þriðjudagur, febrúar 15, 2011

Sara Ísold 7 ára afmælisprinsessa

Í dag eru sjö ár síðan þriðja barnabarn okkar Erlings leit dagsins ljós norður á Akureyri. Við höfðum fylgst með gangi fæðingarinnar alla nóttina gegnum símtöl frá örnu og svo var það snemma á sunnudagsmorgni sem við fengum símtalið um að dóttir væri fædd og allt í lagi með þær mægður. Já hún Sara Ísold vinkona okkar er sjö ára í dag og er búin að bíða lengi eftir þessum degi. Hún er mjög dugleg stelpa og ákveðin, löngu orðin læs og dugleg að skrifa. Hún er kát og skemmtileg en ef henni mislíkar eitthvað þá hikar hún ekki við að láta okkur vita af því. Brosið hennar heillar mann algerlega og blikið í augunum er ómótstæðilegt.
Það átti að halda uppá afmælið hennar á sunnudagin var en veikindi komu í veg fyrir það en veislan verður haldin aðeins seinna. Hennar helsta áhugamál eru hestar og svo er barbie að komast nokkuð nálægt því að vera líka í uppáhaldi. Aðspurð langaði hana í úr, playmo, hlaupahjól og snú snú band. "Amma, það er svona rosalega langt sippuband" sagði hún til útskýringar enda ekki reiknað með að ömmur viti hvað snú snú band er :)

Elsku Sara Ísold okkar, við afi þinn óskum þér innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, þú ert alger Guðs gjöf inní líf okkar og við elskum þig meira en orð fá lýst. Við vitum að þú verður dekruð í dag og njóttu þess í botn.