sunnudagur, janúar 29, 2006

Erla bókari

Klukkan var átta á fimmtudagskvöldi þegar heimasíminn hringdi og Eygló sem var stödd heima svaraði fyrir mig. Þegjandi rétti hún mér símann og ég tók við honum frekar pirruð því mér leiðast svo þessir sölumenn sem eru alltaf að reyna að prangra einhverju inná mig.

Halló, sagði ég frekar þurr á manninn og í hinum endanum heyrðist; Erla, sæl ég heiti……. og aftur sagði ég með sömu þurru röddinni, já. Var næstum búin að segja honum að ég vildi ekki kaupa neitt, þegar hann sagðist reka bókhaldsstofu og væri með umsókn frá mér um bókarastarf. Ég bað hann afsökunar á kuldalegu svari mínu og sagði honum frá leiða mínum á sölumönnum sem gjarnan hringja á þessum tíma dag, þ.e. rétt eftir kvöldmat. Hann hló við og virtist skilja mig fullkomlega.

Í stuttu máli sagt, þá sagði hann að margir hefðu sótt um starfið en hann vildi gjarnan hitta mig daginn eftir ef ég gæti. Ég fór svo og hitti hann kl eitt í gær og eftir klukkutíma samtal um starfið, kosti mína, launakjör og sameiginlegan áhuga okkar á dvöl á suðrænum slóðum þá spurði hann hvenær ég gæti byrjað.

Mánudaginn 30. janúar mun ég mæta á skrifstofuna hans kl 9:00 og ég ræð vinnutíma mínum mikið sjálf, þarf bara að bera ábyrgð á að sinna mínum viðskiptavinum og skila tímaskýrslunni minni einu sinni í mánuði, en rétt er samt að taka fram að þetta er fullt starf en mjög þægilegt að geta hliðrað til ef þarf.

Við verðum fjögur sem vinnum þarna og ég er bara spennt. Ég trúi því að þetta sé bænasvar, að Guð sé að leiða mig í þessa vinnu og við hér með þakka honum fyrir það.

Nú er laugardagskvöld, Eurovision og Stelpurnar búnar í sjónvarpinu og Erling er eitthvað að stússast í eldhúsinu. Hann er að fara að grilla humar, ummmmmmm

Mikill hvítlaukur, I love it…..þangað til næst.....

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Hversdagslíf....

Það er merkilegt hvað það getur verið mikið að gera hjá manni þegar það er einmitt ekkert að gerast. Ég er sem sagt heima þessa dagana og hamast við að gera ekki neitt.

Ég er búin að sækja um nokkrar vinnur en fæ ekki einu sinni svar. Ég hef ekki áður verið atvinnulaus og því er þetta nýtt fyrir mér en svo lengi lærir sem lifir. Draumastarfið mitt væri að vinna með Erling þegar hann er orðinn lögfræðingur með sína eigin stofu. Við erum líka svo mikil flökkudýr að það væri notalegt að geta svo farið saman í frí þegar það hentaði vinnunni og geta með því sameinað vinnu og áhugamál. Það má nú alveg fara nokkrar “vísindaferðir” til útlanda eða er það ekki annars?

Annars er ósköp lítið að frétta af mér og okkur, við erum farin að plana sumarið og hver veit nema við notum ferðavinninginn sem við unnum í desember og skellum okkur í helgarferð til Ítalíu eftir prófin í maí. Allavega væri ég alveg til í það. Kannist þið ekki við það að vera nýlent heima á Fróni og LANGA SVO MIKIÐ að fara strax aftur til útlanda???? Þannig er ég að minnsta kosti. Svo er ég að reyna að plata lögfræðinginn tilvonandi í útskriftarferð í sólina.... vona að mér takist það....

En núna er ég að fara í bíó, við matarborðið áðan sagði Erling alveg uppúr þurru að hann ætlaði að bjóða mér í bíó í kvöld, á King Kong. Ég hlakka til og vona bara að Erling sofni ekki í bíóinu því myndin byrjar ekki fyrr en kl hálf tíu og er í þrjá tíma skilst mér. Og Erling sem er svo kvöldsvæfur ef hann sest niður fyrir framan skjáinnn……

Við sjáum hvað setur, ég get þá allavega sagt honum hvernig allt fer.

Má samt til með að segja ykkur að þegar ég fór í fyrsta sinn í bíó, árið 1976, þá sá ég einmitt King Kong og fór með Erling…….

föstudagur, janúar 20, 2006

Ísland fagra Ísland

Það heilsaði kuldalega landið okkar fagra þegar við snerum tilbaka úr sólinni sl miðvikudagskvöld. Margir Frónverjar klöppuðu ákaft í vélinni þegar hjól hennar snertu íslenska grund. Ég hef reyndar aldrei skilið afhverju þetta er svona oft gert og hljóðlega þakkaði ég Guði fyrir að hafa komist heim heilu á höldnu. Flugið heim var vont, ókyrrð í lofti og vélin alltaf að hækka sig meira og meira og mér fannst ég finna fyrir súrefnisskorti og leið ekki vel. Erling sagði að ókyrrðin hafi ekki verið neitt rosalega mikil en mér var allavega nóg um.

Við vorum nú ekki heppin með staðsetningu á gististað þótt þeir hjá Úrval Útsýn hafi mælt með þessum stað og þetta átti að vera 4ra stjörnu hótel en reyndist svo bara þokkalegt 3ja stjörnu hótel, Club Bahia Meloneras, mæli ekki með því. Við lærðum það þó af þessari ferð að það er bæði ódýrara og öruggara með gististað að bóka sig sjálfur á netinu og sleppa þeim millilið sem ferðaskrifstofur eru.

Við hittum konu sem við þekkjum þarna úti og hún og maðurinn hennnar hafa farið víða, þau bóka sig sjálf í flug og mæta á staðinn, skanna hótelin og panta á staðnum. Aðspurð um hvort það væri ekki hætta á að fá ekki hótel sagði hún það ekki vera því það væri svo mikið af hótelum alls staðar. Svo er reyndar líka hægt að bóka hótel sjálfur á netinu.

Engu að síður áttum við frábæra daga í sólinni á Kanaríeyjum sem einnig ber nafnið Eyja stóru hundanna. Ekki sáum við nú marga hunda en kisur voru þarna í massavís. Veðrið var frábært, sól og 24 til 28 stiga hiti fyrir utan einn dag sem var frekar þungbúinn.

Ég fyllti enn eitt árið í ferðinni og Erling lagði sig allan fram um að gera þann dag ánægjulegan fyrir mig og honum tókst það eins og honum einum er lagið. Hann gaf mér evrur í afmælisgjöf (var búinn að gefa mér leðurstígvél hér heima áður en við fórum) og það sama gerðu foreldrar mínir og við byrjuðum daginn á að fara á markað og svo í verslunarmiðstöð þar sem er fatabúð sem fellur vel að mínum smekk. Þarna eyddi ég evrunum mínum og fékk mikið fyrir þær.

Þá var komið rétt framyfir hádegi og við tókum stefnum til Puerto Rico þar sem við fengum okkur léttan hádegismat á strandbar og síðan héldum við upp í fjöllin í fjallaferð.

Við skiluðum okkur tilbaka rúmlega fimm og hittum þá Hlyn og Gerði, ferðafélaga okkar, en þau höfðu eytt deginum á ströndinni og reyndar farið aðeins í búð og keypt handa mér mjög fallega skjaldböku sem er handskorin út í náttúrustein.

Við fjögur áttum pantað borð á uppáhaldsveitingastaðnum mínum á Kanarí, Las Brasas.
Þar fengum við okkur nauta T-bone og nautalund með bestu bernaissósu sem ég hef smakkað og svo bananasplitt í eftirrétt. Dagurinn var sem sagt fullkominn og það var þreytt en ánægt afmælisbarn sem fór heim á hótel.

Í stuttu máli, þá heppnaðist þetta allt mjög vel. Þegar nálgaðist brottför þá var veðurspáin jafn góð þarna úti og hún var leiðinleg hér heima og Hlynur og Gerður ákváðu að vera lengur og framlengdu um eina viku, frábært hjá þeim. Við áttum ekki möguleika á því vegna þess að skólinn kallaði stíft á Erling.

Það var gott að koma heim þrátt fyrir kuldann, ekkert rúm er jafn gott og manns eigið og stelpurnar okkar fögnuðu okkur vel og gott að finna sig svona velkominn tilbaka.
Njótið lífsins vinir, það ætla ég að gera áfram..............Þangað til næst.......

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Fleiri afmæli…


Í jafn stórri fjölskyldu og minni þá eru oft afmæli og bara gaman af því.
Sumarið 2000 vorum við Erling úti á Mallorka og fengum sms frá Örnu dóttur okkar, stutt og laggott “Ég er gengin út, hann heitir Davíð”

Í dag, fimm og hálfu ári síðan að ég heyrði fyrst minnst á Davíð er hann annar af tveimur tengdasonum mínum og pabbi þriggja ömmustelpnanna minna.

Davíð á afmæli í dag, 25 ára gamall, einn aldarfjórðungur að baki hjá þessum unga manni. Davíð er ljúfur og góður drengur, ótrúlega fróður um hin ýmsu málefni og mikill trúmaður. Dætur hans dýrka hann og hann er ólatur að leika sér við þær og sinnir þeim af kostgæfni.

Hann stefnir á að ljúka stúdentsprófi núna í vor og fara í Háskólann í haust að læra sagnfræði en núna með skólanum vinnur hann á heimili fyrir einhverfa drengi og líkar það vel.

Davíð minn, ég óska þér innilega til hamingju með daginn og verð bara að eiga inni að koma í kaffi til þín þegar við Erling komum heim frá Kanarí. Guð blessi framtíð þína og fjölskyldunnar þinnar.

sunnudagur, janúar 08, 2006

Hrund er 17 ára í dag

















Hún fæddist einmitt á sunnudegi. Þegar ég vaknaði þann morgunn fyrir 17 árum var ég mjög spennt enda minnug orða læknisins frá því deginum áður. Í dag var komið að því að fjórða barnið okkar Erlings skyldi fæðast. Fæðingin var reyndar ekki áætluð fyrr en 15. janúar en af ýmsum ástæðum var ákveðið að setja fæðingu af stað jafnvel þótt það væri sunnudagur.
Klukkan hálf ellefu stungu þeir nál í handlegginn á mér og einhver vökvi fór að renna um æðar mér og það varð til þess að rétt rúmlega fjögur sama dag buðum við Hrund velkomna í þennan heim. Ég man hvað hjúkrunarfólkið var hissa þegar við nefndum nafnið hennar enda var það ekki algengt þá að börn fengju nafn strax við fæðingu.

Ljósmóðirin, sem var sú sama og tók á móti Írisi tæpum 11 árum fyrr, setti hana á borðið, Hrund opnaði annað augað og kíkti á pabba sinn og líkaði vel það sem hún sá. Hún sá að öllu var óhætt og lagði sig því bara aftur. Við komum svo heim til fjölskyldunnar á 29 ára afmælisdaginn minn.

Þau hafa liðið alveg ótrúlega fljótt þessi 17 ár og mér finnst alveg ótrúlegt að litla barnið mitt skuli vera orðið jafngömul og ég var þegar pabbi hennar dró hring á fingur mér og við opinberuðum trúlofun okkar.

Hún Hrund er foreldrum sínum til mikils sóma. Hún útskrifaðist úr 10. bekk með aðra hæstu einkunn yfir árganginn og fékk verðlaun frá danska sendiráðinu fyrir hæstu einkunn í dönsku á samræmda prófinu. Sendiráðið veitir þau verðlaun þeim nemenda í hverjum skóla sem fær hæstu einkunn í dönsku. Þegar við komum svo heim úr sumarfríinu okkar sl sumar,. þá var eitt af bréfunum sem beið okkar, boðsbréf frá Reykjavíkurborg þar sem Hrund og fjölskyldu hennar var boðið að vera viðstödd veitingu Nemendaverðlauna Reykjavíkurborgar, í ráðhúsinu þann 17. júní og þiggja síðan veitingar á eftir. Við mættum auðvitað ekki enda upptekin við að halda uppá þjóðhátíðardaginn á danskri grund. Hrund hringdi því í kennarann sinn og spurði hvort hún vissi af hverju okkur hafði verið boðið og þá kom í ljós að hún hafði verið tilnefnd til verðlauna, og unnið þau en þessi verðlaun eru veitt í nokkrum flokkum. Hún mátti koma og sækja verðlaunin sín út í skóla í dag og þá fékk hún afhent bókaverðlaun og skjal og á því stóð:

Nemendaverðlaun menntaráðs Reykjavíkur skólaárið 2004-2005.
HRUND ERLINGSDÓTTIR, nemandi í Fellaskóla hlýtur viðurkenningu menntaráðs Reykjavíkur fyrir að vera jákvæð fyrirmynd og sýna frumkvæði og leiðtogahæfileika í skapandi starfi.

Hrund hóf nám í Kvennaskólanum sl haust og stendur sig vel þar og svo vinnur hún tvisvar í viku á Hrafnistu við að gefa eldri borgurum okkar matinn sinn. Henni líkar vel þar og svo í jólafríinu þá bætti hún við sig vinnu og vann hjá Hagkaupum eins mikið og hún gat fengið þar.

Nú er bílprófið handan við hornið og ekki langt að bíða þangað til hún fer að þeytast um bæinn því þar sem hún vefur föður sínum um fingur sér þá er næsta víst að hún fær lánaðan bílinn þegar því verður við komið. Eins gott að ég reyni aðeins að ala hana upp :o)

Elsku Hrund mín, ég óska þér innilega til hamingju með daginn og bið Guð að vaka yfir hverju þínu skrefi og blessa framtíð þína á sérstakan hátt.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Nýtt ár.....

Á sjónvarpsskjánum birtist ártalið 2005 og smá saman rann það saman við ártalið 2006. Já, árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka en framundan er nýtt ár með nýjum tækifærum.

Um þessi tímamót er algengt að fólk staldri aðeins við, hugsi tilbaka og síðan fram á veginn. Hvað skyldi nýja árið færa okkur, höfum við eitthvað með það að gera sjálf eða er þetta allt háð duttlungum örlaganna? Hvað með hamingjuna, skyldi það vera rétt að hún fáist ekki keypt fyrir öll heimsins auðævi heldur sé hún heimagerð? Eða máltækið sem segir að hamingjan sé ekki að fá það sem maður vill heldur að vilja það sem maður hefur.

Árið 2005 var mér ljúft og gott að langflestu leyti og ég er Guði þakklát fyrir allt það góða sem hann hefur lagt í veg minn. Enn ein stúlkan bættist í hópinn okkar Erlings og nú eru þær orðnar níu alls, fjórar dætur og fimm dótturdætur. Stóru stelpurnar, dætur mínar, eru stolt mitt og gleði, þær eru mér til mikils sóma hvar sem þær eru. Litlu ömmustelpurnar mínar eiga hjarta mitt algerlega og bræða mig alveg, t.d. að sækja Petru Rut og Daníu Rut á leikskólann, sjá þegar þær sjá mig og sleppa því sem þær eru að gera og hlaupa í fangið á mér….Petra Rut segir öllum að ég sé amma hennar og Danía Rut kallar; ég á, ég á, meðan hún er á leiðinni til mín. Er hægt að biðja um meira?

Við ferðuðumst mikið, fórum í frábæra þriggja vikna ferð til Danmerkur og svo er það land ísanna, okkar undurfagra Ísland. Ég var að hugsa það þegar ég sá í sjónvarpinu á gamlárskvöld, myndband frá Íslandi, hversu mikil forréttindi það eru að fæðast á þessu landi, þessu frábærlega fallega landi. Ég er alveg heilluð af því og minning um ferðalagið um Fljótshlíðarafrétt fyllir núna huga minn en þangað fórum við í dagsferð með Hansa, Auju, Hlyn og Gerði og nokkrum af börnunum okkar. Þetta var mögnuð og skemmtileg ferð, fallegra landslag fyrirfinnst varla á landinu.

Ég horfi með bjartsýni fram á nýja árið og trúi því að það verði okkur gott. Ég veit að við höfum sjálf heilmikið um það að segja hvernig það verður en auðvitað ræður enginn örlögum sínum en við getum ákveðið að vera jákvæð, hætta að nota orð eins og ef… um hluti sem okkur langar og segja frekar þegar…. Það er svo margt sem mig langar að gera á þessu ári, margt sem ég vil gjarnan breyta í fari mínu, margt sem ég hef margoft byrjað á en alltaf gefist of fljótt upp. Las ágæta setningu áðan sem ég ætla að gera að minni; Ef þér mistekst í fyrstu, reyndu þá aftur og aftur og aftur.

Ég hef allavega ákveðið að halda áfram að njóta lífsins, ég er Guðs barn undir náð hans sem er ný á hverjum degi og hún nægir mér. Um leið og ég þakka ykkur lesendur mínir fyrir að hafa áhuga á skrifum mínum þá óska ég ykkur velfarnaðar á nýja árinu og hlakka til áframhaldandi samfylgdar við ykkur hér í bloggheimum.