föstudagur, mars 12, 2010

Hún mamma mín.......


Elsku besta og yndislega mamman mín á afmæli í dag.
Hvaðan kemur hún mamma þín eiginlega”, var ég spurð að um daginn. “Hún kemur frá himnum enda alger engill” svaraði ég. Já, það hlýtur bara að vera því það fylgir henni svo sérstakur andi og mikill friður og ró sagði þá spyrjandinn við mig. “Henni er svo annt um alla og er ekki bara að hugsa um sitt fólk heldur virðist hún hafa tíma fyrir alla”
Já hún mamma mín er svo sannarlega einstök kona og þótt hún sé nú langt frá því að vera fyrirferðamikil þá hefur hún breitt bak og það eru ófáir sem koma til hennar með ólíklegustu vandamál sín og hún hefur alltaf tíma fyrir alla. Í dag fagnar hún nýjum tug, er orðin 70 ára gömul þótt það sé erfitt að trúa því vegna þess að hún er svo ungleg og mikil skvísa.
Við erum miklar vinkonur og hún er alltaf til staðar fyrir mig og mitt fólk ásamt okkur öllum stórfjölskyldunni. Þegar mamma var rúmlega fertug, sex barna móðir með sitt barnaskólapróf, þá ákvað hún að láta drauminn rætast og fara í nám. Hún byrjaði í Námsflokkunum og hélt svo ótrauð áfram og útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur 46 ára gömul. Það voru stoltir krakkar sem mættu við úskriftina hennar og hún er þeim hvatning sem langar að læra en halda að þeir séu of gamlir til þess.

Elsku mamma mín, um leið og ég óska þér innilega til hamingju með daginn þá vil ég segja þér að ég er Guði svo þakklát fyrir að hafa valið þig til að vera mamma mín, ég er svo stolt af þér og elska þig milljón grilljón. Vona að afmælisdagurinn verði þér góður og frábær og ég hlakka til að hitta þig á eftir.

þriðjudagur, mars 02, 2010

Afmælisskvísur


Í dag fagna Eygló og Arna, tvíburadætur mínar, 29 ára afmælinu sínu. Þær munu samt ekki vera hrifnar af mér að tala um þær sem tvíbura, þær elska að vera tvíburar en það má ekki tala um þær sem slíkar og ég er alveg sammála þeim en stundum leyfum við þeim að heyra að þær séu líffræðilega nákvæmlega eins og það var Íris systir þeirra sem einu sinni fann þetta fína orð og það er óspart notað til að stríða þeim. Auðvitað eru þær ekki alveg eins en þær eru ótrúlega samrýmdar og það er einhver óskiljanlegur þráður á milli þeirra. Þeim dreymir jafnvel sömu drauma sömu nótt og stundum kaupa þær alveg eins gjafir handa hvor annarri án samráðs. Ég held að bara eineggja tvíburar geti skilið þessi tengsl sem eru þarna á milli.

Það var skrýtin tilfinning að vita að það væru tvö börn á leiðinni en mjög spennandi og þær hafa alla tíð verið yndi mín og stolt ásamt hinum systrum sínum. Þær hafa það alveg beint frá mér að elska að eiga afmæli og löngu áður en dagurinn rennur upp er búið að skipuleggja hann og skrifa niður afmælisgjafaóskalista. Ég vona að þær haldi þessu áfram alltaf, leyfi afmælisbarninu í sér alltaf að njóta sín í botn.
Ég er svo lánsöm að eiga vináttu þessara frábæru stelpna og ég er óendanlega stolt af þeim. Þær vinna báðar á leikskóla, ekki þó þeim sama og þeim líkar mjög vel að vinna með börnum enda eru þær báðar mömmur sjálfar.
Elsku stelpurnar mínar, ég óska ykkur innilega til hamingju með afmælisdaginn ykkar. Vona að hann verði ykkur góður og ánægjulegur. Elska ykkur meira en orð fá lýst og er stolt af ykkur.