miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Frumburðurinn á afmæli í dag, 27 ára......

Húsið var gamalt, veggirnir gulir og vinalegir og starfsfólkið alveg hreint framúrskarandi. Ég var búin að vera með verki sem gerðu ekkert annað en versna í 21 tíma og ég hélt að ég myndi örugglega deyja áður en ég fengi að sjá fyrsta og að mínu mati þá örugglega eina barnið mitt. Nóttin var erfið en svo kom að því….kl 8:35, 31. ágúst 1978, fæddist þessi yndislega stúlka sem alla tíð síðan hefur verið yndi okkar foreldra hennar og hvarvetna verið okkur til sóma. Já ég lifði þetta af og síðan fleiri slíka atburði sem betur fer. Ég man hvað við vorum stolt af henni, kornungir foreldrarnir, og ég gat varla beðið eftir að sýna fólki hana og þegar nýbökuð amman, mamma mín, kom að sjá hana fyrir hádegi sama dag sagði ég við hana; mamma hefurðu nokkurn tímann séð fallegra barn?
Það var eins gott að ég var með eyru því annars hefði höfuðið á mér klofnað í tvennt svo breitt var brosið. Við fórum áðan og kíktum á hana og Karlott á fallega heimilinu þeirra, Petra Rut og Katrín Tara sváfu vært og við áttum saman notalega kvöldstund. Afmælisbarnið er reyndar eitthvað lasin, er með einhverja undarlega verki í herðablöðum og við lærleggskúlurnar (vona að þið skiljið mig) og þetta leiðir niður í fætur og veldur henni andvökunóttum en hún á að hitta lækni á morgun svo vonandi finnst hvað er að hrjá hana.
Íris mín, innilega til hamingju með afmælið þitt, ég bið Guð að blessa þig ríkulega, lækna þig af þessu sem er að hrjá þig og gefa þér alla þá visku sem þú þarft á að halda í lögfræðináminu.
Ég elska þig og er mjög stolt af þér

sunnudagur, ágúst 28, 2005

Góð helgi að baki...

Eg vaknaði fyrst kl hálfníu en á laugardagsmorgni, í mínum huga, jafngildir það því að vakna um miðja nótt svo ég sneri mér á hina hliðina og augnabliki seinna var ég svifin inn í draumaveröldina á ný. Þegar ég opnaði augun næst var kominn kristilegur fótaferðatími (samkv. minni skilgreiningu) enda klukkan að verða hálftólf. Þar sem ég vissi að Erling biði frammi með nýlagað kaffi og rjúkandi heitt brauð, dreif ég mig fram, undir sturtuna og var komin fram í eldhús hálftíma seinna. Já, laugardagar eru bestu dagar vikunnar. Við tók lestur dagblaðanna og mig langar að vekja athygli ykkar á viðtali í Fréttablaðinu við hana Jónu Hrönn miðborgarprest. Hún er þar að tala um ástandið í miðborginni á menningarnótt og ég bað hana Hrund dóttur mína að lesa það svo hún skildi betur hvað ég átti við þegar ég neitaði henni um að fara í bæinn eftir vinnu þessa “menningarnótt.” Þið sem eigið unglinga, hvetjið þau til að lesa um það frá henni hvernig ástandið er þarna. En aftur að laugardeginum mínum. Við Erling vorum búin að ákveða að fara austur á landið okkar í Fljótshlíðinni og pakka tjaldvagninum sem var búinn að standa þar til þerris síðan við vorum á töðugjöldum fyrir hálfum mánuði.
Samkvæmt gamalli hefð var stoppað á Selfossi og keyptur ís og fyrst það var nú einu sinni nammidagur þá fékk Erling sér shake og ég fékk bragðaref ummmmmm......
Fljótshlíðin skartaði sínu fegursta þegar við komum þangað og vagninn var skrjáfaþurr og fínn og við pökkuðum honum og gengum vel frá þar sem hann verður ekki notaður meira þetta árið.
Á leiðinni austur hringdi Hlynur til að segja Erling hvað það væri rosalega gott veður í sveitinni og þegar hann vissi að við værum á leiðinni þá var okkur boðið að koma í kaffi í bústaðinn þeirra. Við gerðum það síðan og hittum þar fyrir Hansa og Auju og við áttum notalegt samfélag þennan fallega eftirmiðdag. Þegar degi tók að halla og kvöldmatartími var skollinn á vildi ég nú hætta að tefja húsráðendur og fór að líta til Erlings með svip sem hann veit að þýðir að við ættum að fara að fara. Hlynur og Gerður komu þá með þá uppástungu að við grilluðum öll saman (við fjögur þar sem Hansi og Auja voru farin heim) og það varð úr að þeir bræður fóru til byggða að draga björg í bú enda sannir hellisbúar. Það var orðið vel rökkvað í bústaðnum þegar ég stóð og var að búa til sósu á gashellunni. Um mig fór einhver undarleg sælukennd, þetta var eitthvað svo friðsælt og notalegt og ég fann til verulegrar tilhlökkunar til þess að byrja á kofanum okkar Erlings. Ég labbaði út á pallinn til bræðranna samrýmdu og spurði hvort þeir gætu ekki bara hjálpast að við að koma upp kofa fyrir okkur fyrir haustið og þar sem Hlynur er hjálpsemin uppmáluð þá var það ekki mikið mál að hjálpa til. Eini vandinn er sá að Erling hefur alls engan tíma vegna skólans til að gera þetta núna þannig að það bíður vorsins en þá ætlum við að hefjast handa við bygginguna. Hún verður ekki stór en hún verður notaleg með arni og hreindýraskinni á gólfi, gamalli klukku á veggnum og Erling dreymir um gamlan ruggustól á pallinn. Í vetur ætla ég að innrétta kofann svona í huganum og mikið hlakka ég til að eiga þar rómantískar stundir þar sem við hjónin verðum bara tvö og svo líka þær fjörmiklu stundir þegar stórfjölskyldan safnast þar saman, stelpurnar, tengdasynirnir og litlu ömmugullin.
Nú er sunnudagskvöld, klukkan að verða tíu og þessi helgi hefur liðið alveg jafnhratt og allar hinar. Ég sit ein frammi í stofu, Hrund er að vinna og Erling er inni á skrifstofu að læra, lokaspretturinn er framundan, næsta vor útskrifast hann sem lögfræðingur og mikið hlakka ég til. Annars erum við með margt á prjónunum framundan sem ég deili með ykkur lesendur mínir á næstu vikum. Lífið er nefnilega svo skemmtilegt en um leið breytingum háð og því er um að gera að prófa að gera það sem mann langar til, allavega langar mig ekki að líta um öxl á efri árum og segja; ég vildi að ég.............

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Hún á afmæli í dag……

......fyrir þremur árum, daginn fyrir þennan dag, var mikil spenna í loftinu í Hamrabergi þar sem við Erling bjuggum þá ásamt Hrund og Eygló (fyrirgefðu Eygló mín hvað ég er kölkuð, sbr. comment a greinina). Danía Rut var að útskrifast af vökudeildinni mánaðargömul og Íris og Karlott komu í kvöldmat til okkar því við ætluðum að halda uppá heimkomu dömunnar sem var búin að vera svo veik. Stelpurnar eru mjög flinkar í að fá pabba sinn til að panta pizzu af alls konar tilefni jafnvel þótt hann sé ekki mikið fyrir þær sjálfur, borðar þær en finnst margt annað miklu betra. Það varð úr að við pöntuðum pizzu og áttum að venju gott samfélag. Íris var komin fram yfir á meðgöngu með fyrsta barnið og við vissum að hún var búin að vera með einhverja minni háttar verki frá því um morguninn. Hvort það var útaf pizzunni (held samt ekki ;o) eða eitthvað annað, veit ég ekki en hún fór ekki heim eftir kvöldmatinn heldur beint á fæðingardeildina og þetta kvöld var mjög spennandi og margar hringingar í gsm símana þeirra til skiptis. Það var svo, að mig minnir, um fjögurleytið um nóttina að símtalið langþráða kom. Dóttir var fædd og hún fékk þetta fallega nafn, Petra Rut. Það hefur svo komið í ljós að hún “fæddist fullorðin”, hún er svo spekingsleg og dugleg þetta yndigull og veit svo sannarlega hvað hún vill.
Afmælisveislan hennar var haldin með miklum myndarbrag síðasta laugardag og komu margir til hennar. Hún var löngu búin að segja mér og afa sínum hvað hana langaði að fá og auðvitað varð henni að ósk sinni, Fisher Price búðarkassi var keyptur handa dömunni.
Elsku Petra Rut mín, innilega til hamingju með daginn, haltu áfram að vera svona dugleg stelpa og góð við litlu systur þína. Þú ert Guðs gjöf til okkar og ég elska þig stóra gull.

laugardagur, ágúst 20, 2005

Þá hefurðu lifað....

Fékk þetta sent í pósti um daginn og komst að því að ég hef lifað.....

Vildir þú ekki stundum óska að þú gætir farið aftur í tímann þegar:
Ákvarðanir voru teknar með því að nota “Úllen dúllen doff”
eða “Ugla sat á kvisti”
Peningamál voru afgreidd af þeim sem var bankastjórinn í Matador.
Hægt var að gleyma sér tímunum saman við að blása á biðukollur
og eltast við fiðrildi.
Það þótti ekkert athugavert við það að eiga tvo til þrjá “bestu” vini.
Það að vera “gamall” átti við hvern þann sem kominn var yfir tvítugt.
Pabba tókst að láta þumalinn á sér hverfa og birtast til skiptis.
Brennó þótti merkilegra en nokkur íþróttagrein.
Þeir sem voru “vopnaðir” í skólanum voru þeir sem voru með teygjubyssur.
Engin(n) var fallegri en mamma.
Pabbi var sterkasti maður í heimi.
Sár greru með einum kossi.
Fyrsti vetrarsnjórinn olli óendanlegri gleði.
Fimmtudagskvöldin voru “öðruvísi” af því að það var ekkert sjónvarp
og fólk eyddi meiri tíma í að tala saman.
Þú fékkst dót hjá tannlækninum fyrir að vera dugleg(ur).
Það vandræðalegasta sem gat komið fyrir þig
var að vera valin(n) síðastur í brennóliðið.
Eldri systkini þín gátu kvalið þið endalaust,
en voru jafnframt fyrst til að vernda þig.
ABBA myndir voru verðmeiri en nokkur hlutabréf.
Það að snúa sér hring eftir hring eftir hring var nóg til þess
að fá klukkutíma hláturkast.
Loforð um ís var nóg til þess að þú kláraðir matinn þinn.

Ef þú kannast við meirihlutann af þessu , þá hefurðu LIFAÐ

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Ef fuglanöfn væru númer

Við vorum á Fitinni síðustu helgi og það verður að segjast eins og er að það er svo friðsælt þar og notalegt eitthvað. Við tjöldum vagninum í skjóli trjánna sem við Erling byrjuðum að gróðursetja fyrir u.þ.b. 15 árum. Það er fátt sem rýfur þögnina á morgnana þegar ég er að reyna að sofa út nema fuglarnir, eins og hún Gerður svilkona mín orðaði svo skemmtilega um árið; endemis fuglagarg er þetta. Erling og Hlynur skilja þetta ekki enda eru þeir bræður alveg hugfangnir af þessum dýrum sem fljúga um himininn. Í sjálfu sér finnst mér þeir alveg ágætir nema á morgnana. Ég er í tæp 30 ár búin að fá kennslu um nöfnin á þeim sem ég Á AÐ ÞEKKJA Á HLJÓÐINU, pælið í því. Ég get bara alls ekki lært þessi nöfn og þess vegna var það á sunnudaginn að ég átti að segja Erling hvað dýrið hét sem framkallaði þetta líka hrikalega garg á annars friðsælum sunnudagsmorgni. Eftir að hafa giskað á næstum allar fuglategundir þá sagði Erling: "Erla mín, ef fuglarnir væru ekki með nöfn heldur talnarunu, bílnúmer eða slíkt værirðu búin að læra þetta fyrir löngu síðan." Sennilega er það rétt hjá honum..........

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Prufa














Ég er bara að prufa að setja inn myndir
Þetta er Hrund með Petru Rut

Velkomin...

....á nýju síðuna mína. Ég var að flytja mig af annarri bloggsíðu en mér finnst svo mikill galli við hana að það sjást bara 10 nýjustu skrifin, hin eldri detta út. Þar sem ég er svo skemmtilegur penni, hógvær og lítillát þá finnst mér ómögulegt að lesendur mínir geti ekki flett tilbaka aftur og aftur og lesið skrifin mín.
Ég vil taka það fram að hér verða settar fram hugrenningar mínar um lífið og tilveruna. Ef ykkur leiðist að lesa skrifin mín þá er einfalt að hætta að koma hér við en ef ykkur líkar það sem hér verður ritað þá er alltaf gaman að fá skoðanir á því hvort sem þær fara saman við mínar skoðanir eða ekki, það skiptir ekki máli.
Íris ætlar að kenna mér að setja inn myndir en hún er búin að aðstoða mig við að gera síðuna eins og hún er í dag en við í sameiningu ætlum að gera hann enn betri.
Ég ætla að setja inn nokkrar af hugleiðingum mínum af eldra blogginu mínu en þangað til....njótið lífisins......