miðvikudagur, júní 25, 2008

Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur.....

Það var fyrir um 36 árum, ég var í 11 eða 12 ára bekk og kennarinn fékk þá snilldarhugmynd að láta bekkinn fara að skrifast á við jafnaldra okkar í Danmörku.
Eflaust hefur þetta átt að efla dönskukunnáttu okkar og hefur líka sennilega virkað allavega í sumum tilfellum. Ég fékk pennavinkonu sem bjó á Bornholm og hún heitir Bitten. Þetta var gaman og í stuttu máli sagt þá hefur vinátta okkar haldist í öll þessi ár.
Hún hefur nokkrum sinnum komið til Íslands með fjölskylduna sína og við Erling höfum nokkrum sinnum heimsótt hana í Kaupmannahöfn þar sem hún býr og starfar sem lögfræðingur í Fjármálaráðuneytinu. Einnig hafa foreldrar mínir og bræður notið gestrisni þeirra hjóna á danskri grund og við höfum getað komið með vini okkar til þeirra, það er aldrei neitt mál hjá þeim.

Þó við hittumst ekki oft þá er alltaf eins og við höfum hist í gær. Við sendum hvor annarri tölvupóst og þess háttar og um daginn þegar jarðskálftinn kom þá sendi hún strax póst til að fregna frá okkur.
Við Erling fórum austur á Skóga sl mánudag til að hitta þau hjónin og áttum með þeim skemmtilega kvöldstund. Þegar við komum inn og vorum búin að knúsast rétti Bitten okkur poka með 3 fallegum skálum, dönsk hönnun og sagðist hafa séð myndir frá húsinu okkar eftir skjálftann og að okkur veitti ekki af að byrja að safna glervörum upp á nýtt.

Í tilefni af 30 ára brúðkaupsafmæli okkar í mars vildu þau endilega bjóða okkur út að borða. Bitten hafði pantað borð á litlu og notalegu sveitahóteli undir Eyjafjöllunum og við Íslendingarnir vissum ekki einu sinni af tilvist þess, Hótel Anna. Maturinn var góður og félagsskapurinn enn betri. Við vorum að brosa að því að við svona ungar skyldum eiga 36 ára vináttu að baki og vorum sammála því að þótt maður hittist ekki oft þá ættum við alltaf samleið því það er endalaust hægt að segja frá því sem manni er dýrmætast, börnin og fjölskyldan. Hvað við störfum er forvitnilegt en langt frá því mikilvægast og þá skiptir ekki hvort við erum þetta eða hitt. Fyrst og fremst erum við Bitten mæður, eiginkonur og svo auðvitað vinkonur......

mánudagur, júní 23, 2008

Hann átti afmælisdag.....


Eins og lesendur mínir vita þá er ég svo heppin að tilheyra stórri fjölskyldu og í minni eigin nánustu fjölskyldu þá er ég ættmóðir margra og því eru oft afmælisskrif á síðunni minni og það er einmitt í dag. Annar tengdasonur minn, hann Bjössi hennar Eyglóar átti afmæli í gær 34 ára kappinn. Þar sem við vorum öll saman í sumarbústað um helgina er þessi færsla einum degi of sein en það er nú allt í lagi.

Bjössi er duglegur strákur, stendur sig mjög vel í vinnunni en hann er vélstjóri og starfar í kælismiðjunni Frost. Áður en hann og Eygló giftu sig var hann að vinna sem vélstjóri á Fossunum hjá Eimskip en Eygló til mikillar ánægju ákvað hann að koma í land og vinna, hefur sennilega haft einhvern grun um að Eygló var ekki alveg til í að vera oft ein. Þau eru mjög samhent og auðséð að hann gerir Eygló hamingjusama og það er gaman að fylgjast með þeim þessar vikurnar og mánuði því frumburðurinn er á leiðinni og þau eru eins og við öll mjög spennt yfir því. Það var haldið smá afmæliskaffi fyrir hann í gær í bústaðnum og það var bara gaman.

Elsku Bjössi, síðbúin afmæliskveðja til þín og ég bið Guð að blessa þig ríkulega í leik og starfi.

þriðjudagur, júní 17, 2008

17. júní

Frábær og notalegur dagur er að kvöldi kominn. Þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga var haldinn hátíðlegur um allt land og veðrið lék við okkur hér á Selfossi og ég veit að það var líka gott verður í Hafnarfirði því 3 elstu dætur okkar voru þar með fjölskyldur sínar og bloggskrif þeirra Írisar og Eyglóar glöddu mig mikið. Þær eru svo miklar vinkonur og samrýmdar og einnig finnst mér gott hvað Hrund er líka í þeim hópi þótt hún sé yngst og búi enn heima.

Við Erling áttum notalegan heimadag hér í Húsinu við ána en Hrund var að vinna á Sambýlinu í dag. Sólin skein glatt á pallinum og ég sem ætlaði að vera svo dugleg að ljúka nú við tiltektir eftir skjálftann um daginn. Auðvitað var miklu nær að njóta sólarinnar því ekki myndi draslið hoppa á sínn stað af sjálfu sér og enginn hætta á öðru en það biði mín áfram. Teddi, Kata og Thea komu í heimsókn og við sátum úti í sólinni, borðuðum melónur og vínber og ræddum um landsins gagn og nauðsynjar. Bara notalegt. Hrund kom svo heim um kvöldmatarleytið og við grilluðum saman og Elva vinkona hennar kom í heimsókn og þær stöllur skruppu svo yfir til Theu.

Nú erum við Erling nýkomin inn úr löngum göngutúr í fallega bænum okkar. Við fórum yfir brúna og meðfram ánni hinum megin og það er hreint ótrúlegt hvað áin hefur mikið aðdráttarafl á okkur. Himininn skartaði sínum fegurstu litum og kyrrðin var eitthvað svo mögnuð. Aðeins heyrðist í fuglum og ánni.

Á morgun er svo nýr dagur með nýjum fyrirheitum og ég hlakka til hans. Þangað til næst vinir mínir......

laugardagur, júní 14, 2008

BA lögfræðingur.......


Það er alveg við hæfi að sólin skíni á okkur í dag því það er nefnilega merkisdagur hjá okkur í fjölskyldunni. Íris elsta dóttir okkar er að útskrifast úr Háskólanum í Reykjavík með BA í lögfræði og hefur þar með náð föður sínum. Hún hefur staðið sig alveg frábærlega vel, fengið háar einkunnir og aldrei fallið í neinu fagi þrátt fyrir að vera mamma þriggja ungra barna. Karlott, maðurinn hennar, er einnig búinn að standa sig vel og hefur stutt hana algerlega í þessu og í prófatörnum þegar hún hefur nánast búið í skólanum hefur hann séð um heimilið á meðan. Það hefur verið svo gaman að fylgjast með þeim, hvað þau eru samstíga og ákveðin að láta allt ganga upp án þess að börnin séu afskipt.

Elsku fjölskyldan mín í Háholti, innilega til hamingju með daginn, við hlökkum mikið til að koma og vera viðstödd athöfnina og gleðjast með ykkur í dag. Ég er mjög stolt af ykkur og elska ykkur meira en orð fá lýst.
Sjá myndir og meira um útskriftina á síðunni hans Erlings hér

fimmtudagur, júní 12, 2008

Sól sól skín á mig

“Það væri snjallt hjá þér að hætta snemma í dag og drífa þig heim á pallinn elskan mín” Þetta var sagt við mig í símann í gær þegar ég svaraði gsm hringingunni sem tilheyrði manninum mínum. “Ég kom við heima á leiðinni í Fljótshlíðina og það er brakandi sól og hiti á pallinum”, sagði hann. “Hvenær kemurðu tilbaka” spurði ég. “Ef þú ert að koma heim snemma þá reyni ég að drífa mig eins og ég get, annars liggur mér ekki eins á”. Kl fjögur sendi ég honum sms “Er að slökkva á tölvunni og fara heim, sjáumst á pallinum”. Hann hafði ekki ýkt neitt með notalegheitin á pallinum þessi elska. Það var algerlega himneskt að setjast út á pall með kaffisopann og góða bók.
Einn og einn geitungur hafði sérstakt dálæti á mér en ég ákvað að láta þá ekki hrekja mig inn.
Erling kom stuttu seinna enda hef ég þetta líka mikla aðdráttarafl á hann eða það hlýtur bara að vera, múahahahah

“Hvað ættum við að elda” spurði ég. “Nennirðu ekki bara að skjótast í Nóatún og athuga hvort þeir eigi ekki hrefnukjöt?” Þegar ég kom tilbaka með þetta líka fína hrefnukjöt var hann að sjóða kartöflur og búinn að gera sósu. Hrefnukjöt er mjög ódýr matur og hrikalega bragðgóður. Algert lostæti. Ef þið hafið ekki prófað þá hvet ég ykkur til að verða ykkur út um bita. Bara passið ykkur að steikja það þannig að það sé ekki gegnsteikt.

Eftir matinn settumst við aftur út á pallinn, það var svo heitt og notalegt og aftur var kaffibollinn hafður með í för. Erling var búinn að slá og graslyktin er svoooooo góð.
Kvöldið var frábært, árniðurinn er róandi og þrösturinn hóf upp rödd sína. Að þessu sinni kom enginn jarðskjálfti.

Já það er gott að búa hér í Húsinu við ána, allavega nýt ég þess í botn enda bý ég með svo frábæru fólki......Þangað til næst vinir mínir, njótið lífsins

þriðjudagur, júní 10, 2008

Ekki skrýtið að ég geti sofið mikið....

Konur sem eru hamingjusamlega giftar sofa betur og meira en konur í óhamingjusömum hjónaböndum samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar. Þetta kemur fram á fréttavefnum HealthDay Reporter .

Sá þetta á Mbl áðan......Njótið dagsins

mánudagur, júní 09, 2008

Að forgangsraða í lífinu

Ég rakst á þessa sögu í bók sem ég var að glugga í og mátti til með að deila henni með ykkur.

Ég sótti einu sinni tímastjórnunar námskeið og undir lok námskeiðsins, sagði leiðbeinandinn: “Smá þraut hér að lokum”. Hann teygði sig undir borðið, tók upp stóra skál og poka fullan af steinum. “Hvað haldið þið að við þurfum marga steina til að fylla skálina?” spurði hann. “Við skulum finna það út”.

Hann setti einn stein í skálina og síðan þann næsta......ég man ekki hvað hann setti marga steina í skálina en hann fyllti hana. Hann spurði síðan, “er skálin full?” Já, sögðum við í kór. Hann sagði, “er það?*” og teygði sig undir borðið og tók upp hnefafylli af möl semhann lagði á milli steinanna og spurði á ný hvort skálin væri full.

Líklega ekki sögðum við. “Gott sagði hann” og teygði sig á ný undir borðið og tók upp hnefafylli af sandi sem hann setti í skáina og spurði á ný, “er skálin full?” Nei, hrópuðum við í kór. “Gott” sagði hann og tók upp vatnskönnu og hellti í skálina.

Hver eru skilaboðin með þessari æfingu spurði hann?

Einhver rétti upp höndina og sagði, “Það eru alltaf göt í dagskránni hjá þér og ef þú vinnur í því getur þú alltaf bætt verkefnum á þig”.

“Nei” sagði leiðbeinandinn. Boðskapurinn er að þú verður að setja mikilvægustu atriðin fyrst, stóru steinana, síðan mölina, sandinn og vatnið. Það sama gildir um verkefni okkar.

sunnudagur, júní 08, 2008

Notalegheit á sunnudegi

Ég opnaði augun, var komin yfir í Erlings helming eins og venjulega um helgar, leit á klukkuna á náttborðinu hans og sá 11:26. Frábært, veit ekkert eins notalegt og að sofa út um helgar. Við ætluðum að fara í Kofann í gær eftir afmælið hans Erlings Elí en af ýmsum ástæðum ákváðum við að vera heima. Það er nú fátt sem jafnast á við notalegt kvöld hér í Húsinu við ána, það er helst notalegt kvöld í Kofanum okkar á Föðurlandi.

“Góða kvöldið” var sagt við mig þegar ég kom niður í hádeginu. Erling auðvitað löngu kominn á fætur og Hrund svaf uppi enda nýkomin heim af næturvakt.
Eftir kaffibolla og lestur blaða þá settumst við út á pall, spjölluðum saman og ákváðum svo að kíkja í Byko og athuga með kamínur ef við skyldum nú ákveða að fá okkur þannig grip í kofann. Jú, jú þarna var ein mjög fín sem okkur leist vel á og nú er bara að taka ákvörðun um hvort hún verður keypt núna eða seinna. Hins vegar var óska gasgrillið okkar á tilboði þar og við löngu búin að ákveða að kaupa nýtt grill og fara með það gamla austur í Kofann. Með grillið í skottinu héldum við heim á leið og kíktum til Tedda og Kötu og fengum okkur kaffisopa en stoppuðum stutt.

Ég var búinn að ákveða að drífa mig í að taka þvottahúsið og gestaherbergið í gegn um helgina en þar eru enn ummerki jarðskálftans. Það var lítið úr því vegna þess að Erling hvatti mig eindregið til að sitja úti og njóta góða veðursins enda færi draslið nú ekki langt. Ég hef því notið þess í dag að lesa skemmtilega bók, fylgjast með Erling setja saman nýja grillið og af og til settist hann hjá mér og fékk sér kaffisopa með mér.
Þegar samsetningu var lokið tók hann gamla grillið í sundur, þreif það allt upp og málaði þannig að það er orðið mjög flott og mun sóma sér vel á Föðurlandi og á örugglega eftir að þjóna okkur vel þar. Hrund vaknaði svo um fjögurleytið og kom og settist hjá mér og við spjölluðum saman. Nýja grillið var svo vígt með flottri steik í kvöldmatinn.

Nú er frábær dagur að kvöldi kominn, frábær heimadagur með öllum sínum sjarma og notalegheitum það er ekki svo lítið. Hrund er að fara á næturvakt aftur og mun vaka yfir skjólstæðingum sínum eins og henni einni er lagið. Ég hreinlega elska lífið sjálft og allt það góða sem Guð gefur okkur. Mátti til með að deila þessu með ykkur lesendur mínir, þangað til næst.......

laugardagur, júní 07, 2008

Skrýtinn dagur....29.maí sl

Þar sem ég stóð inni á skrifstofunni við hliðina á minni og var að fara yfir pappíra með henni Ínu samstarfskonu minni, byrjaði húsið að rugga. Ekki hvarflaði það að mér á þeirri stundu að um leið og ég hallaði mér upp að veggnum og beið eftir að þessu lyki, væri heimili mitt að umturnast. Ég áttaði mig ekki á því alveg strax að þetta væri svona stór skjálfti á Suðurlandi en það tók mig samt ekki nema örstutta stund að fatta að sennilega hefði þetta verið Suðurlandsskjálfti. Á Mbl var fréttin strax komin, 6,1 á Richter sagði þar. Ég vissi ekki hvar Erling var en Hrund var að vinna á Sambýlinu og var því stödd á Selfossi en ég náði engu símasambandi við þau. Þú kemst ekki heim sagði samstarfsfólkið við mig því það er búið að loka veginum fyrir austan Hveragerði og brýrnar eru líka lokaðar. Þetta var vægast sagt óþægilegt, vissi ekkert hvernig Hrund hafði það eða hvar Erling var. Svo fóru að berast fréttir af skemmdum á Selfossi og Hveragerði, mikil eyðilegging alls staðar. Hvernig skyldi vera umhorfs heima hjá mér hugsaði ég og tilfinningin var skrýtin ekki get ég neitað því. Loksins náði ég í Erling og þá var hann staddur á Hvolsvelli og hafði ekki fundið skjálftann en var búinn að frétta af honum og var lagður af stað heim. Loksins náði ég í Hrund og það var allt í lagi með hana en þær voru bara tvær svona ungar á vakt á Sambýlinu, ekki náðist í forstöðukonuna því hún var komin í frí og auðvitað voru íbúarnir hræddir. Ég sagði þeim að fara út með fólkið og bíða og hringdi svo í lögregluna og lét vita af þeim og bað um að einhver væri sendur til þeirra að hjálpa þeim. Ég fékk far austur með Tedda bróður og við vorum alveg tilbúin að ganga restina ef við fengjum ekki að keyra alla leið heim.

Ég verð að viðurkenna að það var ónotatilfinning í mér alla leiðina heim. Fréttirnar boðuðu annan stóran skálfta og fólk beðið að halda sig utan dyra. Það vildi til hvað veðrið var gott þannig að í bili væsti ekki um fólk. Erling hringdi í mig þegar við vorum að verða komin austur, hann var þá kominn heim eftir að hafa beðið lengi við Þjórsárbrú eftir að umferð yrði hleypt á hana. Okkur Tedda var snúið frá Óseyrarbrú enda var ekki búið að meta hana. “Hvernig er heima?” spurði ég í símann “ Ja, nú er allavega tækifæri fyrir þig að kaupa þér nýja hluti og nóg er hilluplássið” sagði Erling, tilbúinn að slá á létta strengi. Húsið okkar er alveg heilt, enginn slasaður og það er frábært sagði hann en hins vegar allt á tjá og tundri og glerbrot útum allt.

Óneitanlega var skrýtið að koma heim og sjá svona mikið brotið og bramlað á heimili sínu, stórir þungir bókaskápar á hvolfi ásamt annari eyðileggingu, sjá hér og flettið aðeins niður á síðunni hans Erlings. Þó má segja að við sluppum vel miðað við marga. Það er samt merkilegt að stóri glerskápurinn í stofunni ásamt glerskápum í eldhúsinu sluppu alveg en aðrir hlutir sem voru við sömu veggi hrundu niður. Ég er ekkert smá fegin því þá er sparistellið okkar enn heilt ásamt öllum litlu bollunum sem ég hef safnað í gegnum tíðina.

Ég má til með að bæta því við að þegar við vorum búin að skoða heima fórum við útá Sambýlið til að athuga með hvernig Hrund gengi. Þar hittum við forstöðukonuna sem var yfirmaður hennar í fyrra en er nú starfsmaður á Svæðisskrifstofunni. Hún tjáði okkur að Hrund hefði staðið sig mjög vel og öll viðbrögð hennar til fyrirmyndar, fumlaus og örugg. Hún róaði íbúana og þegar við komum á staðinn þá stóðu skjólstæðingarnir þétt upp við hana og greinilegt að þeir fundu öryggi hjá henni.

Nú er kominn laugardagur og lífið óðum að færast í venjulegt horf hér á Selfossi. Þó greini ég enn beyg í mörgum og sumir, þar á meðal ég, eru vissir um að enn eigi eftir að koma stór skjálfti hjá okkur á næstu dögum Vonandi er það þó ekki rétt.
Þangað til næst.....njótum alls þess góða sem Guð leggur í veg okkar og þökkum honum varðveislu og náð.

þriðjudagur, júní 03, 2008

Eins árs í dag prinsinn okkar....


“Mamma, geturðu nokkuð komið og sótt stelpurnar, ég held að litli kúturinn sé að fara að láta sjá sig”. Íris var í símanu og það var nú auðsótt mál að ná í dömurnar, það var svo heppilegt að þetta var á sunnudegi og við Erling og Hrund bara að hafa það notalegt hér í Húsinu við ána.

Ég brenndi í bæinn á löglegum hraða að sjálfsögðu og stuttu seinna vorum við aftur lagðar af stað yfir fjöllin tvö, ég og þær systur, Petra Rut og Katrín Tara.
Klukkan rúmlega sex, sunnudaginn 3. júní mætti svo prinsinn á svæðið. Íris hringdi og tilkynnti okkur það og mikið kom það okkur skemmtilega á óvart að þau skyldu velja honum fallega nafnið hans Erlings og bæta svo Elí við. Fæðingin gekk vel að mestu leyti og við drifum okkur í bæinn að sjá þau. Bara yndislegt og sérlega gaman að sjá viðbrögð þeirra systra þegar þær sáu litla bróðir sinn.

Það er ótrúlegt að það sé komið heilt ár síðan en í dag heldur Erling Elí upp á fyrsta afmælisdaginn sinn. Hann er algerlega ómótstæðilegur og heillar alla uppúr skónum. Hann verður örugglega prakkari og veiðimaður, enda á hann ekki langt að sækja það.
Hann var strax svo karlmannlegur og flottur gæi. Erling Elí er farinn að standa sjálfur og þess er örugglega ekki langt að bíða að hann fari að labba út um allt.

Elsku Erling Elí, ég óska þér innilega til hamingju með fyrsta afmælisdaginn þinn og bið Guð að blessa alla þína framtíð og vaka yfir hverju þínu spori. Ég elska þig endalaust.