föstudagur, desember 29, 2006

Svona liðu jólin.....

Aðfangadagur rann upp ljúfur og góður líkt og áður. Ég svaf svona næstum til hádegis enda var Sveinka á ferð þegar langt var liðið nætur eftir erilsaman en skemmtilegan Þorláksmessudag.

Við hjónin, ásamt yngri dætrum okkar, snæddum saman okkar mjög svo hefðbundna hádegisverð þessa dags, reyktur og grafinn lax, nýbökuð smábrauð, egg, síld og mandarínur. Í pottinum kraumaði reykt nautatunga sem Erling keypti og þetta var allt svo notalegt og ljúft, alveg samkvæmt vananum.

Dagurinn leið svo yfir eldamennsku og undirbúning áður en hátíðin sjálf gekk í garð. Kvöldið var skemmtilegt og við nutum þess öll í botn. Eygló og Bjössi komu til okkar og eyddu kvöldinu með okkur. Allir fengu flottar gjafir og það var þreytt en ánægt fólk sem gekk til hvílu að kvöldi aðfangadags, reyndar var komið fram á jólanótt.

Á jóladag fórum við til messu í Selfosskirkju og síðan komu þau öll til okkar, Íris og Karlott með litlu gullin sín og einnig Eygló og Bjössi. Arna var hjá okkur yfir jólin en litlu krúttin hennar eyddu jólunum með pabba sínum og foreldrum hans í sveitinni fyrir norðan.

Á annan í jólum var svo afmælisboð heima hjá Tedda og það hefur alltaf verið eins og jólaboð, Kata mágkona mín töfrar alltaf fram frábærar veitingar og það var ljúft að spjalla við vini sína og vandamenn. Kvöldinu eyddum við svo hér í góðu yfirlæti í “Húsinu við ána”.

Við Erling erum búin að vera í fríi milli jóla og nýárs en Arna og Hrund fóru í bæinn því þær eru að vinna en svo koma þær heim á laugardagskvöld og þá verða með í för litlu stelpurnar hennar Örnu og við ætlum að hafa smá litlu jólin á gamlárskvöld fyrir þær mæðgur og þá fær Arna allavega að fylgjast með þeim taka upp nokkra pakka. Mikið hlakka ég til þess.

Í fyrrakvöld kláruðum við jólakveðjuna frá okkur þetta árið og svo vöktum við fram á nótt meðan við vorum að prenta hana út og kveðjan fór í póst í gær. Okkur fannst mjög gaman að þessu enda hefur árið verið okkur svo viðburðarríkt og gott að full ástæða var til að sleppa hefðbundnum jólakortum og segja ykkur svolítið meira frá árinu en rúmast fyrir á litlu korti.

Í gær fórum við austur í Fljótshlíð, kíktum á fjallakofann okkar á Föðurlandi og þar var allt í stakasta lagi, alltaf jafn notalegt að koma þangað, setjast í sófann umvafinn teppi meðan gasofninn hitar upp fyrir okkur og fylgjast með kertalogunum leika listir sínar á veggjunum. Frábært athvarf. Við heimsóttum síðan vini okkar sem þar búa, gott að eiga góða vini. Á heimleiðinni, klukkan að ganga ellefu, segi ég við Erling að mig langi nú bara í steik en því miður var búið að loka búðum. Við komum hingað á herragarðinn rétt fyrir ellefu og Erling fer eitthvað að vesenast. Og viti menn, þremur korterum seinna er mér boðið til málsverðar, tveggja manna miðnæturpartí. Grillaður humar, lambalundir ásamt meðlæti. Hann Erling minn er alveg meiriháttar og svona stundir sem við eigum saman hjónin skreyta lífið miklu meira en hægt er að segja frá í nokkrum orðum.

Hafið það um áramótin og farið varlega með flugeldana,
þangað til næst.....

sunnudagur, desember 24, 2006

Aðfangadagur jóla er einmitt í dag.......

Það er allt að verða hljótt hér í Húsinu við ána. Klukkan er farin að ganga tvö eftir miðnætti, Þorláksmessa að baki og framundan er aðfangadagur jóla.

Ég breytti útaf vananum og fór úr húsi í dag en það hef ég ekki gert á Þorláksmessu í mörg ár. Hef verið í fríi þennan dag eins lengi og ég man eftir og verið búin að kaupa allt inn og bara notið þess að vera heima og undirbúa heimilið undir hátíðina.

Við Erling fórum sem sagt í bæjarferð í dag, hann fór að hitta Hlyn bróður sinn yfir kæstri skötu og ég fór og keypti síðustu jólagjöfina. Við hjónakornin hittumst svo þegar þessu var lokið og buðum okkur í kaffi til mömmu og pabba áður en við keyrðum yfir heiðina á leið heim á herragarðinn okkar. Alltaf jafngott að koma við hjá þeim og þau voru hress eins og vanalega.

Vinir okkar Gylfi og Christina komu svo við áðan og við áttum notalegt samfélag með þeim yfir rjúkandi súkkulaði með þeyttum rjóma ásamt ýmsu öðru meðlæti sem tilheyrir þessum árstíma.
Við Christina ákváðum að gera þetta að hefð.

Um tíuleytið komu síðan Hrund og Arna heim, örþreyttar eftir daginn en við skreyttum samt jólatréð áðan og borðstofuborðið en mér finnst það algerlega nauðsynlegt að það sé tilbúið þegar ég kem niður að morgni aðfangadags og þótt heimilisfólkið hér væri þreytt þá var það samt látið eftir mér.

Erling er búinn að skreyta stóra jólatréð hér fyrir utan og setti í það um 700 perur svo það er mjög flott.

Við erum sem sagt tilbúin í jólin, á morgun verður bara notalegur dagur, mikil afslöppun og eina sem þarf að huga að er matseldin og Erling sér um það og ég held honum bara félagsskap á meðan og færi honum kaffi annað slagið. Eygló og Bjössi koma svo seinnipartinn og halda jólin með okkur og ég er mjög ánægð með það. Helst vildi ég hafa allar stelpurnar mínar og þeirra fólk en ég skil líka vel þegar þær vilja fara að halda sín eigin jól og skapa sínar hefðir fyrir sig og börnin sín. Mér finnst reyndar mjög gaman að sjá hversu mikið af okkar hefðum halda áfram hjá þeim og nefni ég þar t.d. hinn sérstaka hrísgrjónagraut sem hún tengdamóðir mín gerði alltaf og við höfum hann alltaf og nú er Íris farin að gera hann líka og þannig helst þetta kynslóð eftir kynslóð. Bara gaman.

Jæja, hér á þessum bæ er Sveinki enn á kreiki á nóttunni fyrir jólin, þótt hér búi bara fullorðin börn, það væri samt kannski réttara að tala um Sveinku í okkar tilfelli og ég held að það sé best að fara að athuga með hana.

Jólakveðjan okkar fer í póst milli jóla og nýárs en ég vil óska lesendum mínum gleðilegra jóla og bið þess að friður Guðs og gleði umvefji ykkur ríkulega þessa jólahátið.

sunnudagur, desember 17, 2006

Hvað langar þig að fá í jólagjöf?

Ég kom við í foreldrahúsum einn daginn í liðinni viku. Það er alltaf jafn notalegt að kíkja við hjá mömmu og pabba eftir vinnu, fá sér kaffisopa í góðum félagsskap og heyra fréttir af fjölskyldunni og segja frá því sem á daga manns hefur drifið síðan síðast.
Auðvitað voru jólin rædd og allt tilstandið í kringum þau og misjafnt hversu langt hver og einn var kominn við undirbúning þessarar hátíðar okkar, hátíð ljóss og friðar.

“Hvað viltu svo fá í jólagjöf” spurði ég mömmu og hafa eflaust mjög margir fengið þessa spurningu sl vikur. “Mig skortir ekkert, á allt sem mig langar í og þarfnast” sagði þessi flotta mamma mín. “En mig langar í geit í jólagjöf” sagði hún svo. Einhverra hluta vegna þurfti þessi ósk hennar nánari útskýringar við. Jú það er nefnilega þannig að það er hægt að kaupa geitur og gefa fjölskyldum sem búa í svokölluðum þróunarlöndum og sú gjöf getur algerlega skipt sköpum fyrir viðkomandi fjölskyldu. Geitin framfleytir fjölskyldunni. Svo er líka hægt að kaupa vatnsbrunna og eins og þeir segja hjá Hjálparstofnun kirkjunnar þá gefur vatnið von.

Við Íslendingar, sem búum við allsnægtir, eigum erfitt með að setja okkur í þær kringumstæður þar sem geit og vatn getur skipt fólk ÖLLU máli. Við fáum vatnið, hreint og tært, beint úr krananum og kaupum mjólk, kjöt og aðrar nýlenduvörur bara í Bónus.
Einfalt, ekki satt, hvernig getur geit skipt svo miklu máli eða vatnsbrunnur?

Ég hef hugsað um þessi orð móður minnar, ég er líka í þeirra aðstöðu að eiga allt sem mig langar í, skortir ekki neitt og það sama gildir um flesta sem ég þekki og samt erum við að reyna að finna upp eitthvað sniðugt til að gefa hvert öðru í jólagjöf, já ég sagði, við reynum að finna eitthvað....

Hvað langar þig lesandi góður að fá í jólagjöf þetta árið?

mánudagur, desember 11, 2006

Strákur eða stelpa?????

Hvað það verður veit nú enginn en ólíkt því sem er í jólalaginu fræga þá er ekki mikill vandi að spá fyrir um þetta þar sem hingað til hafa einungis komið litlar prinsessur í heiminn í fjölskyldunni okkar Erlings og bara gaman að þeim litlu yndigullum.
Petra Rut og Katrín Tara eru að verða stóru systur og það verður rétt eftir miðjan maí sem það kemur í ljós hvort tíundi afkomandi okkar verður karlkyns eða kvenkyns. Elsku Íris og Karlott, innilega til hamingju og ég bið Guð að allt gangi vel á meðgöngunni.

Annars er allt gott af okkur að frétta, jólin eru alveg að koma og ég hlakka ekkert smá til, það verður gaman að halda jólin í fyrsta sinn í “Húsinu við ána”. Erling er að leggja lokahönd á það sem verður klárað af eldhúsinnréttingunni fyrir jólin og þá get ég farið að hengja upp jólagardínur og setja jólaljós út í glugga. Það verður síðan verkefni nýs árs að ljúka við það sem ekki hafðist að klára fyrir jólin. Mér finnst það ekkert mál og mun halda frábær og gleðileg jól þótt ekki sé allt tilbúið.

Við komum heim frá Köben í gærkvöldi eftir frábæra ferð. Eins og ykkur lesendum mínum er kunnugt þá var þetta vinnustaðaferð með vinnunni minni og svo bauð Örn, eigandi stofunnar, okkur á Reef and Beef veitingastaðinn sem ég sagði ykkur frá um daginn og maturinn var algerlega ómótstæðilegur. Ég fékk mér strútakjöt og það var mjög sérstakt og mjög gott. Erling fékk nautakjöt sem var framleitt í Ástralíu eftir sömu aðferð og japanska nautakjötið sem hefur verið talað um og fær svo sérstaka meðferð, t.d nudd einu sinni á dag svo kjötið verði mýkra. Það eru aðeins fjórir búgarðar í allri Ástralíu sem hafa fengið leyfi til að nota þessa aðferð og þetta kjöt kom frá einum þeirra. Það er ekki nokkur leið að lýsa bragðinu með orðum en kannski orð eins og meiriháttar, besta sem ég hef smakkað eða eitthvað í þá áttina segi kannski smá. Vinnufélagar mínir fengu sér ýmist krókódíl, kengúru, strút eða nautakjöt en þau voru í skýjunum yfir matnum eins og við.

Við fórum í búðir, settumst á bekk á Ráðhústorginu og skoðuðum mannlífið, fórum tvisvar á Baresso kaffihúsið sem er komið í uppáhald hjá okkur, sváfum út, borðuðum mikið af góðum mat, fórum í jólatívolíð og skemmtum okkur frábærlega vel. Í gær enduðum svo ferðina á að fara í gönguferð um slóðir Íslendinga í Kaupmannahöfn undir öruggri leiðsögn Guðlaugs Arasonar, mæli með gönguferðunum hans ef þið eruð í kóngsins Köben á þeim tíma sem hann er með þær.

Jæja vinir, nú ætla ég inn í stofu og fá mér kaffi og konfekt með Erling. Hér með tek ég undir með konunni sem skrifaði í nýjustu Vikuna, “Til hvers að stressa sig við það á aðventunni að komast í kjólinn fyrir jólin. Þeir sem umgangast mann á jólunum hafa hvort sem er séð mann eins og maður er núna og elska mann hvort sem aukakílóin eru eða ekki.” Höfum það kósí með kertaljós, rauðvín og osta, eða kaffi og konfekt og njótum þess að vera til. Og eins og Ella systir segir í blogginu sínu “Borðum jólasmákökurnar núna því við höfum hvort sem er ekki lyst á þeim yfir sjálf jólin” Það má svo bara snúa sér að grænmetinu á nýja árinu.

Þangað til næst............

sunnudagur, desember 03, 2006

Katrín Tara afmælisbarn


Hún er mjög fjörug og skemmtileg, uppátektarsöm með afbrigðum og lætur hafa fyrir sér, ákveðin og veit svo sannarlega hvað hún vill en brosið hennar.......blikið í augunum......ískrið í henni þegar henni þóknast að koma og knúsa ömmu sína, algerlega ómótstæðileg lítil dama sem á afmæli í dag.

Já það eru tvö ár síðan hún leit dagsins ljós, snemma morgun 3.desember fengum við Erling símhringingu sem við vorum búin að bíða eftir, Íris var í símanum og sagði okkur að þau Karlott væru búin að eignast dóttur og hún héti Katrín Tara. Petra Rut hafði gist hjá okkur um nóttina og þegar hún fékk fréttirnar þá sagði hún bara, nú á ég líka litla systur eins og Danía Rut.

Á föstudaginn var þá fékk ég að sækja þær systur á leikskólann og taka þátt í foreldrakaffi þar sem Íris og Karlott voru upptekin í vinnu og prófi. Fyrst fór ég til Petru Rutar og drakk með henni og hún sýndi mér myndir og fleira. Svo fórum við saman á deildina hennar Katrínar Töru og það var svo gaman þegar hún sá mig. Hún hentist niður af stólnum, hljóp í fangið á mér en vildi svo fara strax aftur. Þá rauk hún að hjólaborði sem á var kakó og fullt af bollum, tók eitt óhreint glas, enda hvað skiptir það máli, rétti mér og benti á kakókönnuna. Ég átti sem sagt að drekka með henni, ég reyndar skipti um glas svo lítið bar á og við Petra Rut fengum okkur aftur kakó.
Þetta var svo gaman..........mikil forréttindi að eiga þessar litlu skottur.

Elsku Katrín Tara mín, innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, ég bið Guð að vaka yfir hverju þínu spori. Þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar eins og systir þín og litlu frænkurnar þínar. Ég elska þig meira en orð fá lýst og hlakka til að koma í afmælisveisluna þína.