mánudagur, desember 31, 2007

Á síðasta degi ársins

Það er við hæfi á þessum tímamótum að líta um öxl, horfa tilbaka yfir árið sem er að kveðja okkur og sjá hvort ekki leynist eitthvað sem hægt er að læra af. Hetjur og menn ársins eru kosin hingað og þangað og víst er að sitt sýnist hverjum um það en sá sem velur í hvert og eitt sinn hefur sínar ástæður fyrir valinu. Ég ætla nú ekki að feta í þau fótspor að opinbera hér á síðunni minni hver er að mínu mati einstaklingur ársins en hef á því ákveðnar skoðanir.

Árið hefur verið mér afar gott og ég lít tilbaka sátt og glöð. Auðvitað er alltaf hægt að gera betur og mín áramótaheit að þessu sinni snúast um að gera betur á nýja árinu því þótt ég leggi mig yfirleitt fram um að gera hlutina vel þá má alltaf bæta sig. Ekki ætla ég samt að leggja fram mín áramótaheit hér en þau snúast ekki að því að grennast, hætta að reykja eða drekka minna. Þau snúast um um mannlegar hliðar lífsins. Með hverju árinu er mér það ljósara hversu miklu máli fjölskylda mín og vinir mínir skipta mig. Hversu mikilvægt það er að rækta garðinn sinn því ekki blómstrar hann af sjálfsdáðum.

Talandi um fjölskylduna þá langar mig að minnast á jólaboð sem var hér í Húsinu við ána fyrir nokkrum dögum. Við höfðum boðið hingað systkinum Erlings ásamt mökum, börnum og barnabörnum og buðum þeim að koma með veitingar með sér. Það var mjög góð mæting, ekki síst hjá ungu kynslóðinni sem kom með litlu krílin sín með sér. Það var mikið fjör og gleði hér fram eftir degi og um kvöldið þegar við vorum búin að ganga frá þá settumst við niður, ég og Erling ásamt Örnu og Hrund og spjölluðum saman um hvað þetta var gaman. Þá fann ég þessa gleðitilfinningu fara um mig því ég fann að þarna var búið að sá í garðinn minn. Allir sem komu voru ánægðir með þetta og ég vissi að fjölskylduböndin voru hnýtt fastari böndum. Eins og stendur í helgri bók þá er fólkið hans Erlings mitt fólk og fólkið mitt hans fólk og þannig vil ég hafa það. Mér finnst ég vera frænka allra þessara “krakka” (systkinabarna Erlings) og mér þykir svo mikið vænt um þau og fólkið þeirra. Stelpurnar mínar vilja gera þetta að hefð og við Erling erum meira en til í að sjá um það með þeim.

Við mágkonur og svilkonur Erlings megin höfum tekið ákvörðun að efla tengslin okkar á milli og það gleður mig líka mikið. Við erum að leggja í sjóð til að fara saman í aðventuferð næsta haust og ekki efast ég um að það verður gaman hjá okkur.

Það er með mikilli tilhlökkun sem ég horfi fram á nýja árið. Við Erling munum, ef Guð lofar, fagna 30 ára brúðkaupsafmæli okkar þann 4. mars og ætlum að halda uppá það. Lífið er ljúft, gott og yndislegt og ég fagna hverjum degi. Ég bið góðan Guð að blessa ykkur lesendum mínum nýja árið og veita ykkur það sem hjarta ykkar þráir. Ég þakka ykkur heimsóknir á síðuna mína og hlakka til meiri samveru við ykkur í bloggheimum. Þangað til næst........

fimmtudagur, desember 27, 2007

Til umhugsunar...

Ertu haldinn fullkomnunaráráttu?
Þorirðu aldrei að taka áhættu því þú ert hræddur við að gera mistök?
Veistu að mestu framfarir mannkyns urðu til vegna fólks sem þorði að taka áhættu og lærði af mistökum sínum?

Ég ætla að leyfa mér að birta hér ljóð úr bókinni hennar Eddu Andrésdóttur fréttakonu um það hvernig hún og fjölskylda hennar upplifðu það að pabbi þeirra greindist með Alsheimer. Ljóðið hins vegar tók ég af síðunni hennar Gerðu mágkonu minnar og mér finnst svo mikill sannleikur í því að ég vil endilega að þeir lesendur mínir sem ekki fylgjast með blogginu hennar fái að lesa það. Ég held að það væri okkur öllum hollt að íhuga efni ljóðsins og læra af því.

Ef ég mætti lifa lífi mínu á nýjan leik,
mundi ég á því skeiði reyna að láta mér verða á fleiri mistök.
Kappkostaði ekki að verða fullkomin heldur slakaði á
færi oftar heimskulega að ráði mínu en ég hef gert til þessa
tæki í raun fátt alvarlega hirti mig miður.
Ég tefldi oftar á tvær hættur, færi fleiri ferðir,
horfði oftar á sólsetrið,
klifi fleiri fjöll, synti fleiri fljót.
Ég færi til fleiri staða en ég hef áður komið á,
æti meiri ís og minni baunir,
glímdi við fleiri raunveruleg vandamál og færri ímynduð.
Ég var einn þeirra manna sem lifði hverja ævistund
skynsamlega og rækilega
átti auðvitað hamingjustundir.
Yrði mér afturhvarfs auðið,
reyndi ég að einskorða mig við góðu stundirnar.
En lífið er, skyldirðu ekki vita það
sett samanúr þeim, þessum stundum
og tapaðu nú ekki af þeirri stund, sem yfir stendur.
Ég var einn þeirra sem fór hvergi án hitamælis,hitabrúsa,
regnhlífar og fallhlífar
ef ég ætti að lifa að nýju, ferðaðist ég léttar búinn.
Mætti ég lifa á nýjan leik, legði ég upp berfættur snemma vors
og gengi áfram allt til haustloka.
Ég færi fleiri ferðir með hringekjunni,
horfði oftar í sólina rísa og léki mér við fleiri börn,
ef ég ætti enn líf fyrir höndum .
En sjáðu til, ég er áttatíu og fjögurra ára
og veit að ég er að dauða komin.

Höf: Borges

mánudagur, desember 24, 2007

Aðfangadagur jóla.....

Augnablik var ég búin að gleyma því að þrjár litlar snúllur gistu í afa- og ömmuhúsi og því var ég að hugsa þegar ég vaknaði hvaða raddir þetta væru frammi. Að venju var ekki farið snemma að sofa á Þorláksmessu en sú tilbreyting var þó núna að við hjónin vöktum bæði fram á nótt, lukum við að gera það sem húsmóðurinni finnst algerlega nauðsynlegt að sé lokið áður en aðfangadagur rennur upp. Klukkan var farin að halla langt í þrjú í nótt þegar við settumst inn í fallega skreytta stofuna okkar, nutum kyrrðarinnar í húsinu og rifjuðum upp gamla tíma. Við erum nefnilega bestu vinir og það er svo gaman að eyða tíma með þeim sem manni finnst vænst um.

Þótt ótrúlegt sé, er enn einu sinni kominn aðfangadagur jóla, úti er hvítur snjór yfir öllu, ég sit inni á skrifstofu og pikka nokkrar jólalínur á tölvuna, frammi eru þrjár af ömmustelpunum mínum orðnar hálf trylltar af biðinni og kannski líka að nammið hafi þessi áhrif. Eygló og Bjössi voru að koma inn og ætla að eyða kvöldinu með okkur og þau og Arna og Erling sitja og spjalla frammi í eldhúsi. Hrund er að vinna til kl fjögur.
Hér ríkur yndislegur friður og ró, sannkölluð jólastemming eins og ég vil hafa hana.
Grauturinn og sírópið er að kólna úti á palli, hryggurinn bíður á eldhúsborðinu eftir að Erling geri hann tilbúinn í ofninn og tími til kominn fyrir mig að fara að gera salatið og huga að kartöflunum.

Inni í stofu er ljósum skrýtt jólatré ofan á mikilli pakkahrúgu og ekki skýtið þótt þrjár litlar stúlkur eigi erfitt með að bíða eftir að fá að rífa utan af þeim. Jólatónlistin ómar um húsið og mér líður svo vel. Það eru forréttindi af fá að upplifa jól á þennan hátt.

Ég vil óska ykkur lesendum mínum gleðilegra jóla og bið ykkur ríkulegrar Guðs blessunar og að friður Hans og gleði megi umvefja ykkur á sérstakan hátt.

laugardagur, desember 15, 2007

Skemmtilegt

Í gær var komið að okkar árlega “út að borða” stelpnanna í minni fjölskyldu. Ég er ekki með það alveg á hreinu í hvað mörg ár við höfum gert þetta en allavega er löngu komin hefð á það og nú var stefnan tekið á jólahlaðborð á Grand hótel.

Mamma, stelpurnar hennar og tengdadætur og svo stelpurnar okkar og tengdadætur, fara saman fyrir jólin út að borða og eiga skemmtilegt kvöld saman. Alís vinkona okkar og Sissa frænka komu með okkur eins og áður og það er gaman að þær vilja vera með okkur. Dúdda frænka hefur líka stundum komið með okkur en komst ekki að þessu sinni.

Fyrir okkur Selfossbúa leit ekki vel út í gærmorgun að komast til byggða. Við fjölskyldan í Húsinu við ána fórum á fætur á réttum tíma en þegar halda skyldi af stað til höfuðborgarinnar var veðrið orðið það slæmt að Erling tók ákvörðun að fresta för.
Við mæðgurnar skriðum aftur undir sæng en hann var á vaktinni.
Í hádeginu kom svo miðja lægðarinnar yfir og við nýttum okkur lognið á undan næsta stormi og ókum til byggða.

Það voru 14 prúðbúnar stelpur sem hittust svo í anddyrinu á Grand hótel og við áttum mjög skemmtilegt kvöld saman. Það var nánast full mæting fyrir utan að Ella Gitta var veik, Sólveig var að vinna og Thea ekki komin heim í jólafrí frá Svíþjóð. Maturinn var mjög góður, eina sem var ekki í lagi var að sósan með heita matnum kláraðist og það var korters bið í að önnur sósa kæmi. Svona á auðvitað ekki að gerast á fínu hóteli en við vorum nú ekki að velta okkur uppúr því.

Við skiptumst á jólapökkum og það er alltaf spennandi að vita hvað er í þeim pakka sem dregið er. Ég fékk t.d. flottan kertastjaka frá Sirrý systir sem hún hafði búið til sjálf enda er hún listakona af Guðs náð og gerir fallega keramikmuni.

Sigga Beinteins og Bryndís Ásmundsdóttir sungu svo fyrir okkur og nokkrir stigu dans og ég er nú ekki frá því að ef Erling hefði verið með okkur þá hefðum við jafnvel nýtt okkur danskunnáttuna frá námskeiðinu okkar, allavega fann ég kitlið í fótunum undir lögunum þeirra. Þær voru alveg frábærar.

Kvöldið heppnaðist frábærlega vel og við Hrund ókum heim á leið um kl ellefu og það gekk bara vel á heimleiðinni og komumst heilar á höldnu heim þrátt fyrir mikinn éljagang og hvassviðri á Sandskeiði og Hellisheiði.

Framundan er svo skemmtileg helgi með fullt af uppákomum. Á eftir erum við að fara á jólatónleika sinfóníuhljómsveitarinnar og strax á eftir í jólaboð til Eyglóar og Bjössa.
Á morgun er svo afmæli Katrínar Töru og annað kvöld förum við á Frostrósartónleikana.

Já aðventan er svo sannarlega skemmtilegur tími og ég nýt hennar í botn og ég vona svo sannarlega að þið gerið það líka vinir mínir. Takk fyrir skemmtilega samveru í gærkvöldi stelpur mínar, það er svo gaman að tilheyra stórri fjölskyldu ekki síst því við erum allar svo skemmtilegar. Þangað til næst......

mánudagur, desember 03, 2007

Hún er þriggja ára í dag,

Hún er ljóshærð með blá augu, mjög fjörug og skemmtileg, uppátektarsöm með afbrigðum og lætur hafa fyrir sér, ákveðin og veit svo sannarlega hvað hún vill en brosið hennar.......blikið í augunum......ískrið í henni þegar henni þóknast að koma og knúsa ömmu sína.

Hún Katrín Tara, ein af ömmustelpunum mínum og vinkona mín, algerlega ómótstæðileg lítil dama er þriggja ára í dag.Já það eru þrjú ár síðan hún leit dagsins ljós, snemma morguns 3.desember fengum við Erling símhringingu sem við vorum búin að bíða eftir, Íris var í símanum og sagði okkur að þau Karlott væru búin að eignast dóttur og hún héti Katrín Tara. Petra Rut hafði gist hjá okkur um nóttina og þegar hún fékk fréttirnar þá sagði hún bara, nú á ég líka litla systur eins og Danía Rut.
Í gær kom hún og Petra Rut með okkur Erling í afmæli og það var svo gaman að hafa þær með. Hún vildi nú helst fara inní afa sinn fyrst um sinn, allavega vafði hún sér þétt utanum hann og knúsaði hann vel og lengi og mér sýndist að afanum leiddist það nú ekki.

Elsku Katrín Tara mín, innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, ég bið Guð að vaka yfir hverju þínu spori. Þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar eins og systkini þín og litlu frænkurnar þínar. Ég elska þig meira en orð fá lýst og hlakka til að koma í afmælisveisluna þína og líka að fá að koma í kakóveisluna í leikskólanum þínum. Það eru mín forréttindi að fá að vera amma þín