njóttu dagsins og láttu dekra þig í botn...

laugardagur, ágúst 30, 2008

Í minningu tengdamóður minnar

Þegar ég gekk inn á Vífilstaði þennan miðvikudag, í stofuna hennar Hrefnu tengdamóður minnar til 32ja ára, vissi ég að hennar lífsganga var senn á enda.

Þar sem ég sat við rúmið og hélt í hendina hennar leitaði hugur minn aftur í tímann og minningarnar streymdu fram. „Komdu inn með mér og hittu foreldra mína“, sagði Erling við mig. Ég var bara 16 ára og ekki of kjörkuð en lét þó tilleiðast. Ég hefði ekki þurft að vera svona kjarklaus, Hrefna og Maggi tóku mér vel þótt eflaust hafi þeim fundist við of ung til að vera orðin kærustupar. Hrefna var mikill mannþekkjari og það var mér mikill heiður að vera strax meðtekin eins og ein af krökkunum þeirra og hjá þeim átti ég sama skjól og hjá mínum eigin foreldrum. Hrefna átti sterka trú, bað fyrir okkur öllum, predikaði ekki í orðum en verkin hennar töluðu hátt og snjallt góðan boðskap.
Fyrstu jólin mín að heiman hélt ég á heimili hennar og hún skildi þessa unglingsstelpu sem saknaði foreldra og systkina og vildi allt fyrir mig gera. Einhvern veginn var allt svo lítið mál hjá henni. Mér fannst t.d. gæs vond en hún vissi að Erling elskaði að fá gæs og til að gleðja hann og dekra mig þá var ekker tiltökumál að hafa bara eitthvað annað líka. Hins vegar átti hún eftir að kenna mér síðar að meta gæsina.
Þegar ég var 21 árs eignuðust við Erling tvíburadætur og áttum eina eldri dóttur fyrir, þá kom hún og var hjá okkur fyrstu vikurnar enda tíðkaðist ekki þá að feður fengju feðraorlof. Þvílíkur munur að hafa þennan dugnaðarfork hjá sér og þegar ég var að segja að mér finndist ómögulegt að hún væri að standa í þessum þvotti þá fannst henni það nú ekki mikið mál, þú átt nú þvottavél , sagði hún bara. Hennar kynslóð þekkti ekki þennan munað sem þvottavélar eru og var þvotturinn bara þveginn úti í læk. Elsti sonur hennar er fæddur í október og var Hrefna úti í læk að þvo þegar hún tók léttasóttina með hann.
Hrefna var mikil hannyrðakona og kunnu stelpurnar mínar vel að meta ullarsokkana og vettlingana sem hún gaf þeim og verkin hennar prýða heimili barnanna hennar og þeir eru ófáir útlendingarnir sem eiga lopapeysu eftir hana. Hún hafði ekki góða sjón og ég held að henni hafi þótt það einna verst þegar hún varð blind að geta ekki sinnt handavinnunni eins og áður. Hún kvartaði þó aldrei og var alltaf glöð og ánægð með sitt.

Mér auðnaðist ekki að vera viðstödd þegar hún kvaddi en hafði átt stund með henni nóttina áður. Tveimur tímum eftir andlát hennar kom ég inn til hennar og það var tígurleg ró yfir hvílubeðinu. Hún var svo friðsæl og falleg. Ekki var til hrukka á andliti hennar og hárið rétt aðeins farið að grána í rótina en dökka litnum í hárinu hafði hún haldið betur en við hinar sem yngri erum. Hrefna hafði fullnað skeiðið, varðveitt trúna og hefur nú hitt tengdapabba aftur.
Guð gefi okkur öllum styrk til að takast á við söknuðinn og djörfung til að bera áfram kyndilinn sem hún lætur okkur eftir.
Ég drúpi höfði í virðingu og miklu þakklæti og blessa minningu tengdamömmu minnar.

Minningargrein birt í Mbl 29. ágúst

fimmtudagur, ágúst 28, 2008

Tek ég mig ekki vel út....


Eins og ég sagði ykkur þá er ég fræg :o) :o) því ég vinn með Sirrý, mömmu hans Didda (Ingimundur Ingimundarson)í landsliðinu. Hann kom í dag í heimsókn til okkar og þessi mynd var tekin við það tækifæri, reyndar sérstaklega fyrir hana Hrund mína. Mátti til með að deila henni með ykkur. Það kom mér mjög á óvart hvað verðlaunapeningurinn er þungur, örugglega silfur í gegn.

Njótið lífsins vinir mínir, þangað til næst.......

miðvikudagur, ágúst 27, 2008

Ótrúleg gjöf að vera Íslendingur

Get ekki annað en tekið undir með fyrirliða handboltalandsliðsins sem sagði þessi orð í ræðu sem hann hélt áðan við móttökuathöfn fyrir Strákana okkar. Ég held að við gerum okkur ekki nægilega mikla grein fyrir þeim forréttindum að fá að fæðast á landi eins og Íslandi sem flýtur í mjólk og hunangi. Margir tala um kreppu en það er engin raunveruleg kreppa hér á landi. Við höfum öll gott af því að þurfa að hugsa aðeins um í hvað við látum peningana okkar en það geta kannski ekki gert allt sem við viljum akkúrat þegar við viljum, það er ekki kreppa.
Það að þurfa að losa sig við dýra bíla, fara í færri utanlandsferðir og hugsa hvort okkur raunverulega vanti það sem við erum að spá í að kaupa, er ekki kreppuástand. Hins vegar ef við ættum ekki mat eða fatnað handa okkur og börnunum okkar og enga vinnu að hafa þá gætum við farið að tala um kreppu.

Ég er stolt af að vera Íslendingur og er þakklát fyrir að vera ein af þessum aðeins rúmlega þrjúhundruð þúsund sem hafa fengið þessa gjöf. Ísland er jú ekki lítið land, Ísland er STÓRASTA land í heimi.

Og talandi um það, ég sá mann í gær í stuttermabol með þessari áletrun sem mér finnst alger snilld, veit einhver hvar hægt er að nálgast svona boli, mig langar nefnilega í einn.

Höldum svo áfram að vera glöð og best, svo ég ljúki nú þessum pistli á sama hátt og ég byrjaði hann, með tilvitnun í fyrirliðann. Enda er ég fræg, ekki gleyma því, ég vinn með henni Sirrý sem er mamma hans Didda, varnarjaxlsins sterka sem var rétt í þessu að taka við orðunni hjá honum Hr. Ólafi. Við sem vinnum með Sirrý erum búnar að segja henni að við eigum hann með henni. Þangað til næst vinir mínir.....

sunnudagur, ágúst 24, 2008

Afmælisprinsessa


Ég er svo heppin að eiga margar litlar vinkonur og í dag á ein þeirra afmæli.Petra Rut dótturdóttir mín er sex ára gömul í dag og hún er að byrja í grunnskóla eins og hún sjálf segir okkur mjög stolt. Hún valdi sér bleika skólatösku sem hún fékk svo í fyrirfram afmælisgjöf því skólinn er sko byrjaður. Petra Rut er mjög skemmtileg stelpa og alveg eins og mamma sín þá fæddist hún fullorðin eða svo má segja. Hún hefur mjög ákveðnar skoðanir á hlutunum og veit alveg hvað hún vill.

Aðspurð sagði hún að henni langaði í alvöru myndavél í afmælisgjöf en við mættum samt alveg ráða hvað við gæfum henni. Svo vildi hún fá að vita hvort afi hennar myndi láta mig fá pening til að kaupa gjöfina eða hvernig þetta yrði eiginlega. Skondnar pælingar hjá 6 ára dömu.

Petra Rut bræðir mig algerlega með sínu sérstaka brosi og það er svo gaman hvað hún sækir í að vera við hliðina á manni við matarborðið eða þegar hún hringir í okkur afa sinn og spyr hvort þau megi koma í heimsókn á Selfoss.Elsku Petra Rut mín, innilega til hamingju með afmælið þitt, þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar allra og við elskum þig allan hringinn eins og þú segir svo gjarnan sjálf.

fimmtudagur, ágúst 21, 2008

Kóngsins Köben

Fljótlega eftir að við hættum við að fara í sumarfrí til Rhodos ákváðum við Hrund að skella okkur saman í mæðgnaferð til Kaupmannahafnar. Í byrjun júlí var svo ferðin pöntuð og 15. ágúst var tilvalinn ferðadagur. Auðvitað gátum við ekki vitað þá að elskuleg tengdamamma mín og amma Hrundar myndi kveðja okkur þann sama dag.

Á fimmtudeginum á undan þegar ljóst var að hverju stefndi spurði ég Erling hvað hann vildi að við gerðum og við vorum alveg tilbúnar að hætta við ef hann óskaði þess. „Hún mamma myndi ekki vilja að þið hættuð við og hvort þið farið eða ekki breytir engu héðan af varðandi mömmu svo ég vil bara að þið drífið ykkur og njótið samverunnar við hvor aðra“. Undir þetta tóku systkini hans og ég var þeim þakklát fyrir skilninginn.


Mæðgurnar í Leifsstöð


Það var auðvitað skrýtið að fara af stað í ferðalag sama dag og hún kvaddi en eftir að hafa komið við og fengið að sjá hana þar sem hún var í hvílubeði sínu, tígurleg sem drotting, þá leið okkur betur og við héldum af stað. Við áttum góðan og skemmtilegan tíma saman enda er Hrund mjög skemmtilegur ferðafélagi. Við gerðum bara það sem okkur langaði til þegar okkur langaði til þess. Við fórum m.a. í strætó út á Amager að kaupa barnavagn fyrir Eygló og Bjössa og það var bara gaman og smá ævintýri. Íris var búin að segja okkur frá pínu lítinni búð þar og þetta var svona eins og að koma í búð hjá Kaupmanninum á Horninu hérna í „gamla daga“.


Fyrir utan barnavagnabúðina á Amagerbrogade 2


Á strætóstoppistöðinni með vagninn



Við Hrund á Ráðhústorginu, það var slysavarnasýning þar






Fórum á Peder Öxe, Hrund skvísa og mamman hennar



Við versluðum aðeins, fórum út á borða á kvöldin, fórum í siglingu og stundum settumst við bara niður og fylgdumst með mannlífinu sem er mjög fjölbreytt þarna í kóngsins Köben. Erling var búinn að biðja okkur um að vera ekki seint úti á kvöldin og við ákváðum að vera alltaf komnar upp á hótel ekki seinna en 11 á kvöldin og vorum síðan alltaf komnar inn vel fyrir þann tíma. Þar sem myndir segja meira en mörg orð þá læt ég nokkrar fylgja með og leyfa ykkur að sjá hvað við nutum lífsins.



Í siglingunni, Hrund tók myndina svo við ættum nú einhverja af okkur saman:o)



Á ekki alltaf að deila? Líka heyrnartólum? Natalie Cole á ipodinum:o)



Skvísan á brautarstöðinni, Hovedbanegarden

Ég er í fríi fram á mánudag og ætla bara að slappa af og njóta þess að vera til. Dagarnir hafa verið skrýtnir, því þótt Hrefna hafi verið búin að vera lasin og orðin 87 ára þá er missirinn stór og söknuðurinn til staðar. Njótið lífsins lesendur mínir, þangað til næst.......

þriðjudagur, ágúst 19, 2008

Minning


Móðurást

Ljóðrænum línum mig langar að henda
línum sem á nokkrar staðreyndir benda
Mér datt þetta í hug nú fyrir skömmu
Hvar værum við til dæmis án hennar mömmu
Baslið og stritið er á sig hún lagði
haukur í horni jafnvel þegar hún þagði
Hvernig hún annaðist börnin sín átta
svo lentum við ekki utangátta

Sauma okkur flíkur úr gömlum fötum
stoppa í sokka sem duttu út í götum
Eitt var það sem hún vildi ekki orða
að ekki var alltaf nóg til að borða
Merkilegt hvað þá hún gat
gert úr engu góðan mat.

Bera henni vitni verklúnar hendur
æðrast aldrei hvernig sem á stendur
Trúi ég gjörla að á þessum árum
skolandi þvottinn á lækjarsteinum sárum
hafi vangarnir mömmu oft verið skreyttir með tárum.

Að eilífðar ósi árin renna
nú man hún mamma tímana tvenna
gömlu árin burtu runnin
sum þeirra fallin í gleymsku brunninn

Nú hópinn sinn enn, hún vegur og metur
blind, en gerir samt eins og hún getur
slitnar seint þessi móðurstrengur
Það er okkar stærsti fengur
er tímaklukkan áfram gengur
að eftir stendur ævistarf
okkur fært sem góðan arf.
Orð þessi færð í lítinn ramma
segja - takk fyrir mamma.
EM

Hrefna tengdamóðir mín lést föstudaginn 15. ágúst og við söknum hennar. Erling orti þetta ljóð til hennar fyrir nokkrum árum og mig langaði að deila því með ykkur því það lýsir henni svo vel eins og hún var.

fimmtudagur, júlí 24, 2008

Afmælisprinsessa


Danía Rut vinkona mín og elsta barnabarnið mitt er 6 ára í dag og er að hætta á leikskólanum og fara í grunnskóla, ótrúlegt að ég svona ung eigi barnabarn sem er að byrja í skóla og það meira að segja tvö því Petra Rut verður 6 ára í ágúst.

Það er alveg ótrúlegt hvað tíminn líður hratt að það séu komin sex ár síðan ég fékk ömmutitilinn í fyrsta sinn. Ég man hvað við vorum farin að bíða eftir henni þótt Arna mín gengi bara 9 daga framyfir með hana.

Danía Rut er mikill hjartabræðari og það er ekki hægt að lýsa tilfinningunni með orðum þegar hún kemur til mín, vefur handleggjunum um hálsinn á mér og segir mér að hún elski mig. Hún er mikill bókaormur og getur alveg gleymt sér í dúkkukróknum hér í Húsinu við ána, bara ef hún er með góða bók sem hún skoðar í krók og kima. Uppáhaldsdýrið hennar er kisa og hún á eina sem amma hennar og afi í sveitinni passa fyrir hana, það er hann Prins Mjá.
Elsku Danía Rut mín, ég vil óska þér innilega til hamingju með sjötta afmælisdaginn þinn og bið Guð að blessa þig og vaka yfir hverju þínu skrefi. Ég elska þig og er Guði þakklát fyrir að hafa gefið okkur þig.

sunnudagur, júlí 20, 2008

Frábærir dagar....

Suma daga hefur mér fundist alveg við hæfi að loka skrifstofunni vegna veðurs sem hefur svo sannarlega leikið við okkur Íslendinga í sumar. Reyndar er það svo frábært á mínum vinnustað að það er lokað á föstudögum yfir sumarmánuðina nema ef 1. eða 15. ber upp á föstudag en þá þurfum við að sinna launum og staðgreiðslu fyrir fyrirtækin okkar. Þar sem það var bara 18. júlí síðasta föstudag þá var ég heima og eftir hádegi þar sem við Erling sátum úti á palli hér við Húsið okkar við ána þá litum við á hvort annað og sögðum í kór; “Spánn hvað?” Sólin, hitinn, heiður himinn, árniðurinn og svo frábær félagsskapur bæði hvors annars og Hrundar ásamt gesta sem glöddu okkur, það er bara ekkert sem jafnast við svona daga.

Eins og lesendum mínum er kunnugt þá var von á afabarni hjá honum Tedda bróður og Kötunni hans. Thea og Hrund eru óaðskiljanlegar vinkonur og þar sem ljóst var að Thea myndi annast litla drenginn sinn ein þá sagðist Hrund bara taka að sér að verða “pabbi” hans, það yrði nú ekki mikið mál. Hrund hefur svo sannarlega reynst henni vel alla meðgönguna og farið með henni í sónar, glaðst með henni og lánað henni öxl þegar á þarf að halda. Það er svo gaman að fylgjast með þeim frænkum og ómetanlegt hvað þær geta verið eins og heima hjá sér báðar, hvort sem þær eru hér eða heima hjá Tedda og Kötunni hans. Báðar alveg yndislegar og miklir gleðigjafar.

Á föstudaginn fóru svo allar stelpurnar okkar Erlings saman á Fitina og Hrund ætlaði að koma heim í gær til að fara að vinna en þær hinar ætluðu að vera þangað til í dag.
Klukkan rétt rúmlega átta í gærmorgun, hringdi svo síminn á náttborðinu mínu og þegar ég var búin að svara með minni mjög svo syfjuðu röddu heyrðist hinum megin: “Ég er orðin “pabbi”, er á leiðinni til Selfoss með Örnu, viltu koma með okkur að sjá hann? “
Þar sem ég var enn hálfsofandi þá sagði ég bara nei nei, sé hann bara seinna og lagði á.
Svo vaknaði ég almennilega og dreif mig á fætur (Erling auðvitað kominn niður) og þá hringdi Teddi og sagði mér fréttirnar sem ég vissi. Þá spurði hann mig hvort ég vissi hvað hann héti. Auðvitað hafði mér láðst að spyrja að því svo það var stoltur afinn sem sagði mér að litli fallegi drengurinn sem væri í fangi hans héti Theodór Ísak Theuson og það var ekki laust við að ég heyrði hvað hann var klökkur og glaður. Auðvitað fórum við Erling strax að kíkja á prinsinn og það var engu logið með fegurð hans eins og þið sjáið hér fyrir neðan. Ég vil nota tækifærið og óska okkur öllum innilega til hamingju með litla prinsinn og bið honum margfaldrar Guðs blessunar.









Eftir hádegi í gær var svo stefnan tekið til höfuðborgarinnar því það var líka gleðidagur í lífi Sirrýjar systur minnar og hennar fjölskyldu. Brúðkaup Snorra og Ingu Huldar fór fram í Fríkirkjunni í Reykjavík og sólin lék við þau og gladdi og auðséð að brúðhjónin voru alsæl og nutu dagsins í hvívetna. Veislan var svo haldin í Félagsheimili Fóstbræðra við Langholtsveg. Ég vil líka óska þeim öllum innilega til hamingju með daginn og bið brúðhjónunum Guðs blessunar.
Við fórum úr veislunni aðeins áður en henni lauk því við vorum búin að plana að fara upp á Skaga til vina okkar þar, Barbro og Sigga. Erling hafði komið í bæinn á mótorfáknum sínum og við brunuðum heim til pabba og mömmu og höfðum fataskipti, úr veisluklæðum í leðurgallana og settum á fákinn og ókum af stað með vindinn í fangið. Þetta var svoooo gaman, á Skaganum klæddu vinir okkar sig í sinn galla og við fórum með þeim í hjólatúr og áttum svo skemmtilega stund með þeim heima í stofunni þeirra. Við fjögur höfum alltaf verið vinir, við Barbro síðan við vorum 11 ára og svo bættust þeir Erling og Siggi við bara aðeins seinna. Þau eru svo sannarlega frábærir og traustir vinir.

Klukkan var farin að halla í miðnætti þegar við stigum á fákana á heimleið og þegar við komum til Reykjavíkur til að sækja bílinn sem ég hafði keyrt til Reykjavíkur fyrr um daginn þá langaði mig að hjóla alla leið heim með Erling svo bíllinn var bara skilinn eftir í höfuðborginni þar sem hann bíður mín þegar ég kem að vinna á morgun.

Já þetta er svo sannarlega frábærir og skemmtilegar dagar og ég ætla að halda áfram að njóta þeirra og vona að þú lesandi góður gerir slíkt hið sama....þangað til næst...