miðvikudagur, maí 21, 2008

Ég og "frunsan"

Það byrjaði með frunsu að ég hélt fyrir svona þremur mánuðum. Ég kippti mér ekki mikið upp við það vegna þess að ég fæ frunsu alltaf svona annað slagið. Við Erling fórum svo til Egyptalands og “frunsan” fór auðvitað með. Ekki datt henni í hug að yfirgefa mig, hefur kannski fundist jafn gaman og mér. Svo var það einhvern tímann í apríl að mér fannst þetta nú orðið gott og sýndi mömmu vörina á mér enda hafði “frunsan” gert sig einum of heimakomna og var farin að verða full plássfrek að mínu mati.
Mamma sendi mig auðvitað til læknis, sagði að þetta væri nú ekki frunsa en ekki vissi hún hvað þetta var. “Þetta er ljótt, vil láta skera það burtu” sagði læknirinn við mig fyrir þremur vikum. Nú skulum við mæla blóðþrýstinginn sagði hún svo. Hann var hár og ég spurði hana hvort henni dytti í hug að það væri að marka að mæla þrýstinginn eftir að hafa sagt mér að ég væri með ljóta vör :o( Ég fór frá henni með tilvísun á lækni til að skoða þetta betur.

Sl miðvikudag þegar kjálka- og munnskurðlæknirinn hafði lokið við að skera sundur á mér vörina og sauma hana aftur saman með 7 sporum, rétti hann mér “frunsuna” mína fljótandi í vökva og sagði mér hvert ég ætti að fara með hana í rannsókn. Með þessu fylgdi miði frá honum: “Fjarlægði æxli úr vör á konu, vinsamlegast athugið .....” og svo kom latína. Ég hélt ég myndi kasta upp bara við að sjá þetta ógeð synda í glasinu. “Þú finnur ekkert til” sagði fræðingurinn aðspurður, “ef það kemur einhver verkur þá tekurðu bara panodil í kvöld”. Takk fyrir. Ég ætlaði auðvitað að keyra heim eftir að hafa skutlað “frunsunni” á réttan stað en ég rétt hafði það heim til mömmu og pabba, kastaði mér á sófann og mamma kom með verkjalyf og deyfandi krem til að setja á andlitið, slíkir voru verkirnir. Ég var dauðfegin að hafa ekki átt að finna til, veit ekki alveg hvernig ég hefði þá verið.

Vikan hefur verið bærileg, ég tók verkjalyf á fjögurra tíma fresti alla helgina “enda fann ég ekkert til” og samt er ég nú ekki þekkt fyrir að vera kveif. Vika í niðurstöður sagði doktorinn. Erling og Hrund dekruðu mig og vinnufélagarnir stríddu mér passlega á “botoxinu” Viðskiptavinirnir horfðu bara en enginn spurði :o)

Ég hitti lækninn í morgun því hún vildi mæla þrýstinginn aftur. “Hefurðu nokkuð fengið að vita hvað var í vörinni” spurði ég. “Nei sagði hún en annars er eitthvað bréf hér á borðinu, best ég opni það og gái hvort það sé svarið um þig”. Ég ætla ekki að lýsa hvernig mér leið meðan hún opnaði bréfið, sagði að það væri um mig og svo las hún. Svo brosti hún til mín og sagði að æxlið hefði ekki verið alvarlegt, æðaflækja var þetta. Ég sveif út og brosti við heiminum og heimurinn brosti við mér á nýjan hátt.

þriðjudagur, maí 06, 2008

Fjölskyldan

Ég er svo endalaust stolt af krökkunum mínum öllum. Þau standa sig vel í lífinu hver á sinn hátt. Íris er að útskrifast sem BA lögfræðingur núna í júní og hefur hvergi hvikað þrátt fyrir að eignast Erling Elí sl sumar og fara inní þriðja árið með kornabarn á brjósti og vera með 2 heimasætur að auki. Hún hefur ekki fallið á neinu prófi og langt frá því, oftast hefur hún verið aðeins nokkrum kommum frá því að komast inná forsetalista Háskólans. Auðvitað gæti hún þetta engan veginn ef hann Karlott væri ekki svona feikna duglegur. Hann hefur verið í hálfu fæðingarorlofi í vetur og verið heima með kútinn fyrir hádegi meðan hún er í skólanum og sinnir öllum heimilisstörfum af mikilli kostgæfni. Að öðru leyti vinnur hann í Landsbankanum og er mjög vel liðinn þar.
Eygló er á fullu að vinna í leikskólanum, hún er núna hálfnuð með meðgönguna og allt gengur mjög vel. Ég hitti samstarfskonu hennar um daginn og hún sagði mér að ég ætti algeran gullmola í henni. Ég vissi það nú alveg :o) Bjössi var að taka sveinspróf í vélvirkjun og vinnur í kælismiðjunni Frost og stendur sig mjög vel. Þau eru svo hamingjusöm bæði tvö og full tilhlökkunar að takast á við nýtt hlutverk sem Guð er að leiða þau inní.
Arna er líka að vinna á leikskóla og er mjög dugleg með litlu dömurnar sínar þrjár en þær eru hjá henni aðra hvora viku og hina vikuna hjá pabba sínum. Hún hefur náð sér mjög vel á strik eftir að leiðir hennar og Davíðs skildu fyrir tveimur árum og sýnir mikinn dugnað við að ná endum saman og halda utanum litlu fjölskylduna sína. Ég átti erindi í vinnuna hennar um daginn og forstöðukonan þar sagði mér að hún stæði sig mjög vel og hefði svo góða nærveru. Var heldur ekki hissa á því.
Eygló og Bjössi eru líka mjög dugleg við að aðstoða hana þegar á þarf að halda og stelpurnar eru mjög hændar að Bjössa. Samband Eyglóar og Örnu er mjög sérstakt og ég held að enginn skilji í raun og veru samband eineggja tvíbura, þessi nána samvera þeirra í móðurkviði er svo sérstök og myndar strax svo mikil tengsl.
Hrund er að ljúka þriðja ári í Kvennó og stendur sig með stakri prýði. Núna stendur yfir mikil prófatörn og hún situr og les á milli þess sem hún fer í próf og tekur sér pásu til að spjalla við uppáhaldsvinkonuna sína, Theuna okkar. Hún hefur alveg náð sér eftir áfallið sem hún varð fyrir enda skynsöm stelpa á ferð og var til í að vinna sig útúr þeim erfiðleikum. Hrund fer að vinna á sambýli hér á Selfossi í sumar og hún er bara spennt yfir því, hún elskar skjólstæðinga sína og ber mikla umhyggju fyrir þeim.
Krakkarnir okkar Erlings eru allir mjög skynsamir í peningamálum og þau þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að fara niður með kreppunni, þau eru ekki í því að taka neyslulán, þau aka um á bílum sem þau eiga en ekki bankinn og eyða bara því sem komið er í budduna og það er mikill gæfuvegur.

Ég gæti endalaust sagt ykkur krúttlegar sögur af ömmubörnunum mínum sex en læt það bíða betri tíma, segi ykkur bara að þau eru algerlega ómótstæðileg öll sömul.
Þangað til næst.....