fimmtudagur, mars 19, 2009

Ritgerðin.....og fleira skemmtilegt

Það er mikið um að vera í eldhúsinu núna þótt klukkan sé alveg að slá í miðnætti. Hrund á að skila stúdentsritgerðinni sinni á morgun og það er verið að leggja lokahönd á hana. Erling er að fara yfir hana og kemur fram með eina blaðsíðu í einu, rauða og leiðrétta og Hrund fer yfir þetta jafnóðum. Það er mikið lagt í vinnu við þessa ritgerð og vonandi fær hún einkunn í samræmi við að maður uppsker eins og maður sáir. Viðfangsefnið er kannski ekki það einfaldasta en það fjallar um áhrif sjálfsvíga á aðstandendur. Barbro vinkona var svo elskuleg að leyfa Hrund að taka viðtal við sig en eins og flestir lesendur mínir vita þá framdi elsti sonur hennar sjálfsvíg þegar hann var rúmlega tvítugur.

Á morgun er svo komin helgi eina ferðina enn og það er sko bara gaman. Við í Flugfreyju-klúbbnum erum að fara saman í sumarbústað og handavinnan verður sko tekin með. Ég fór í dag og keypti nokkar dokkur af ullargarni því hún Kolla ætlar að kenna mér og Sigrúnu að hekla svona dúlluteppi og mitt mun prýða rúmið okkar Erlings í kofanum svona í náinni framtíð.

Erling er alveg á bólakafi í verkefnavinnu svona eins og hann hefur verið frá því skólinn byrjaði en honum gengur mjög vel, er búinn að fá mjög góðar einkunnir það sem komið er og ég er svo stolt af honum, hann er að standa sig svo vel og svo þegar hann verður búinn með þetta nám þá verður kreppan búinn og fullt af tækifærum framundan.

Íris er búin að fá jákvætt svar við skiptinemanámi við háskólann í Árósum og mun hún því taka seinna mastersnámið í lögfræðinni þar úti ef húsnæðismál og allt það gengur upp. Þá flytja þau væntanlega í byrjun júní, sakni sakn.. það vill til hvað það er stutt að fljúga þangað og okkur foreldrum hennar hefur aldrei leiðst að ferðast.

Jæja, þá fer að koma að mér að lesa lokayfirferð yfir ritgerðina.....Njótið daganna lesendur góðir, það ætla ég að gera og sérstaklega ætla ég að njóta þess að eiga góðan tíma með dýrmætum vinkonum mínum um helgina.....þangað til næst....

sunnudagur, mars 15, 2009

Sunnudagur til sælu

Klukkan er langt gengin í ellefu og alveg að koma háttatími. Ég sit hér í eldhúsinu og á móti mér er Hrund að skrifa stúdentsritgerðina sína og Erling situr við verkefnavinnu inni á skrifstofu. Dagurinn hefur verið sérlega notalegur, þau feðgin eru búin að læra í allan dag, ég hins vegar sinnti húsmóðurshlutverkinu og þreif húsið, þvoði þvott og straujaði ásamt því að lesa og prjóna. Úti hefur ýmist gengið á með éljagangi og hryðjum eða sól og blíðu eins og á sumardegi, svo sannarlega íslenskt veður. Ég segi það aldrei of oft að ég algerlega elska svona daga, allir heima að sinna sínum verkum og svo annað slagið hafa námsmennirnir mínir tekið sér frímínútur og við öll sest inn í stofu og spjallað saman smá stund. Við elduðum lambalæri í kvöldmatinn og það var svona "gamaldags" matur, með brúnni sósu og rauðkáli, ummmm hrikalega gott. Áðan átti ég langt og skemmtilegt spjall við Óla bróðir sem býr í Danaveldi og ég hlakka mikið til í sumar þegar við Erling förum í heimsókn til þeirra hjónanna. Við höfum reynt að hitta þau einu sinni á ári og þá er alltaf glatt á hjalla hjá okkur.

Í gær fórum við til borgarinnar í tilefni afmælisins hennar mömmu og að vanda var skemmtilegt í litla ömmuhúsinu hennar og það sannaðist einu sinni enn að þröngt mega sáttir sitja. Það er alltaf gaman að hitta fólkið sitt og eiga samfélag við það. Kvöldið endaði svo með leikhúsferð okkar Erlings í Þjóðleikhúsið að sjá Hart í bak. Flott sýning, frábærir leikarar, mæli með þessu verki.

Á morgun tekur svo við ný vinnuvika og ný tækifæri. Ég er þakklát fyrir öll þau gæði sem ég bý við og veit að það er ekki sjálfsagt að hafa það svona gott. Þangað til næst vinir mínir....

fimmtudagur, mars 12, 2009

Til hamingju með daginn elsku mamma mín

Elsku besta og yndislega mamman mín á afmæli í dag.

Hún er svo sannarlega einstök kona og þótt hún sé nú langt frá því að vera fyrirferðamikil þá hefur hún breitt bak og það eru ófáir sem koma til hennar með ólíklegustu vandamál sín og hún hefur alltaf tíma fyrir alla. Í dag á hún afmæli, er 69 ára gömul þótt það sé erfitt að trúa því vegna þess að hún er svo ungleg og mikil skvísa. Um daginn hitti ég vinkonu mína sem hafði verið með mömmu í afmæli og hafði ekki séð hana í þó nokkurn tíma, hún sagði mér að hún hefði varla þekkt hana hún væri svo ungleg að henni hefði ekki dottið mamma í hug.

Við erum miklar vinkonur og hún er alltaf til staðar fyrir mig og mitt fólk ásamt okkur öllum stórfjölskyldunni. Þegar mamma var rúmlega fertug, sex barna móðir með sitt barnaskólapróf, þá ákvað hún að láta drauminn rætast og fara í nám. Hún byrjaði í Námsflokkunum og hélt svo ótrauð áfram og útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur 46 ára gömul. Það voru stoltir krakkar sem mættu við úskriftina hennar og hún er þeim hvatning sem langar að læra en halda að þeir séu of gamlir til þess.

Elsku mamma mín, um leið og ég óska þér innilega til hamingju með daginn þá vil ég segja þér að ég er Guði svo þakklát fyrir að hafa valið þig til að vera mamma mín, ég er svo stolt af þér og elska þig milljón grilljón. Vona að afmælisdagurinn verði þér góður og frábær og vonandi sjáumst við aðeins í dag en allavega á laugardaginn.

mánudagur, mars 02, 2009

Afmælisskvísur


Í dag fagna Eygló og Arna, tvíburadætur mínar, 28 ára afmælinu sínu. Þær munu samt ekki vera hrifnar af mér að tala um þær sem tvíbura, þær elska að vera tvíburar en það má ekki tala um þær sem slíkar og ég er alveg sammála þeim en stundum leyfum við þeim að heyra að þær séu líffræðilega nákvæmlega eins og það var Íris systir þeirra sem einu sinni fann þetta fína orð og það er óspart notað til að stríða þeim. Auðvitað eru þær ekki alveg eins en þær eru ótrúlega samrýmdar og það er einhver óskiljanlegur þráður á milli þeirra. Þeim dreymir jafnvel sömu drauma sömu nótt og stundum kaupa þær alveg eins gjafir handa hvor annarri án samráðs.

Það var skrýtin tilfinning að vita að það væru tvö börn á leiðinni en mjög spennandi og þær hafa alla tíð verið yndi mín og stolt ásamt hinum systrum sínum. Þær hafa það alveg beint frá mér að elska að eiga afmæli og löngu áður en dagurinn rennur upp er búið að skipuleggja hann og skrifa niður afmælisgjafaóskalista. Ég vona að þær haldi þessu áfram alltaf, leyfi afmælisbarninu í sér alltaf að njóta sín í botn.

Eygló er núna í fæðingarorlofi en hún eignaðist sitt fyrsta barn 5 október sl. Arna vinnur á leikskóla og á þrjár yndislegar stelpur og er mjög dugleg með þær. Þær eru miklar vinkonur og talast við á hverjum degi og reyna að hittast líka daglega.

Elsku stelpurnar mínar, ég óska ykkur innilega til hamingju með afmælisdaginn ykkar. Vona að hann verði ykkur góður og ánægjulegur. Elska ykkur meira en orð fá lýst og er stolt af ykkur.

sunnudagur, mars 01, 2009

Rústað......

Við Erling fórum í gærkvöldi í leikhús en það er eitt af því sem okkur finnst gaman að gera. Að þessu sinni var leikhúsferðin svolítil áskorun því við höfðum heyrt að þetta verk væri nokkuð sérstakt og svakalegt á köflum. Þegar það var fyrst sett á fjalirnar árið 1995 olli verkið straumhvörfum því það þótti fara langt fram úr möguleikum kvikmyndarinnar að ná til fólks. Sumir hafa gengið út og algerlega ofboðið, aðrir segja að verkið hafi haft langtímaáhrif á sig og svona mætti áfram telja.

Ingvar E. Sigurðsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Björn Thors eru einu leikendur Rústað og þau sýna öll alveg hreint ótrúlega magnaðan leik í svo erfiðum hlutverkum sem þau eru í. Sérstaklega finnst mér þó Ingvar ótrúlega góður miðað við hversu nærgöngult og djarft hlutverk hann leikur. Rústað er grimmt leikrit sem dregur áhorfandann niður á lægsta plan mannlegrar veru og tilfinninga, það er áleitið og nærgöngult. Við fengum að skyggnast inní hugsun og tilfinningar þess sem er grimmur og skiljum örlíitð afhverju hann er eins og hann er. Það er full ástæða til að vara viðkvæma við þessu verki og eins að hafa það bannað innan 16 ára en fyrir þá sem hafa áhuga á mannlegu eðli og því sem viðkemur mannsins huga þá er verkið áhugavert.

Stundum heyrðist kliður eins og „nei ekki og þetta er ekki hægt“ í salnum og tvisvar sinnum varð ég að líta undan, gat ekki horft. Ég get tekið undir með þeim sem segja að svona verk hafi aldrei verið sett upp áður, ég hef aldrei séð neitt þessu líkt á sviði og förum við Erling þó nokkuð oft í leikhús en ég sé alls ekki eftir að hafa farið að sjá svona verk sem talað er um sem tímamótaverk og enn og aftur er ég minnt á það hversu heppin og lánsöm ég er að vera fædd á þessu yndislega landi sem þrátt fyrir kreppu býður okkur mannsæmandi líf.

Njótið daganna vinir....þangað til næst...