föstudagur, desember 30, 2011

Orð eru álög...

...er nafn á bók sem ég fékk í jólagjöf og við Erling höfum verið að velta þessum orðum fyrir okkur. Einhvers staðar segir einnig að orð séu til alls fyrst og í helgri bók segir að dauði og líf sé á tungunnar valdi.
Við og krakkarnir höfum núna í nokkur ár sest niður á nýársdag og velt fyrir okkur markmiðum fyrir árið sem er að byrja, við skrifum þau niður og skoðum svo að ári, hvað hefur ræst og hvað ekki. Þetta eru ekki áramótaheit heldur markmið sem við gjarnan viljum sjá rætast hjá okkur. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað ég ætla að setja á blaðið mitt eftir tvo daga og hugsa meira og meira um þetta að...orð eru álög..... það skiptir svo miklu máli hvað við segjum því það sem við tölum út er eitthvað sem undirmeðvitundin fer að vinna að. Ef það er eitthvað sem við virkilega viljum gera þá er árangursríkara að segja "ég ætla" heldur en "ég vona" Ég hef ákveðna hugmynd um hvernig og í hvaða kringumstæðum ég vil sjá mig á nýju ári og ætla að prófa þetta á sjálfri mér, vera ákveðnari í markmiðasetningu og framfylgja því af fremsta megni, því ég get það sem ég vil. Ég er viss um að um næstu áramót hafa markmið næsta árs ræst.... ég ætla einnig að gæta orða minna í daglegu tali því þau hafa vægi og verða aldrei tekin tilbaka....

þriðjudagur, desember 27, 2011

og svo komu jólin.....

Það var svolítið skrýtið á aðfangadagsmorgunn að hafa sig til og fara í vinnu en það hef ég aldrei gert áður. Það var heilmikil umferð þegar ég keyrði út í búð, fólk að flýta sér því jólin voru jú alveg að koma. Ég var varla búin að kveikja á kertunum í búðunum þegar fyrsti viðskiptavinurinn kom, fólk var kátt og spjallaði þótt það þekkti mig ekkert. Þegar ég keyrði svo heim þá var strax komin meiri ró yfir bæinn minn, fólk flest komið heim til sín að undirbúa hátíðina sem yrði hringd inn kl sex. Erling og Hrund voru tilbúin með okkar hefðbundna hádegismat á aðfangadag og það gerði ekkert til þótt það væri ekki á "réttum" tíma. Hrund hafði á orði að það væri svo skrýtið hvernig tilfinning aðfangadags hefði breyst og við foreldrarnir litum á hvort annað og sögðum svo næstum í kór að þetta væri vegna þess að hún væri ekki lengur barn og þá upplifir maður hlutina öðru vísi. Jóladagarnir hafa verið góðir, við hér erum mjög fastheldin á hefðir og breytum engu varðandi þessa 3 daga nema nauðsyn þyki. Á þriðja degi jóla var ákveðið að bjóða letinni í heimsókn og hún var ekki sein á sér að koma inn enda ekki oft sem henni leyfist það og deginum varið í lestur, mandarínuát og sjónvarpsgláp í góðum félagsskap flotta míns og youngstersins míns. Allar þrjár myndir Lord of the rings, lengri útgáfan, voru teknar á tveimur kvöldum, spáið í því.
Lífið mitt hér í Húsinu við ána er afar ljúft, oft annasamt en næstum alltaf skemmtilegt líka. Það er gott að hafa vinnu, eiga fjölskyldu sem er svo auðvelt að elska og sem elskar mann og gefur lífinu gildi. Held það sé fátt betra en finna litla ömmubarnahandleggi umvefja mann og heyra hvíslað í eyrað að þau elski mann eða þegar Erling grípur mig í fangið og segir mér hvað hann sé ánægður með mig. Þá læðist inn í hugann að einhverju hefur verið áorkað.
Framundan eru áramót einu sinni enn og nýtt ár bíður handan hornsins og það er spennandi að sjá hvað verður skrifað á þá blaðsíðu kaflans.

fimmtudagur, desember 22, 2011

....þau eru alveg að koma.....

Jólalögin óma á efri hæðinni, youngsterinn kominn heim í jólafrí og nú skal herbergið tekið í gegn mömmslunni til mikillar gleði :) Það er notalegt að heyra í henni og hún á það til að söngla með enda er söngur hennar líf og yndi. Jólahátíðin nálgast okkur hér í Húsinu við ána þrátt fyrir annríki undanfarinna daga. Aðventan hjá okkur hefur verið með öðru sniði en áður enda höfum við ekki áður verið með verslanir sem þarf að hugsa um að séu með nóg af vöruúrvali fyrir viðskiptavininn. Ég ætla svo sjálf að vera við afgreiðslu á aðfangadag og það er líka nýbreytni, ég man ekki eftir að hafa áður unnið á aðfangadag en er viss um að það er bara gaman. Hrund verður með mér í hinni búðinni og svo veit ég að það bíður okkar dekur þegar við komum heim. Í gær tókum við á móti fyrstu sendingunni frá Ameríku fyrir Home design og það var pínu undarleg tilfinning að hafa tollapappíra í höndum og vera sjálf "innflytjandi". Það kom mér líka á óvart hvað þetta var allt einfalt í sniðum og tók stuttan tíma frá pöntun þar til það beið tollafgreitt í vöruskemmu í Hafnarfirði. Ég las áðan viðtal við "fræga" konu og sú var auðvitað spurð hvernig hún færi að því að fitna ekki um jólin. Ég var ánægð með svarið því hún sagðist fitna um jólin og ef hún gerði það ekki þá væri bara eitthvað að. Hins vegar er ljóst af útliti hennar að það er kannski ekki mikið og fer fljótt af en viðhorfið var gott. Leyfum okkur að njóta alls þess góða sem í veg okkar er lagt en munum samt að allt er gott í hófi og ef við erum aflögufær þá eru margir sem ekki eiga til hnífs og skeiðar þessi jól og ýmis samtök sem geta verið milliliðir til þeirra.

fimmtudagur, desember 15, 2011

Fimmtudagur verður að laugardegi

Það er enginn sem segir að það þurfti endilega alltaf að hafa laugardaga bara á laugardögum og því ákváðum við Erling fyrir tveimur dögum að hafa laugardag í dag þótt það sé auðvitað fimmtudagur. Það var því engin ástæða til að drífa sig á fætur eldsnemma en mikið var nú notalegt að koma niður á náttfötunum og fá sér morgunmat og kaffi með þessum flotta manni sem ég á. Það er jólalegt að líta út um gluggana og sjá jólaljósin í húsunum í kring glampa svona fallega í snjónum og áin okkar rennur sína leið framhjá, ísköld og tignarleg. Stóra baðið eins og barnabörnin kalla hana, vitandi að það má ekki fara þangað.
Við ætlum að hafa þennan frídag okkar reglulega skemmtilegan, kíkja í höfuðborgina, gera smá jólainnkaup, hitta mann og annan og kíkja á kaffihúsið til hennar Erlu vinkonu minnar og reyna að hitta á barnabörnin og foreldra þeirra. Aðventan er skemmtilegur tími og ég er svo þakklát fyrir það að það er ekki undir mínum þrifnaðardugnaði eða baksturshæfileikum komið að jólin komi. Ef svo væri þá kæmu nefnilega engin jól á okkar bæ. Kósíheit og kertaljós er málið hér í Húsinu við ána og um að gera að láta ekkert jólastress ná tökum á okkur, jólin snúast um allt aðra hluti. Njótum þess að vera til vinir...

þriðjudagur, desember 06, 2011

Jól á næsta leiti

Eftir bókhaldsvinnu undanfarna daga var það bara notalegt að kúra aðeins undir heitri sænginni og leyfa sér að vakna í rólegheitunum. Verkefni dagsins lá ekki alveg ljóst fyrir, ekkert sem bráðliggur á að gera, tvær frábærar stelpur sjá um búðirnar tvær svo ekki þarf að huga sérstaklega að þeim í dag. Tilhugsunin um að vera innandyra í dag varð enn notalegri þegar ég dró svo frá gluggum eftir að hafa búið um rúmið. Úti var lygn og falleg snjókoma og bíllinn þakinn snjó, mikið var gott að fara bara niður og fá sér morgunmat og kaffi, vona að Erling hafi náð Fréttablaðinu (það er algert happ hér á Selfossi að ná blaðinu því það koma svo fá blöð í þessa blessuðu kassa) og já þá var verkefni dagsins ákveðið.
Skreytum hús með grænum greinum.....nei annars bara öllu fallega jólaskrautinu okkar, það er verkefni dagsins..... Svo kíki ég örugglega útí búð seinna í dag því Erling er þar að breyta ísbúðinni og vinna við innréttingu hennar. Þetta verður góður dagur og já.....Fréttablaðið var á eldhúsborðinu......

föstudagur, desember 02, 2011

Katrín Tara afmælisstelpa



Hún er ljóshærð með blá augu, mjög fjörug og skemmtileg, ákveðin og veit svo sannarlega hvað hún vill og hún er afmælisstelpa dagsins. Katrín Tara, ein af ömmustelpunum mínum og vinkona mín á afmæli í dag og er orðin sjö ára og það er sko ekki leiðinlegt. Hún er líka komin í annan bekk í skólanum og henni gengur mjög vel og fær frábæran vitnisburð enda dugleg í því sem hún er að gera. Hún er flinkur teiknari og er alltaf að teikna og lita flott listaverk handa okkur.

Katrín Tara á litla systir og sýnir henni óskipta athygli og er mjög góð við hana. Ég og hún eigum spes kveðju. Þegar hún var yngri þá vildi hún aldrei kyssa bless og þar sem ég er algerlega á móti því að þvinga börn til að kyssa fullorðna þá fundum við upp okkar eigin kveðju og höfum haldið því. Hún labbar í burtu, snýr sér við og ég sendi henni fingurkoss sem hún grípur og skellir á kinnina á sér og svo fæ ég einn tilbaka. Þvílíka krúttið.

Elsku Katrín Tara mín, við afi þinn óskum þér til hamingju með afmælisdaginn þinn, biðjum Guð að vaka yfir hverju þínu spori. Þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar og við elskum þig meira en við getum sagt og hlökkum til að sjá þig á eftir.

miðvikudagur, október 26, 2011

Hann á afmæli í dag




Kalda vetrarnótt fyrir 52 árum fæddist hann á eftir hæðinni í húsi foreldra sinna. Hann var númer sjö í röðinni, fyrir voru 2 systur og 4 bræður og fjórum árum seinna fæddist svo yngsti bróðirinn. Þótt ekki sé lengra síðan þá tíðkaðist að konur fæddu börnin heima og sinntu jafnt út- sem innistörfum í hvaða veðri sem var, alla vega í sveitinni.

Hann var bara 16 ára þegar við kynntumst með mikið krullað sitt og strítt hár. Hann átti líka skellinöðru, svaka töffari og ég minnist þess þegar við Barbro vinkona fórum í helgarheimsóknir austur í Kot og fengur að vera aftan á til skiptis. Ég var orðin skotin í honum og ég held að hann hafi þá líka verið skotinn í mér. Pabbi og mamma samþykktu hann og daginn sem ég varð sautján trúlofuðum við okkur og okkur fannst við fullorðin. Lífið var alveg stórskemmtilegt og öll tækifæri notuð til að gera það enn skemmtilegra. Í dag, 33 árum seinna finnst okkur lífið enn skemmtilegra en þá. Við erum enn betri vinir og eyðum miklum tíma saman.

Afkomendahópurinn stækkar stöðugt, dæturnar eru fjórar, tengdasynirnir þrír, barnabörnin eru níu og eitt á leiðinni.

Já hann Erling minn fagnar í dag afmælinu sínu í 52. sinn. Síða krullaða hárið hefur að vísu löngu sagt skilið við hann og vangarnir eru orðnir eilítið silfraðir, barnabörnin okkar halda því reyndar fram að afi þeirra sé ekki með hár :) en þessi sjarmör nær ennþá að heilla ömmu þeira algerlega upp úr skónum. Ég er ákaflega stolt af honum, elska hann meira en hægt er að lýsa í fáum orðum og bið Guð að leyfa okkur að eldast saman svo við getum gengið saman inn í sólarlagið, tvær krumpaðar sveskjur hönd í hönd.




mánudagur, október 17, 2011

Þórey Erla afmælisskvísa



Þar sem ég er níu barna amma þá er ekki skrýtið að það séu oft afmælisskrif á síðunni minni. Það er mér samt alltaf mikil og sönn ánægja að segja ykkur frá afmælum þessara yndigulla sem skreyta lífið okkar Erlings meira en hægt er aðsegja í fáum orðum.

Í dag fagnar hún Þórey Erla sex ára afmælinu sínu og hún er sko búin að bíða eftir því. Hún er byrjuð í skóla og orðin fluglæs og skemmtir sér vel í skólanu, Svo er hún líka orðin nógu gömul til að geta farið í flugvél með systrum sínum að heimsækja ömmu og afa á Akureyri og það er sko spennandi skal ég segja ykkur. Þórey Erla er mjög geðgóð en veit samt alveg hvað húnvill og svo hefur hún ekkert fyrir því að vegja okkur afa sínum um fingur sér. Brosið hennar og stóru augun þegar hún kemur og smellir á mann kossi er algerlega ómótstæðilegt. Við erum góðar vinkonur og það er gaman þegar hún hringir og spyr hvort þau megi koma í heimsókn hingað á Selfoss. Hún er reyndar meiri afastelpa en ömmustelpa og ef hún hittir mig eina þá spyr hún alltaf um afa sinn áður en hún heilsar þetta litla yndigull. Hún er alger Guðs gjöf inn í líf okkar.


Elsku Þórey Erla okkar, við afi þinn óskum þér innilega til hamingju með daginn þinn, veit að þú verður dekruð í dag svo njóttu þess. Við elskum þig marga marga hringi, allan hringinn...

þriðjudagur, október 04, 2011

Erla Rakel afmælisstelpa...

Það eru þrjú ár síðan hún fæddist þessi litla ömmustelpa sem á afmæli í dag. Við sátum í límsófanum þann sunnudagsmorgun og biðum frétta því Eygló og Bjössi voru búin að vera alla nóttina á fæðingardeildinni og svo loksins komu fréttirnar að hún væri fædd. Já hún Erla Rakel á sko afmæli í dag. Um daginn sagði mamma hennar við hana að hún væri yndigull en hún var fljót að leiðrétta það og sagði mömmu sinni að hún væri stelpa, ekki yndigull. Erla Rakel er dugleg stelpa sem veit alveg hvað hún vill. Hún elskar litla bróður sinn og er afar góð við hann. Hún syngur heilmikið og spjallar við mann EF hún vill það sjálf, annars ekki :) Hún er líka mikil afastelpa og ef hún sér bara mig þá spyr hún eftir honum. Hún unir sér vel á leikskólanum sínum er dugleg þar.


Elsku Erla Rakel, við afi þinn óskum þér til hamingju með daginn þinn, þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar og við elskum þig allan hringinn, marga hringi. Láttu nú dekra við þig í allan dag og við hlökkum til að koma í veisluna þína

sunnudagur, september 11, 2011

Karlott afmælisbarn


Það er stutt á milli afmæla þeirra hjónakorna Karlotts tengdasonar okkar og Írisar en í dag fagnar hann afmælinu sínu í 36. sinn.

Karlott er einstaklega ljúfur og góður drengur og hvers manns hugljúfi. Glaðvær og á einstaklega auðvelt með að umgangast fólk og spjalla við það. Hann studdi Írisi með ráð og dáð meðan hún lagði stund á lögfræðinámið sitt og nú er komið að honum og fyrir nokkrum dögum hófst nýr kafli í lífi hans þegar hann settist á skólabekk í Háskóla Íslands og nemur félagsráðgjöf. Þar er hann sannarlega á réttri hillu og ég efast ekki um að honum á eftir að ganga vel í þessu námi og hafa gaman af því.

Íris og Karlott eiga 4 yndisleg börn saman og eru einstaklega samhent um allt er viðkemur heimilishaldi og barnauppeldi. Börn hænast að Karlott og ég hef ósjaldan séð fleiri en hans börn trítla við hlið hans í leit að spennandi ævintýrum úti í náttúrunni þegar við stórfjölskyldan erum samankomin, annað hvort í Kofanum eða í einhverju ferðalaginu.

Karlott er haldinn mikilli veiðibakteríu og ég hef grun um að hann hafi ekki áhuga á að læknast af þeirri bakteríu.

Elsku Karlott, við Erling sendum þér afmæliskveðju héðan frá Tíról og óskum þér innilega til hamingju með daginn þinn, við erum afar ánægð með þig og stolt af þér og við vitum að Íris og börnin munu dekra þig í dag. Sjáumst svo vonandi sem fyrst.

þriðjudagur, ágúst 30, 2011

Íris afmælisstelpa

Það er alveg með ólíkindum hvað tíminn æðir áfram. Eins og hendi sé veifað þá eru liðin 33 ár síðan við Erling fengum frumburðinn í hendur. Yndisleg lítil stúlka sem lét samt bíða eftir sér í hálfan mánuð en sú bið var fljót að gleymast þegar hún var komin. Mamma mín sagði að ég væri heppin að hafa eyrun til að koma í veg fyrir að höfuðið klofnaði við brosið sem var fast á andliti mínu þegar hún kom að sjá fyrsta ömmubarnið sitt.


Íris hefur alltaf verið sjálfstæð og dugleg stelpa og lét ekki viðteknar venjur ákveða neitt fyrir sig og það voru löggu og bófaleikir frekar en barbí þegar hún var lítil stelpa. Reyndar var ég alveg viss um að ef hún myndi einhvern tímann eignast dóttur eða dætur þá yrðu þær aldrei klæddar í bleik föt en sú varð þó ekki raunin því dætur hennar þrjár eru oftast í bleiku og sonurinn í ekta strákafötum. Íris og Karlott maðurinn hennar eru einkar samhent hjón og eru dugleg að eyða tíma með börnunum sínum fjórum og skapa skemmtilegar minningar fyrir þau í minningarbankann. Hún er alger snillingur í kökugerð og hefur gert margar flottar kökur við hin ýmsu tækifæri og má þar nefna brúðartertu sem hún gerði um daginn fyrir brúðkaup Örnu systur sinnar og Hafþórs. Hún er núna í fæðingarorlofi en hún starfar sem lögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra og unir sér vel þar.


Elsku Íris mín, við pabbi þinn óskum þér innilega til hamingju með daginn þinn, veit að þú verður dekruð og mundu að við elskum þig marga marga hringi, allan hringinn, þú ert okkur afar dýrmæt Guðs gjöf og einn af augasteinunum okkar.

þriðjudagur, ágúst 23, 2011

Petra Rut afmælisgull

Ég er alveg einstaklega rík kona, á marga afkomendur og tengdabörn og í dag er einmitt afmæli í stórfjölskyldunni minni. Ung stúlka, næst elst barnabarnanna minna er 9 ára gömul í dag. Já það er einmitt hún Petra Rut mín sem fagnar einu ári í viðbót. Hún, líkt og mamma hennar fæddist nánast fullorðin og hún er mjög dugleg og samviskusöm stelpa. Ákveðin og veit hvað hún vill, elskar litlu systkini sín þótt auðvitað fari þau stundum í taugarnar á henni nema kannski helst sú yngsta, Marta Líf. Hún elskar að fá að halda á henni og hugga hana. Petra Rut var fljótt læs og skrifandi og fær frábærar umsagnir í skólanum sínum. Hún er afar listræn og teiknar þvílíkt flott og hannar föt á dúkkurnar sínar og teiknar þau á blað.

Hún er mikil vinkona mín og það er svo gaman þegar við hittumst hvað hún fagnar manni vel og hún er alltaf til í að kíkja í heimsókn til okkar afa síns og ömmu. Uppáhalds liturinn hennar er fjólublár. Hún er líka mjög flink í fimleikum og hefur afar gaman af þeim.



Elsku Petra Rut mín, við afi þinn óskum þér innilega til hamingju með daginn þinn, við vitum að þú verður dekruð sem aldrei fyrr og við hlökkum til að koma í afmælisveisluna þína.

Þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar og við elskum þig marga marga hringi.

sunnudagur, júlí 24, 2011

Danía Rut afmælisskvísa

Í dag eru liðin níu ár frá því að ég fékk ömmutitilinn í fyrsta sinn. Við vorum að koma úr ferðalagi og komin til Akureyrar og vorum frekar spennt því samkvæmt dagatalinu átti barnið að vera fætt. Það var svo aðfaranótt 24. júlí sem skvísan kom í heiminn og við Erling þar með orðin afi og amma. Daníar Rut, sem í dag fagnar 9 ára afmælinu sínu, hefur alla tíð verið mikill gleðigjafi í lífi okkar og þrátt fyrir veikindi í byrjun þá er hún við hestaheilsu í dag, afar hress og skemmtileg stelpa. Danía Rut greindist einhverf þegar hún var 5 ára en þar sem hún er ekki með neina þroskaröskun Þá gengur hún í venjulega skóla og fær þar smá aðstoð. Hún er með það alveg á hreinu hvers vegna hún er einhverf eins og sést á þessu sem ég tók af síðunni hjá mömmu hennar: "Við sátum við morgunverðarborðið þegar Danía Rut segir allt í einu bara alveg upp úr þurru..stelpur vitiði hvað, þegar Jesú var að búa mig til þá setti hann vitlausan heila í mig og þess vegna er ég einhver. Stelpurnar voru ekki alveg að samþykkja þetta svo daman hélt áfram og sagði, sko Guð hann fór niður og sótti öðruvísi heila og setti í mig og þess vegna er ég einhverf. Þótt hlutirnir geti verið erfiðir að skilja þegar maður er einhverfur þá skilur daman þetta allavega mjög vel og er komin með sína eigin skýringu á einhverfunni sinni "
Danía Rut er dugleg stelpa, elskar lítil börn og dýr og þá sérstaklega kisur og hún á kisuna Prins Mjá sem amma hennar í sveitinni geymir fyrir hana því mamma hennar er með ofnæmi fyrir kisum. Hún elskar að dansa og hefur sýnt hæfileika á því sviði.


Elsku Danía Rut okkar, við afi þinn óskum þér innilega til hamingju með afmælið þitt og við vitum að þú verður dekruð í dag sem aðra dag. Við elskum þig meira en hægt er að segja með orðum og hlökkum til að fara í ferðalag með ykkur á morgun.

miðvikudagur, júní 22, 2011

Bjössi afmælisbarn

Eins og lesendur mínir vita þá er ég svo heppin að tilheyra stórri fjölskyldu og í minni nánustu fjölskyldu þá er ég ættmóðir margra og því eru oft afmælisskrif á síðunni minni og svo er einmitt í dag. Einn af þremur tengdasonum okkar, hann Bjössi hennar Eyglóar á afmæli í dag, er orðinn 37 ára kappinn. Hann er vélfræðingur að mennt og starfar við sitt fag hjá Marel og er vel liðinn þar sem og af öðrum sem þekkja hann enda greiðvikinn mjög og gott að leita til hans. Bjössi hefur gaman af að veiða og notar óspart tækifærin til að renna fyrir fisk. Allir tengdasynir mínir eru góðir vinir og ég er mjög þakklát fyrir það. Eygló og Bjössi eru mjög samhent og njóta lífsins í botn ásamt Erlu Rakel og Andra Ísak og eru dugleg að leggja inn í minningarbanka barnanna og það er mjög dýrmætt.

Elsku Bjössi minn, við Erling sendum þér innilegar hamingjuóskir í tilefni dagsins og við hlökkum til að kíkja á þig fljótlega og við biðjum þér og fjölskyldunni allri ríkulegrar Guðs blessunar.

föstudagur, júní 03, 2011

Stóri prinsinn orðinn 4ra ára


Ég er þeirrar skoðunar að allir dagar sem við fáum úthlutað séu merkisdagar en þó eru auðvitað sumir dagar miklu merkilegri en aðrir. Í dag er einn af þeim dögum. Við Erling erum svo lánsöm að vera umkringd barnabörnum og í dag er eldri prinsinn í hópnum orðinn fjögurra ára gamall. Erling Elí fæddist á fallegum sunnudegi fyrir fjórum árum og varð strax einn af augasteinunum okkar afa síns og ömmu. Þessi litli stóri yndis drengur er flottur og duglegur strákur, alger prakkari og grallaraspói sem bræðir alla sem eru kringum hann en hann er sérstaklega hændur að Erling afa sínum og í hvert sinn sem ég kem ein í heimsókn til þeirra er ég varla komin inn þegar hann spyr um afa sinn og bara gaman af því. Erling Elí er sannur strákur og alger bíladellukall, elskar allt með mótora, geimflaugar og allt svona ekta stráka dót. Um daginn var hann hjá okkur og vildi endalaust hafa afa sinn með sér í að skoða jeppa í tölvunni og svo vildi hann sjá flott bíla DVD sem hann á.

Elsku Erling Elí minn, við afi þinn sendum þér bestu hamingjuóskir með daginn þinn og við hlökkum til að koma í veisluna þína. Þú ert alger Guðs blessun í líf okkar og við erum Guði þakklát fyrir þig. Láttu alla dekra við þig sem aldrei fyrr. Við elskum þig milljón hringi og aðeins fleiri líka litli stóri strákurinn okkar.

mánudagur, maí 16, 2011

Hann á afmælisdag.....hann lengi lifi




Eins og ég hef margsagt ykkur lesendur mínir þá er ég orðin ættmóðir margra og því eru oft afmælisdagar hjá mínu fólki og í dag er einmitt einn slíkur. Einn af þremur tengdasonum okkar, hann Hafþór hennar Örnu á afmæli er 35 ára í dag.


Þegar Arna kynnti hann fyrir okkur fyrir tveimur árum síðan leist okkur strax vel á hann og hann hefur staðið undir væntingum okkar. Hann hefur tekið stelpunum hennar Örnu sem sínum eigin og var fljótur að vinna sér inn hylli þeirra og þær kalla hann Hafþór pabba. Þær eru líka búnar að segja mér að þær fái að vera brúðarmeyjar við brúðkaup þeirra sem verður í ágúst. það var ekki laust við að þær væru spenntar yfir því dömurnar litlu, stóru.


Hafþór er Eyjapeyi, fæddur þar og uppalinn, vélfræðingur að mennt og starfa við það í vélsmiðju í Hafnarfirði. ásamt því að eiga og reka hljóð og tækjaleigu í Vestmannaeyjum í samvinnu við félaga sinn. Þau Arna eru afar samhent og eru dugleg að leggja inní minningarbanka stelpnanna og gaman að fylgjast með þeim.


Elsku Hafþór, við Erling óskum þér innilega til hamingju með daginn þinn, við erum ánægð með þig og það var gaman að gleðjast með þér í gær og ég efast ekki um að stelpurnar þínar fjórar dekri við þig í dag sem aldrei fyrr. Kveðja frá okkur í Húsinu við ána.

laugardagur, apríl 09, 2011

Elsku pabbinn minn


Ég er svo heppin að tilheyra stórri fjölskyldu og fyrir það er ég Guði þakklát. Því fylgir auðvitað að afmælisdagar eru margir og mér finnst alltaf mikil ástæða til að fagna hverjum og einum þeirra því lífið sjálft er gjöf sem okkur er gefin. Í dag er það ættfaðirinn hann pabbi minn sem fagnar afmælisdegi sínum og núna í 72. sinn. Hann pabbi er alveg frábær og sérlega umhyggjusamur um okkur öll, vill alltaf vita þegar við erum á ferðinni og ósjaldan hefur hann hringt og athugað með mig og mitt fólk hvort við séum örugglega komin heim í hús þegar veður eru válynd á heiðum eða þegar slys hafa gerst á þeirri leið sem við ökum til og frá vinnu.

Þegar við Erling opnuðum ísbúðina í fyrra og fatabúðina núna um daginn þá fylgdist hann með öllu því ferli af miklum áhuga og hann spyr alltaf reglulega hvernig gangi og mér þykir afar vænt um það.

Pabbi var lengst af bílstjóri á Hreyfli, var formaður félagsins í langan tíma og hann vann af miklum heilindum fyrir félagið og var t.d. sá sem lagði mikla áherslu á að tölvuvæða bílana og kom þeirri hugmynd í framkvæmd. Hann spilar alltaf bridge með þeim félögum sínum og það eru ófá verðlaunin sem hann hefur komið með heim eftir spilakvöld. Um daginn fór hann svo með þeim til Kanaríeyja til að spila. Ég hinsvegar veit varla muninn á spaða og ás. Afkomendur hans og tengdabörn eru eitthvað í kringum 50 og því er oft þröngt á þingi þegar við komum öll saman í litla ömmuhúsinu hans og mömmu. Litlu langafabörnin kalla hann Langa að hans eigin ósk, honum finnst alltof langt fyrir þau að segja langafi og að mér læðist sá grunur að hann sé bara nokkuð stoltur af okkur öllum.

Elsku pabbi minn, innilega til hamingju með daginn þinn, hlakka til að sjá þig á eftir.

Elska þig endalaust, Erlan þín

laugardagur, mars 12, 2011

Mamma mín afmælisskvísa

Elsku besta og yndislega mamman mín á afmæli í dag, 71 árs skvísan þótt það trúi því enginn enda er hún svo ungleg þessi elska. "Hvaðan kemur hún mamma þín eiginlega" var ég spurð að um daginn. "Hún kemur frá himnum enda alger engill" svaraði ég. "Já það hlýtur að vera því það fylgir henni svo sérstakur andi og mikill friður og ró" sagði þá spyrjandinn við mig. "Henni er svo annt um alla og er ekki bara að hugsa um sitt fólk heldur virðist hún hafa tíma fyrir alla".
Já hún mamma mín er svo sannarleg einstök kona og þótt hún sé nú langt frá því að vera fyrirferðamikil þá hefur hún breitt bak og það eru ófáir sem koma til hennar með ólíklegustu vandamál sín og hún hefur tíma fyrir alla.
Við erum miklar vinkonur og hún er alltaf til staðar fyrir mig og mitt fólk ásamt okkur öllum í stórfjölskyldunni. Rúmlega fertug lét hún draum sinn rætast og hóf nám og það voru stoltir krakkar sem mættu við útskriftina hennar þegar hún útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur 46 ára gömul og hún er þeim hvatning sem langar að læra en halda að þeir séu of gamlir til þess.

Elsku mamma mín, um leið og ég óska þér til hamingju með daginn þinn vil ég segja þér að ég er Guði svo þakklát fyrir þig hafa valið þig til að vera mamma mín, ég er svo stolt af þér og elska þig milljón. Vona að afmælisdagurinn verði þér góður og frábær og ég hlakka til að hitta þig á eftir.

miðvikudagur, mars 02, 2011

Þrítugar afmælisstelpur

Við eldhúsborðið í gærkvöldi vorum við Erling að rifja aðeins upp tímann fyrir 30 árum og 4 mánuðum síðan og það sem allt hefur breyst. Við áttum von á okkar öðru barni og í mæðraskoðun, þá komin 5 mánuði á leið, vildi ljósan endilega senda mig suður í sónar. Við bjuggum á Akranesi og þá tíðkaðist ekki að allar konur færu í sónar, bara ef eitthvað var öðruvísi en átti að vera. Ljósan sagði við mig að hana grunaði að ég væri gengin lengra með barnið en blæðingar sögðu til um. Eftir á að hyggja er ég viss um að hana grunaði ástæðu þess að legið var miklu hærra uppi en hún orðaði það samt ekki við mig. Ég fór því suður með Akraborginni og tók Írisi með en það tíðkaðist ekki heldur að feður færu með í sónar. Við áttum engan bíl svo við mæðgur gengum niður að höfn og svo tók mamma, þessi elska, á móti okkur í borginni og keyrði mig á spítalann í sónar og beið frammi á meðan með litlu dömuna okkar. Hún sagði mér svo seinna að ég hefði verið hvítari en hvítt lak þegar ég kom fram frá lækninum og sagði ekki margt annað en að hún hafði haft rétt fyrir sér, börnin væru tvö. Þar sem við áttum heldur ekki síma höfðum við ákveðið að Erling færi á símstöðina í hádegishléinu og myndi hringja í mig til að vita hvað hefði komið út úr sónarnum. Þótt mamma mín væri búin að segja við mig að henni kæmi ekki á óvart að börnin væru tvö þá trúði ég henni aldrei og fannst það mjög fjarstæðukennt. Hvað um það, Erling var einmitt að rifja það líka upp í gær þegar hann stóð í símaklefanum utan við símstöðina og fékk fréttirnar. Hann sagði ekkert, og þá meina ég ekkert, í svona eina mínútu. Þetta var nett sjokk fyrir okkur enda vorum við bara tvítug og Erling í námi en svo leið meðgangan og við vorum orðin mjög spennt þegar þær létu svo sjá sig stelpurnar okkar.

Mér finnst ótrúlega stutt síðan þetta var en engu að síður er það staðreynd að í dag fagna Eygló og Arna, tvíburadætur okkar 30 ára afmælinu sínu. Þær munu samt ekki vera hrifnar af mér að tala um þær sem tvíbura. Þær elska að vera tvíburar en það má ekki tala um þær sem slíkar enda eru þær tveir sjálfstæðir einstaklingar þótt við stríðum þeim stundum með þeirri staðreynd að þær eru líffræðilega nákvæmlega eins. Auðvitað eru þær samt ekki eins en þær eru ótrúlega samrýmdar og það er einhver óskiljanlegur þráður milli þeirra. Þeim dreymir jafnvel sömu drauma sömu nótt og stundum kaupa þær alveg eins gjafir handa hvor annarri án samráðs. Ég held reyndar að einungis eineggja tvíburar geti skilið þessi tengsl sem eru þarna á milli.
Þær hafa alla tíð verði yndi okkar og stolt ásamt hinum systrum sínum. Þær elska að eiga afmæli og löngu áður en dagurinn rennur upp er búið að skipuleggja hann og ég vona að þær haldi þessu áfram, leyfi afmælisbarninu í sér alltaf að njóta sín í botn. Þær vinna báðar á leikskóla, þó ekki þeim sama og þeim líkar vel að vinna með börnum enda eru þær báðar mömmur sjálfar.
Eygló og Bjössi eiga Erlu Rakel sem er tveggja ára síðan í október og svo fæddist Andri Ísak 20. feb sl og hann er því bara rétt viku gamall.
Arna á þrjár dætur, Daníu Rut 8 ára, Söru Ísold 7 ára og Þórey Erlu 5 ára og elur þær upp með Hafþóri sínum sem tekur þær algerlega sem sínum eigin.

Elsku stelpurnar okkar, við pabbi ykkur óskum ykkur innilega til hamingju með daginn ykkar. Vonum að hann verði ykkur frábær í alla staði. Við elskum ykkur meira en orð fá lýst og erum afar stolt af ykkur.

þriðjudagur, febrúar 15, 2011

Sara Ísold 7 ára afmælisprinsessa

Í dag eru sjö ár síðan þriðja barnabarn okkar Erlings leit dagsins ljós norður á Akureyri. Við höfðum fylgst með gangi fæðingarinnar alla nóttina gegnum símtöl frá örnu og svo var það snemma á sunnudagsmorgni sem við fengum símtalið um að dóttir væri fædd og allt í lagi með þær mægður. Já hún Sara Ísold vinkona okkar er sjö ára í dag og er búin að bíða lengi eftir þessum degi. Hún er mjög dugleg stelpa og ákveðin, löngu orðin læs og dugleg að skrifa. Hún er kát og skemmtileg en ef henni mislíkar eitthvað þá hikar hún ekki við að láta okkur vita af því. Brosið hennar heillar mann algerlega og blikið í augunum er ómótstæðilegt.
Það átti að halda uppá afmælið hennar á sunnudagin var en veikindi komu í veg fyrir það en veislan verður haldin aðeins seinna. Hennar helsta áhugamál eru hestar og svo er barbie að komast nokkuð nálægt því að vera líka í uppáhaldi. Aðspurð langaði hana í úr, playmo, hlaupahjól og snú snú band. "Amma, það er svona rosalega langt sippuband" sagði hún til útskýringar enda ekki reiknað með að ömmur viti hvað snú snú band er :)

Elsku Sara Ísold okkar, við afi þinn óskum þér innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, þú ert alger Guðs gjöf inní líf okkar og við elskum þig meira en orð fá lýst. Við vitum að þú verður dekruð í dag og njóttu þess í botn.

laugardagur, janúar 08, 2011

Hrund afmælisprinsessa


Það er alveg með ólíkindum að í dag séu liðin 22 ár frá því að yngsta barnið mitt fæddist en engu að síður er það staðreynd. Það var sunnudagurinn 8. janúar og klukkan alveg að verða fjögur að degi til þegar hún fæddist. Hún opnaði annað augað, sá föður sinn, leist vel á hann og lokaði augunum aftur, hefur sennilega séð að hún var komin í öruggar hendur. Hrund er ein af þeim sem eru fæddir leiðtogar og því hefur það reynst henni auðvelt að fá félaga sína til að láta af leiðinlegri breytni sinni gagnvart þeim sem eru minni mátttar. Hún er líka samkvæm sjálfri sér og lætur verkin sín frekar tala en orð en samt er henni aldrei orðavant, það má segja að frá því hún var altalandi, aðeins eins og hálfs árs gömul, þá hefur hún varla stoppað.

Í haust hóf hún nám á sálfræðibraut Háskólans í Reykjavík og líkar vel þar enda búin að kynnast fullt af skemmtilegum krökkum sem hún eyðir tíma með bæði við nám og skemmtun. Núna á þriðjudaginn verða þau tímamót hjá henni að hún tekur á leigu íbúð hjá Námsmannaíbúðum og það er að vonum stórt skref.

Elsku Hrundin mín, við pabbi þinn óskum þér innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn og við vonum að hann verði þér góður. Við elskum þig meira en hægt er að segja með orðum og erum afar stolt af þér. Guð blessi þig og veiti þér það sem hjarta þitt þráir.