föstudagur, desember 30, 2011

Orð eru álög...

...er nafn á bók sem ég fékk í jólagjöf og við Erling höfum verið að velta þessum orðum fyrir okkur. Einhvers staðar segir einnig að orð séu til alls fyrst og í helgri bók segir að dauði og líf sé á tungunnar valdi.
Við og krakkarnir höfum núna í nokkur ár sest niður á nýársdag og velt fyrir okkur markmiðum fyrir árið sem er að byrja, við skrifum þau niður og skoðum svo að ári, hvað hefur ræst og hvað ekki. Þetta eru ekki áramótaheit heldur markmið sem við gjarnan viljum sjá rætast hjá okkur. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað ég ætla að setja á blaðið mitt eftir tvo daga og hugsa meira og meira um þetta að...orð eru álög..... það skiptir svo miklu máli hvað við segjum því það sem við tölum út er eitthvað sem undirmeðvitundin fer að vinna að. Ef það er eitthvað sem við virkilega viljum gera þá er árangursríkara að segja "ég ætla" heldur en "ég vona" Ég hef ákveðna hugmynd um hvernig og í hvaða kringumstæðum ég vil sjá mig á nýju ári og ætla að prófa þetta á sjálfri mér, vera ákveðnari í markmiðasetningu og framfylgja því af fremsta megni, því ég get það sem ég vil. Ég er viss um að um næstu áramót hafa markmið næsta árs ræst.... ég ætla einnig að gæta orða minna í daglegu tali því þau hafa vægi og verða aldrei tekin tilbaka....

þriðjudagur, desember 27, 2011

og svo komu jólin.....

Það var svolítið skrýtið á aðfangadagsmorgunn að hafa sig til og fara í vinnu en það hef ég aldrei gert áður. Það var heilmikil umferð þegar ég keyrði út í búð, fólk að flýta sér því jólin voru jú alveg að koma. Ég var varla búin að kveikja á kertunum í búðunum þegar fyrsti viðskiptavinurinn kom, fólk var kátt og spjallaði þótt það þekkti mig ekkert. Þegar ég keyrði svo heim þá var strax komin meiri ró yfir bæinn minn, fólk flest komið heim til sín að undirbúa hátíðina sem yrði hringd inn kl sex. Erling og Hrund voru tilbúin með okkar hefðbundna hádegismat á aðfangadag og það gerði ekkert til þótt það væri ekki á "réttum" tíma. Hrund hafði á orði að það væri svo skrýtið hvernig tilfinning aðfangadags hefði breyst og við foreldrarnir litum á hvort annað og sögðum svo næstum í kór að þetta væri vegna þess að hún væri ekki lengur barn og þá upplifir maður hlutina öðru vísi. Jóladagarnir hafa verið góðir, við hér erum mjög fastheldin á hefðir og breytum engu varðandi þessa 3 daga nema nauðsyn þyki. Á þriðja degi jóla var ákveðið að bjóða letinni í heimsókn og hún var ekki sein á sér að koma inn enda ekki oft sem henni leyfist það og deginum varið í lestur, mandarínuát og sjónvarpsgláp í góðum félagsskap flotta míns og youngstersins míns. Allar þrjár myndir Lord of the rings, lengri útgáfan, voru teknar á tveimur kvöldum, spáið í því.
Lífið mitt hér í Húsinu við ána er afar ljúft, oft annasamt en næstum alltaf skemmtilegt líka. Það er gott að hafa vinnu, eiga fjölskyldu sem er svo auðvelt að elska og sem elskar mann og gefur lífinu gildi. Held það sé fátt betra en finna litla ömmubarnahandleggi umvefja mann og heyra hvíslað í eyrað að þau elski mann eða þegar Erling grípur mig í fangið og segir mér hvað hann sé ánægður með mig. Þá læðist inn í hugann að einhverju hefur verið áorkað.
Framundan eru áramót einu sinni enn og nýtt ár bíður handan hornsins og það er spennandi að sjá hvað verður skrifað á þá blaðsíðu kaflans.

fimmtudagur, desember 22, 2011

....þau eru alveg að koma.....

Jólalögin óma á efri hæðinni, youngsterinn kominn heim í jólafrí og nú skal herbergið tekið í gegn mömmslunni til mikillar gleði :) Það er notalegt að heyra í henni og hún á það til að söngla með enda er söngur hennar líf og yndi. Jólahátíðin nálgast okkur hér í Húsinu við ána þrátt fyrir annríki undanfarinna daga. Aðventan hjá okkur hefur verið með öðru sniði en áður enda höfum við ekki áður verið með verslanir sem þarf að hugsa um að séu með nóg af vöruúrvali fyrir viðskiptavininn. Ég ætla svo sjálf að vera við afgreiðslu á aðfangadag og það er líka nýbreytni, ég man ekki eftir að hafa áður unnið á aðfangadag en er viss um að það er bara gaman. Hrund verður með mér í hinni búðinni og svo veit ég að það bíður okkar dekur þegar við komum heim. Í gær tókum við á móti fyrstu sendingunni frá Ameríku fyrir Home design og það var pínu undarleg tilfinning að hafa tollapappíra í höndum og vera sjálf "innflytjandi". Það kom mér líka á óvart hvað þetta var allt einfalt í sniðum og tók stuttan tíma frá pöntun þar til það beið tollafgreitt í vöruskemmu í Hafnarfirði. Ég las áðan viðtal við "fræga" konu og sú var auðvitað spurð hvernig hún færi að því að fitna ekki um jólin. Ég var ánægð með svarið því hún sagðist fitna um jólin og ef hún gerði það ekki þá væri bara eitthvað að. Hins vegar er ljóst af útliti hennar að það er kannski ekki mikið og fer fljótt af en viðhorfið var gott. Leyfum okkur að njóta alls þess góða sem í veg okkar er lagt en munum samt að allt er gott í hófi og ef við erum aflögufær þá eru margir sem ekki eiga til hnífs og skeiðar þessi jól og ýmis samtök sem geta verið milliliðir til þeirra.

fimmtudagur, desember 15, 2011

Fimmtudagur verður að laugardegi

Það er enginn sem segir að það þurfti endilega alltaf að hafa laugardaga bara á laugardögum og því ákváðum við Erling fyrir tveimur dögum að hafa laugardag í dag þótt það sé auðvitað fimmtudagur. Það var því engin ástæða til að drífa sig á fætur eldsnemma en mikið var nú notalegt að koma niður á náttfötunum og fá sér morgunmat og kaffi með þessum flotta manni sem ég á. Það er jólalegt að líta út um gluggana og sjá jólaljósin í húsunum í kring glampa svona fallega í snjónum og áin okkar rennur sína leið framhjá, ísköld og tignarleg. Stóra baðið eins og barnabörnin kalla hana, vitandi að það má ekki fara þangað.
Við ætlum að hafa þennan frídag okkar reglulega skemmtilegan, kíkja í höfuðborgina, gera smá jólainnkaup, hitta mann og annan og kíkja á kaffihúsið til hennar Erlu vinkonu minnar og reyna að hitta á barnabörnin og foreldra þeirra. Aðventan er skemmtilegur tími og ég er svo þakklát fyrir það að það er ekki undir mínum þrifnaðardugnaði eða baksturshæfileikum komið að jólin komi. Ef svo væri þá kæmu nefnilega engin jól á okkar bæ. Kósíheit og kertaljós er málið hér í Húsinu við ána og um að gera að láta ekkert jólastress ná tökum á okkur, jólin snúast um allt aðra hluti. Njótum þess að vera til vinir...

þriðjudagur, desember 06, 2011

Jól á næsta leiti

Eftir bókhaldsvinnu undanfarna daga var það bara notalegt að kúra aðeins undir heitri sænginni og leyfa sér að vakna í rólegheitunum. Verkefni dagsins lá ekki alveg ljóst fyrir, ekkert sem bráðliggur á að gera, tvær frábærar stelpur sjá um búðirnar tvær svo ekki þarf að huga sérstaklega að þeim í dag. Tilhugsunin um að vera innandyra í dag varð enn notalegri þegar ég dró svo frá gluggum eftir að hafa búið um rúmið. Úti var lygn og falleg snjókoma og bíllinn þakinn snjó, mikið var gott að fara bara niður og fá sér morgunmat og kaffi, vona að Erling hafi náð Fréttablaðinu (það er algert happ hér á Selfossi að ná blaðinu því það koma svo fá blöð í þessa blessuðu kassa) og já þá var verkefni dagsins ákveðið.
Skreytum hús með grænum greinum.....nei annars bara öllu fallega jólaskrautinu okkar, það er verkefni dagsins..... Svo kíki ég örugglega útí búð seinna í dag því Erling er þar að breyta ísbúðinni og vinna við innréttingu hennar. Þetta verður góður dagur og já.....Fréttablaðið var á eldhúsborðinu......

föstudagur, desember 02, 2011

Katrín Tara afmælisstelpa



Hún er ljóshærð með blá augu, mjög fjörug og skemmtileg, ákveðin og veit svo sannarlega hvað hún vill og hún er afmælisstelpa dagsins. Katrín Tara, ein af ömmustelpunum mínum og vinkona mín á afmæli í dag og er orðin sjö ára og það er sko ekki leiðinlegt. Hún er líka komin í annan bekk í skólanum og henni gengur mjög vel og fær frábæran vitnisburð enda dugleg í því sem hún er að gera. Hún er flinkur teiknari og er alltaf að teikna og lita flott listaverk handa okkur.

Katrín Tara á litla systir og sýnir henni óskipta athygli og er mjög góð við hana. Ég og hún eigum spes kveðju. Þegar hún var yngri þá vildi hún aldrei kyssa bless og þar sem ég er algerlega á móti því að þvinga börn til að kyssa fullorðna þá fundum við upp okkar eigin kveðju og höfum haldið því. Hún labbar í burtu, snýr sér við og ég sendi henni fingurkoss sem hún grípur og skellir á kinnina á sér og svo fæ ég einn tilbaka. Þvílíka krúttið.

Elsku Katrín Tara mín, við afi þinn óskum þér til hamingju með afmælisdaginn þinn, biðjum Guð að vaka yfir hverju þínu spori. Þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar og við elskum þig meira en við getum sagt og hlökkum til að sjá þig á eftir.