sunnudagur, maí 20, 2007

Strandardagur

Það er rólegt núna hér í stofunni við Hulvejen 77. Krakkarnir eru farnir að sofa, Hrund og Arna eru inni að pakka saman og við hin fjögur fræknu sitjum bara í rólegheitunum, ég pikka á tölvuna, Anette er að lesa blöð og strákarnir eru að ræða viðskipti eins og fyrri daginn. Þetta hefur verið góður og afslappaður tími og það er eins og tíminn hafi aðeins hægt á sér.

Í dag var stefnan tekin á ströndina, ekki var þó ætlunin að baða sig heldur skoða hana og bara njóta lífsins í þessu líka yndislega veðri sem var í dag.
Það var notalegt að ganga eftir ströndinni og finna goluna leika um sig og það voru meira að segja tveir unglingar sem voru nógu kjarkaðir til að synda í sjónum.


Eins og fyrri daginn þá hafði Anette útbúið okkur með nesti og við settumst í sandhólana, með útsýni yfir hafið og fengum okkur kaffi, köku og prins póló.

Eftir langa stund löbbuðum við af stað og ætluðum að labba uppí strandbæinn sem er fyrir ofan ströndina. Þá gengum við fram á ung hjón sem héldu sennilega að þau væru á jeppa því þau voru komin útfyrir akstursslóðina á ströndinni og búin að pikkfesta sig.
Erling og Óli bróðir, íslensku víkingarnir, tóku til sinna ráða. Bíllinn var tjakkaður upp, steinar og teppi sett undir framdekkin og þegar Óli var búinn að sannfæra unga manninn um að það væri best að Erling settist undir stýri þá ýttum við hin bílnum upp.

Við röltum svo um bæinn, skoðuðum brjóstsykurverksmiðju og fengum okkur svo ís enda tilheyrir það í góða veðrinu.

Á heimleiðinni var komið við á Stenum og foreldrar Anette heimsóttir og dagurinn var svo fullkomnaður með því að kveikja bál á eldstæðinu hér í garðinum hjá Óla.

Á morgun verður svo ekið suður á bóginn á vit ævintýranna í Kaupmannahöfn. Þar sem við verðum ekki nettengd þar þá bíður seinni partur ferðasögunnar betri tíma.

Þegar við komum svo heim til Íslands mun sjötta barnabarn okkar Erlings koma í heiminn og mikið hlakka ég til að sjá það. Vona að þið vinir mínir hafið það eins gott og við.
Þangað til næst.......

1 ummæli:

Íris sagði...

Þetta er ekkert smá kósí hjá ykkur! Samgleðst ykkur innilega að vera í svona skemmtilegri ferð!!
Verður gaman að heyra seinni part ferðasögunnar þegar þið komið heim og ég ætla að vona að 6. barnabarnið láti sjá sig fljótlega eftir að þið komið á klakann ;)
Sjáumst og hafið það súper gott!!
Íris