föstudagur, október 26, 2007

Afmælisdagurinn hans Erlings

Ég sá hann fyrst fyrir um 32 árum síðan, renglulegan strák með sítt og krullað hár. Ég spurðist fyrir um það hver hann væri og svarið var að þetta væri hann Erling úr Kotinu.
Það var eitthvað sérstakt við hann og mig langaði að kynnast honum betur. Það gekk eftir og hann er enn í dag besti vinur minn, sálufélagi minn og sá einasti eini sem þekkir mig betur en ég sjálf og er mjög næmur á mig og allt sem mér viðkemur. Það þýðir ekkert að segja honum eitthvað annað en satt þegar hann spyr um mína líðan og hann er óþreytandi í að gleðja mig á allan mögulega hátt.

Við höfum gengið saman í gegnum lífið þessi 32 ár, afkomendahópurinn stækkar stöðugt og tengdasynir bætast í hópinn. Á næsta ári, ef Guð lofar, munum við halda uppá 30 ára brúðkaupsafmælið okkar og erum þegar farin að leggja drög að frábærri ferð til að halda uppá þessi tímamót. Það er perlubrúðkaup en ég sagði honum nú fyrir stuttu að mig langaði ekki í perlur af þessu tilefni, ég er ekki svo mikið fyrir þær og hann sagði mér bara að hann þekkti mig nú nógu vel til að detta ekki í hug að kaupa handa mér perlur en hins vegar kallar hann mig ýmist perluna sína eða krúttluna. Mér þykir vænt um þær nafngiftir hjá honum.

Í dag á hann afmæli, er orðinn 48 ára, en eins og venjulega þá mundi hann það ekki þegar ég óskaði honum til hamingju í morgun. Hann á tvö stór áhugamál og ég er mjög ánægð með að hann sinnir þeim vel. Annars vegar er það veiðidellan, enda er það skylda hvers manns að draga björg í bú, er það ekki annars..... og hins vegar er það mótorhjóladellan sem hann er svo búinn að smita mig af.

Ég er ákaflega stolt af manninum mínum, elska hann meira en hægt er að lýsa í einni bloggfærslu og bið Guð að leyfa okkur að eldast saman, svo við getum gengið saman inní sólarlagið, tvær krumpaðar sveskjur hönd í hönd.

Til hamingju með daginn flotti maðurinn minn.....

mánudagur, október 22, 2007

Heima er best....

Það var ekki nein smá rigning sem buldi á bílnum á leiðinni heim fyrr í kvöld. Í miðju Svínahrauni hringdi síminn og við fengum frábærar fréttir af Hjalla bróður hans Erlings sjá http://www.erlingm.blogspot.com/ Mikið var svo notalegt að koma inn úr rigningunni og Húsið við ána tók vel á móti okkur að vanda. Ég þurfti samt að byrja á að fara út og bjarga sumarblómunum mínum inn í hlýjuna svo þau myndu ekki bara fjúka út í veður og vind. Það vill til að þessi fallegu blóm standa svo vel og lengi og nú fara þau bara í fínan kassa uppá háaloft og munu svo gleðja augu okkar þegar vorar á ný:o)

Við vorum í Kofanum um helgina og það var ljúft og gott að vanda. Það var þó nokkur gestagangur hjá okkur, hittum mörg systkini Erlings og það var bara gaman. Á laugardagskvöldinu grilluðum við góðan mat og nutum samfélagsins við hvort annað. Gylfi og Christina kíktu svo á okkur seinna um kvöldið og við spjölluðum um ýmis málefni. Um hádegi á sunnudag hringdi síminn hans Erlings og lögmaður frá virtri lögmannsstofu í bænum kynnti sig og spurði Erling hvort hann væri ekki höfundur að BA ritgerð um ábyrgð byggingarstjóra og iðnmeistara. Jú, ekki neitaði Erling því og erindi lögmannsins var hvort það væri möguleiki að fá ritgerðina keypta. Í stuttu máli þá fór Erling á skrifstofuna hans í dag og lögmaðurinn sagði að það væri mikill fengur að fá þessa ritgerð og tók upp veskið og greiddi uppsett verð án spurninga. Síðan spurði hann Erling hvort hann gæti aðeins farið yfir ákveðið mál sem varðaði byggingarstjórn og gefið sér álit sem Erling og gerði. Langaði bara aðeins að segja ykkur frá þessu því þetta var auðvitað gaman og mikil viðurkenning á skrifum Erlings.

Lexor mun bráðum fagna eins árs afmæli og vex og dafnar vel. Við erum mjög ánægð með að hafa tekið ákvörðun um að stofna þetta fyrirtæki með þeim markmiðum sem við lögðum upp með. Svo það eru spennandi tímar framundan hjá okkur.

Jæja vinir mínir, ætla að hætta og fara og fá mér kaffi með Erling, stofan okkar er svo freistandi. Þangað til næst.......

miðvikudagur, október 17, 2007

Hún á afmæli í dag.....


Hún Þórey Erla, yngsta prinsessan mín á afmæli í dag, hún er orðin tveggja ára daman. Það er alveg merkilegt hvað svona lítil mannvera á auðvelt með að snúa stórum mannverum eins og mér um fingur sér og hefur ekkert fyrir því. Brosið hennar, stóru augun hennar og þegar hún kemur til manns og smellir kossi á mann með stórum smelli, allt þetta er algerlega ómótstæðilegt. Þórey Erla er mjög geðgóð og svo ef hún fer að gráta þá eru stóru systur hennar snöggar að láta okkur hin vita að það þurfi nú að hugga litlu systur.
Það var haldið uppá afmælið hennar í Húsin við ána sl laugardag og það var svo gaman.
Ég er svo rík að eiga 5 litlar (stórar að eigin sögn) prinsessur sem eru allar vinkonur mínar og svo er kominn einn prins sem verður örugglega líka vinur ömmu sinnar.

Elsku Þórey Erla mín, ég óska þér innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, þú ert sannkölluð Guðs gjöf inn í líf okkar allra og ég bið Guð að gæta þín hvar sem þú ferð