sunnudagur, júní 25, 2006

Ert þú lögfræðingurinn sem er......

......nýfluttur í hverfið, spurði maður nokkur sem Erling hitti á árbakkanum í gærkvöldi.
Hvaða á, jú auðvitað Ölfusá, en í gær var opnunardagur árinnar og jafnframt afmælisfagnaður Stangveiðifélags Selfoss. Það er greinilegt að við erum flutt í lítið samfélag í ört vaxandi bæjarfélagi og fólkið hefur verið að spjalla saman um “nýja” fólkið í götunni. Sá sem spurði er hann Gunnar í Skarði og hann býr beint á móti okkur.

Já, við erum flutt til Selfoss, erum reyndar búin að vera hér í hálfan mánuð og það er gaman að segja frá því að okkur er vel tekið hér. Við höfum líka heyrt það á nokkrum stöðum að fólkið sem býr í hverfinu okkar, þ.e utan ár, sé sérlega samheldið og standi saman. Ég var að bera inn dót úr bílnum fyrir nokkrum kvöldum þegar ég heyri að maður nokkur rekur all hastarlega á eftir hundi og segir honum að hypja sig heim. Fyrir hornið á húsinu mínu geysist síðan lítill smáhundur og á eftir honum kemur maðurinn sem er að reka hann. Hundurinn hverfur inn á lóðina rétt hjá mér en maðurinn stoppar hjá mér og spyr mig hvort ég sé nýi nábúinn hans. Ég svara eins og er að ég viti það ekki en ef hann búi hér við hliðina þá sé það rétt hjá honum. Það kom í ljós að þetta var hann Valdimar sem býr í húsinu við hliðina. Hann bauð mig hjartanlega velkomna í hverfið og sagði mér aðeins frá umhverfinu og hann kvaddi með orðunum, sjáumst vinkona.

Það kom svo í ljós daginn eftir þegar hann hitti Erling að hann er forfallinn veiðimaður sem þekkir Ölfusá eins og fingurnar á sér og hann er búinn að rölta með Erling og sýna honum alla bestu veiðistaðina í ánni. Erling er auðvitað búinn að ganga í veiðifélagið og það var einmitt í gær sem hann Valdimar kom og sagðist vera búinn að fá leyfi til að kenna nýja manninum á ána og mér fannst það skondið að horfa á eftir Erling labba með stöngina niður að ánni og ég gat fylgst með honum í veiðiferðinni útum gluggana hjá okkur.

Það er mjög notalegt að keyra inn kyrrláta götuna “mína” eftir langan vinnudag, leggja beint fyrir utan húsið og finna hvað húsið býður mig velkomna heim. Þetta er eitthvað sem erfitt er að lýsa en alveg einstök tilfinning.

Erling er búinn að vera að mála og sparsla, hvítta panel ásamt svo mörgu öðru til að fegra heimilið okkar, það er bara verst hvað vinnan okkar er alltaf að slíta sundur daginn fyrir manni. Það er samt gaman að sjá hvernig húsið er smátt og smátt að verða eins og við viljum hafa það. Rétt bráðum ætla ég að fara og kíkja á stofuna mína og sjá hvað Erling er búinn með mikið en þegar hún er búin sækjum við nýju Chesterfield sófana okkar sem við vorum að versla okkur, sérhannaðir í danskri verksmiðju fyrir Valhúsgögn.

Það eru aukin lífsgæði fyrir okkur að hafa keypt þetta hús á þessum frábæra stað og ég á eiginlega ekki orð til að lýsa því hvernig mér líður með þetta. Ég fyllist lotningu gagnvart náttúrunni í kvöldgönguferðunum okkar Erlings, Guðs blessun er það sem ég þakka fyrir á hverjum degi og fullvissan um að Guð er með okkur og náð hans vakir yfir okkur er nóg fyrir mig. Já lífið er dásamlegt.........þangað til næst.

sunnudagur, júní 11, 2006

Lögfræðingurinn

Ég vaknaði í morgun með mikinn spenning í maganum. Dagurinn sem hefur verið stefnt að í þrjú ár var loksins runninn upp.
Það er vægt til orða tekið að það hafi verið stoltar mæðgur sem mættu í Háskólabíó um hálf eitt leytið til að tryggja sér nógu góð sæti við athöfnina sem átti að hefjast kl eitt. Útskrift frá Háskólanum í Reykjavík var í vændum og Erling var einn af útskriftarnemendunum.

Þetta var skemmtileg athöfn og Guðfinna Bjarnadóttir rektor fór á kostum í ræðu sinni og lagði mikið upp úr því að hafa fjölskyldugildin í heiðri og hvatti útskriftarnemendur til að vera glöð og heiðarleg bæði í mótbyr og meðbyr og ekki síst í mótbyr því hann herðir þann sem í honum lendir. Greinilega afar skörp kona á ferð það.
Þórður Gunnarsson deildarforseti lagadeildar talaði um hvað laganámið sé þungt og strembið nám og að þeir sem útskrifist geti verið mjög stoltir af árangri sínum.

Ég get engan veginn lýst þeim tilfinningum sem fóru í huga minn þegar ég sá Erling í röð samnemenda sinna, ganga fram og taka við prófskírteini sínu úr hendi deildarforsetans og síðan rektor taka í hendina á honum. Ég var við það að rifna úr stolti og ekki var Hrund minna montin af pabba sínum.

Ég og dætur okkar ásamt mörgum sem lögðu hönd á plóginn, héldum honum síðan smá óvænta veislu í tilefni dagsins en hann sjálfur ætlaði ekki að hafa neina veislu fyrr en hann er búinn að sérhæfa sig enn frekar og taka mastersnámið sem er 4 annir. Mér hins vegar finnst þetta svo stór áfangi að það sé fullt tilefni til að halda uppá það. Íris og Karlott opnuðu heimili sitt í dag fyrir veislu og ég bauð systkinum okkar og allra nánustu vinum þangað og það var óborganlegt að sjá svipinn á honum þegar við komum þangað því hann var bara að fara þangað til að hitta krakkana okkar og litlu afastelpurnar.

Það er á engan hallað þegar ég segi að Íris og mamma báru hitann og þungann af þessu því ég gat ekki gert neitt, bæði vegna flutninga í Húsið við ána á morgun og eins vegna þess að Erling mátti ekki vita neitt af þessu. Eins var pabbi alveg frábær og fór margar ferðir á milli Breiðholts og Hafnarfjarðar með dót sem þurti að komast á milli staða. Ég vil samt nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim sem hjálpuðu mér og stelpunum mínum að gera þennan dag ógleymanlegan fyrir lögfræðinginn okkar allra.

Í kvöld fórum við Erling svo í fyrsta sinn út að borða á Hótel Holt og það var bara snilldin ein, maturinn var frábær og öll þjónusta til mikillar fyrirmyndar.

Viðburðarríkur dagur er að kveldi kominn og það er bara þakklæti í huga mínum.
Ég er svo þakklát Guði fyrir lífið sjálft og fyrir að tilheyra fjölskyldu sem er þátttakandi í lífi mínu bæði í mótbyr og meðbyr.

Á morgun byrjar svo nýr kafli. Við flytjum í nýtt hús í nýrri borg, Erling er kominn með nýtt starfsheiti og enn á ný veit ég að fólkið okkar kemur og nú til að hjálpa okkur á sama hátt og þau tóku frá tíma til að samgleðjast okkur í dag. Enn á ný, þúsund þakkir.
Já lífið yndislegt.

laugardagur, júní 03, 2006

Brons

Já það var hvorki meira né minna en brons sem hann Erling náði sér í í dag og ég er svo montin af honum að ég má til að deila því með ykkur lesendur mínir.
Í dag kom sem sagt síðasta einkunnin sem við höfum beðið eftir til að fá fullvissu um að hann sé kominn með fullt hús og ekkert hindri útskrift eftir viku.

Það var einkunn fyrir BA ritgerðina sem kom í dag, 8.0 og Erling var þriðji hæsti af þeim sem skrifuðu BA ritgerð í lagadeild þetta árið. Svo sannarlega flott hjá honum og nú getum við farið og keypt flott jakkaföt fyrir útskriftina.

Það stendur einhvers staðar að menn uppskera eins og þeir sá og nú uppsker hann erfiði síðustu þriggja ára, orðinn lögfræðingur með BA gráðu. Já ég er stolt kona.......
Meira seinna, góða nótt

Ps. við erum byrjuð að taka til hendinni í Húsinu við ána, endilega kíkið við ef þið eruð á ferðinni um helgina eða fáið ykkur bíltúr, alltaf heitt á könnunni......