þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Það er ekki hægt annað en segja.........

..........að síðasta vika hafi verið viðburðarrík hjá mér.

Miðvikudagskvöldið var einstaklega vel heppnað. Við vorum 13 alls, því miður þá veiktist Dúdda frænka og komst ekki með okkur og við söknuðum hennar. Sigrún og Ásta voru reyndar ekki heldur með okkur núna, voru erlendis að sinna öðru en vonandi verða þær með okkur næst. Við söknuðum þeirra líka. Bleika þemað okkar var augljóst þegar litið var yfir hópinn og ekkert nema gaman að því. Lækjarbrekka stóð svo sannarlega fyrir sínu, það er alltaf jafn notalegt þar og svo var einnig þetta kvöld. Þjónarnir lögðu sig alla fram um að dekra við okkur og sjá um að okkur skorti ekki neitt. Maturinn var frábær og nóg af honum og eftirréttirnir ummmmmm.
Svo opnuðum við pakkana okkar og innihald þeirra eins misjafnt og við erum en ég held að allar hafi verið ánægðar með sitt.

Eftir eitt ár stefnum við á að fara saman til Ameríku og ég vona svo sannarlega að það verði af því, við erum víst svo skemmtilegur hópur að það verður örugglega mjög gaman hjá okkur þar líka.

Á föstudaskvöldið fór svo áttmenningafélagið saman út að borða en það höfum við gert árlega í, að ég held, 17 eða 18 ár og það er mjög skemmtilegur siður. Í áttmenningafélaginu erum við Erling, Barbro og Siggi, Gylfi og Christina og svo María og Svanur. Að þessu sinni fórum við á Oliver og ég verð bara að segja að ég mæli alls ekki með staðnum fyrir þá sem vilja fara og eiga skemmtilega stund með vinum sínum yfir góðum mat. Maturinn var að vísu góður og mátti nú alveg vera það því við biðum hátt í tvo klukkutíma eftir honum í ærandi hávaða, það var vonlaust að reyna að halda uppi samræðum við vini sína. Það var jú hægt að tala við þann sem sat við hliðina á manni en þar með var það upptalið. Oliver er kannski flottur staður til að fara á djammið en hentaði allavega ekki mér og mínum ekta manni. Eftir matinn fórum við hins vegar heim til Maríu og Svans og þar var allt annað uppi á teningnum. Það áttum við skemmtilegt samfélag yfir góðum kaffibolla, frábærri köku sem María bjó til og tónlistin var alveg að mínu skapi, Eric Clapton, góður.

Ekki var nú öll skemmtun upptalin því á laugardagskvöldinu hélt Hansi mágur minn uppá 60 ára afmælið sitt með flottri veislu austur í Fljótshlíð og Erling tók að sér að stýra veislunni. Honum tókst mjög vel upp með það, gerði það faglega og vel en samt var allt á léttu nótunum, brandarar fuku og boðið var uppá ýmis skemmtiatriði m.a. sungu systkinin brag um Hansa við harmonikuundirleik Sigga hennar Gerðu. Hansi var ánægður og gestirnir líka og þá er tilganginum náð. Við höfðum tekið á leigu lítið sumarhús á sama stað og veislan var haldin og það var mjög notalegt að geta bara farið þangað og sofið í stað þess að keyra suður um miðja nótt.

Við tókum samt daginn snemma því það var mikill lestur sem beið Erlings en hann fór í tvö próf í gær með aðeins klukkutíma milli bili og hvort próf var í 4 klukkutíma. Það var því lúinn og þreyttur maður sem kom heim til mín á sjöunda tímanum í gærkvöldi óviss um hvernig honum hafði gengið en lét þau orð falla að það væri óskynsamlegt að taka tvö próf sama daginn í lagadeild en svona var þetta bara sett upp.

Við enduðum gærdaginn á að kíkja á vini okkar Sigrúnu og Heiðar sem voru að koma frá Spáni. Það er alltaf jafn gaman að eyða kvöldstund með þeim.

Njótið aðventunnar vinir……

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Þriðjudagskvöld......

......við eldhúsborðið heima hjá mér, Erling er að lita á mér hárið, það sem hann getur ekki gert er held ég ekki til, hann er ótrúlega fjölhæfur þessi flotti maður minn.

Ég er að fara á stredderí annað kvöld og mikið hlakka ég nú til. Við erum að fara mæðgurnar, mágkonurnar, tengdadæturnar, frænkurnar og fleiri skvísur út að borða. Við höfum farið saman einu sinni á ári og þetta er í tíunda skipti og núna ætlum við að vera flottar á því. Ekkert minna en jólahlaðborð á Lækjarbrekku. Við verðum með þema, allar að koma í einhverju bleiku eða vera með eitthvað bleikt sýnilegt á sér. Svo ætlum við líka að hafa svona Litlu jóla stemmingu og koma allar með pakka. Ég er búin að kaupa mjög flottan pakka..........Já mikið hlakka ég til, mér finnst bæði gaman að fá pakka og ekki minna gaman að borða góðan mat eins og á mér má sjá.........

Jæja nú eru gráu náttúrulegu strípurnar mínar sem betur fer horfnar og svarti senjorítuliturinn minn prýðir nú höfuð mitt enda er ég mjög líklega hálf spænsk. Ég er þakklát fyrir þann sem fann upp háralitinn, án hans liti ég öðruvísi út.

Hrund er búin að vera á skrifstofunni í allt kvöld, er á msn að tala við Theu uppáhaldið sitt. Ég spjallaði líka aðeins við hana, sá hana í webcam, ég sakna hennar og hlakka til þegar hún kemur heim næsta sumar.

Núna er klukkan farin að halla í ellefu, við Erling sitjum í sófanum, hann er að læra, ég sit á náttfötunum og blogga en fylgist með Judging Amy með öðru auganu. Hún er nú alltaf jafn skemmtileg. Það er eitthvað svo notalegt hér hjá okkur hjónakornunum og ég veit að skynsamlegst væri að fara að sofa núna en ég tími því ekki en samt.......koddinn freistar nú svolítið.

Segi ykkur næst hvernig verður hjá okkur dömunum annað kvöld.......

mánudagur, nóvember 14, 2005

Klukk

Jæja, þá er bæði búið að klukka mig og kitla og hér er klukkið en kitlið kemur aðeins seinna.

1. Hvað er klukkan? 17:59

2. Hvaða nafn er á fæðingarvottorðinu þínu? Erla Kristín Birgisdóttir

3. Hvað ertu kölluð? Erla, sumir vinir mínir kalla mig Perla en Erling kallar mig krúttlu en það er hans einkaleyfi, ég svara engum öðrum því

4. Hvað voru mörg kerti á síðustu afmæliskökunni þinni? Ekkert kerti

5. Hár? Mjög fallegt, svart og senjorítulegt enda er ég örugglega smá spænsk

6. Göt? Þessi sem við fæðumst öll með og svo fjögur auka í eyrunum

7. Fæðingarstaður? Reykjavík

8. Hvar býrðu? Reykjavík

9. Uppáhaldsmatur? Get ekki gert upp á milli alls þess góða sem Erling eldar en þegar hann býður í tveggja manna partý heima með öllu tilheyrandi……..ummmmmm

10. Einhvern tímann elskað einhvern svo mikið að það fékk þig til að gráta? Nei minnir ekki, það er engin ástæða til að gráta yfir honum Erling

11. Gulrót eða beikonbitar? Beikonbitar, nema hvað

12. Uppáhalds vikudagur? Föstudagur og líka laugardagur, föstudagskvöld eru svo uppáhalds kvöldin mín

13. Uppáhalds veitingastaður? Argentína og Caruso, fer eftir buddunni

14. Uppáhalds blóm? 3 rauðar rósir af óvæntu tilefni, klikkar ekki

15. Hvaða íþrótt finnst þér skemmtilegast að horfa á? Horfi ekki á íþróttir

16. Uppáhalds drykkur? Pepsi max

17. Disney eða Warner brothers? Blanda af báðum

18. Uppáhalds skyndibitastaðurinn? Nings

19. Hvernig er teppið í svefnherberginu á litinn? Ekkert teppi á gólfinu en rúmteppið er beislitt og mjög fallegt

20. Hver var síðastur til að senda þér tölvupóst? Kiddi bróðir

21. Í hvaða búð mundir þú vilja botna heimildina á kreditkortinu? Annað hvort í Húsgagnahöllinni eða Tekk vöruhús

22. Hvað gerir þú oftast þegar þér leiðist? Horfi á imbann en sem betur fer leiðist mér ekki oft

23. Hvaða spurning sem þú færð fer mest í taugarnar á þér? Hef ekki hugmynd, ekkert sérstakt

24. Hvenær ferðu að sofa? Yfirleitt um miðnætti, alltof seint :o(

25. Hver verður fyrstur til að svara þér þessu? ???????????

26. Hver af þeim sem þú biður um að svara þessu er líklegastur til að svara ekki???????????????????

27. Uppáhalds sjónvarpsþáttur? Fyrir Kötu mágkonu mína segi ég íslenski bachelorinn en svona í alvöru þá er það Fólk með Sirrý og Judging Amy

28. Með hverjum fórstu síðast út að borða? Erling

29. Ford eða Chevy? Musso ekki spurning

30. Hvað varstu lengi að klára að svara þessu? 12 mínútur

Njótið þess svo bara að vita allt þetta um mig....

laugardagur, nóvember 12, 2005

Birgir Davíð Kornelíusson - Blessuð sé minning hans

Þegar mamma hringdi í mig í vinnuna sl fimmtudag þá heyrði ég strax á henni að hún var ekki að færa mér nein gleðitíðindi. Því miður reyndist það rétt vera því hann Biggi frændi minn var dáinn, hafði dáið þá um morguninn á afmælisdegi móður sinnar, 10. nóvember.

Við vorum systrabörn, hann var 13 árum eldri en ég þannig að hann hefur verið samferða mér í gegnum lífið. Það er nú einhvern veginn þannig að maður er aldrei undirbúinn fyrir svona fréttir og þótt ég hafi vitað um nokkurn tíma að hann var veikur með krabbamein þá datt mér ekki í hug að hann myndi kveðja svona fljótt.

Ég man fyrst eftir honum á jóladag, þegar við vorum börn en það var ein af jólahefðunum að stórfjölskyldan hittist heima hjá Siggu og Kornelíusi, foreldrum Bigga. Hann var unglingur og fannst við örugglega óttaleg smábörn, hoppandi upp og niður flotta stigann í húsinu þeirra.

Löngu seinna þegar ég var að vinna á skrifstofu Hvítasunnukirkjunnar þá hafði ég oft samskipti við hann því hann kom gjarnan við hjá okkur og það var alltaf gaman að hitta hann. Hann var líka fastur punktur í öllum ferðalögum á vegum kirkjunnar og kom á flest mót sem voru haldin og fór þá gjarnan með mömmu minni á milli staða. Við Biggi áttum ferðaáhugann sameiginlegan og það var gaman að hitta hann þegar hann var kominn úr einhverri ferðinni og kom til að segja okkur ferðasöguna.

Hann var glaðlyndur og sjaldan sá ég hann reiðan við nokkurn mann. Hann lét samt alveg vita að því ef honum mislíkaði eitthvað en það var fljótt úr honum. Biggi vann á Múlalundi og ef okkur vantaði eitthvað þaðan á skrifstofuna þá var bara að hringja í hann og innan skamms var hann kominn með það sem vanhagaði um og ef ég sagði við hann að ég hefði getað sótt þetta þá fannst honum það nú óþarfi, hann væri hvort sem er á ferðinni. Stundum kom ég við hjá honum í vinnunni og verð að viðurkenna það að mér fannst gaman að vera frænka hans, hann var vel liðinn og augljóst að starfsfólkinu þótti vænt um hann.

Það er á engan hallað þótt ég segi að bónbetri mann var ekki að finna til að keyra eldri borgarana okkar á samverur fyrir þá sem kirkjan stóð fyrir. Biggi frændi átti marga vini og þeir eru margir sem sakna hans en mestur er þó söknuður foreldra hans sem svo sannarlega voru eins og klettar í hafinu í veikindum hans svo og systkina hans.

Um leið og ég og fjölskylda mín vottum minningu Bigga frænda virðingu okkar sendum við Siggu, Kornelíusi og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúðarkveðjur. Guð blessi ykkur og styrki á allan hátt.

sunnudagur, nóvember 06, 2005

4ra****hótel á Puerto Rico eða Maspalomas????

…..þegar ég kom heim úr vinnu sl föstudag þá var aldrei þessu vant enginn heima.
Erling hafði tekið að sé einhverja smíðavinnu og var ekki kominn heim. Tilfinningin um helgarfrí framundan var frábær og ég hellti uppá könnuna og settist síðan niður og fletti blöðunum. Klukkutíma seinna kom Erling heim. Ég sá á honum að honum lá eitthvað á hjarta og þar sem hann hikar nú aldrei við hlutina ef hann hefur ákveðið eitthvað sagði hann án fyrirvara; Ég ætla að fara með þig til Kanaríeyja í janúar, líst þér ekki vel á að við höldum uppá afmælið þitt þar?

Forsaga málsins er sú að við höfðum verið að spá í að fara með vinum okkar, Sigrúnu og Heiðari, til Danmerkur í desember og upplifa þá einsöku jólastemmingu sem þar er fyrir jólin. Við fórum þangað fyrir þremur árum og það var einstakt, jólastemmingin í Tívolíinu og lyktin af brenndum möndlum á Strikinu er ómótstæðilegt.

Nú stóð til að endurtaka þann leik en af ýmsum ástæðum var, núna rétt fyrir helgi, ákveðið að fara ekki þetta árið. Erling verður ekki búinn í prófum fyrr 12. desember og Sigrún og Heiðar upptekið fólk og við náðum ekki að púsla þessu saman. Ég var nú frekar svekkt enda eru ferðalög eitt það skemmtilegasta sem ég veit.

Þess vegna kom það mér mjög skemmtilega á óvart að sá möguleiki hafi komið upp að fara til Kanaríeyja. Við fórum að velta fyrir okkur á hvaða hóteli við ættum að vera og niðurstaðan var sú að í gærkvöldi sagði Erling við mig; Erla mín, mig langar að fara með þig á virkilega fínt hótel, það hæfir þér best og nú stendur valið á milli þess að vera á 4ra **** hóteli á Puerto Rico, glæsihótel hátt uppi í hlíðum með frábæru útsýni eða á 4ra**** hóteli á Maspalomas og er alveg við ströndina.

Ég er alveg í skýjunum með þetta og velti stundum fyrir mér hvernig ég fór að því að ná í þennan meiriháttar mann…..hann er flottastur og ég elska hann.

En hvaða stað og hótel ættum við að velja??????????????
Hver er ykkar skoðun????????????