fimmtudagur, apríl 23, 2009

Kvennó endurfundir ofl.

Það var mikið hlegið skrafað og skemmt sér í gömlu stofunni uppi á þriðju hæð í Iðnó seinni partinn í gær. Þar vorum við samankomnar stelpurnar í 3-Z sem útskrifuðumst úr Kvennó 1976 en þá var Kvennaskólinn virðulegur gagnfræðaskóli sem seinna breyttist í menntaskóla.

Í þessum hópi föngulegra kvenna eru fulltrúar mjög margra og fjölbreyttra starfsgreina og gaman að fá að heyra hvað hver og ein hefur fyrir stafni og svo er auðvitað bráðnauðsynlegt að vita ALLT um fjölskylduhagi okkar. Þær ráku upp stór augu yfir ríkidæmi mínu varðandi börn og barnabörn, sumar virtust jafnvel eiga erfitt með að trúa því að ég eigi 7 barnabörn enda er það örugglega ótrúlegt miðað við hvað ég er nú ungleg, múhahahaha. Þetta var allavega mjög gaman og við ákváðum að hittast aftur eftir 2 ár og byrja þá á því að fara skoðunarferð um gamla skólann okkar en svo vel vill til að ein okkar er kennari þar og því hæg heimatökin fyrir hana að sýna okkur skólann.

Í fyrradag komu svo vinir okkar og nágrannar til landsins og við fögnuðum komu þeirra mjög hér í eldhúsinu okkar enda vorum við Erling hrædd um að annað þeirra hefði ekki lifað af veturinn, heldur verið skotinn þar sem hann var fastur á ísilagðri Ölfusánni í vetur. Álftaparið Nína og Geiri eru sem sagt komin og við fylgjumst með þeim laga til hreiðrið sitt úti í hólmanum en þetta er þriðja árið sem við njótum þeirra forréttinda að horfa á þau koma sér fyrir og á endanum sjá þegar ungirnir komast á legg hjá þeim.

Í tilefni afmælisins hans pabba höfum við notið þess að hafa Óla bróðir hér á landinu. Um leið og ég vissi hvaða daga hann yrði hér "pantaði" ég hann og hina bræður mína í heimsókn. Ég tók mér frí í vinnunni og við Erling áttum frábært og skemmtilegt samfélag við þá góðan dagpart. Óli er mikill vinur okkar Erlings og það er alltaf gaman að hitta hann. Hann fer svo heim til Danmerkur í dag og ég veit að fólkið hans er spennt að fá hann heim og við munum hitta hann aftur á hans heimaslóðum í júní, ég er þegar orðin spennt að hitta þau.

Ég fagna komu sumarsins hér á landinu okkar fagra og hlakka til alls þess góða sem það hefur í för með sér. Að vísu er ekki sérlega sumarlegt að litast út um gluggann og það var snjór á heiðinni þegar Hrundin mín fór til borgarinnar í morgun. En það er samt komið sumar allavega samkvæmt dagatalinu, þar stendur skýrum rauðum stöfum, Sumardagurinn fyrsti. Dagurinn verður notaður til að gera bara það sem mig langar til og ekkert annað. Seinni partinn fer ég svo yfir til Tedda bróður og hans fjölskyldu að fagna 12 ára afmæli yngstu dótturinnar þar á bæ.

Ætla að spilla aðeins prófalestri hjá Erling og fá hann í kaffipásu með mér...þangað til næst vinir mínir. Gleðilegt sumar öll sömul.....

þriðjudagur, apríl 21, 2009

Ég er í sjokki.....

Við Erling settumst áðan fyrir framan sjónvarpið og horfðum á þátt sem heitir Börn til sölu. Þátturinn fjallar um mansal, barnarán og kynlífsþrælkun í Kambódíu í kjölfar mikillar þjóðarmorða sem voru framin þar á áttunda áratugnum.

Fjöldi fólks, börn og fullorðnir, vinna á öskuhaugunum og mér fannst alveg hrikalegt að sjá myndirnar sem sýndu fólkið hópast að þegar öskubílinn kom í von um að finna fyrstur eitthvað til að nýta sér og safna því saman í poka. Ef vel gengur ná þau að skrapa saman "verðmætum" fyrir 1-2 dollara á dag og því er það of mikil freisting fyrir fátæka og skulduga foreldra þegar þeim er boðið allt að 1000 dollarar fyrir dæturnar en svona "mikið" fæst fyrir þær ef þær eru fallegar. Svo er líka mjög algengt að börnum og þá sérstaklega stúlkubörnum sé rænt og þær sjást yfirleitt aldrei aftur.

Í þættinum var viðtal við unga stúlku (barn) sem amma hennar hafði selt í kynlífsþrælkun en hafði tekist að flýja og var í endurhæfingarbúðum sem hjálparsamtök hafa komið á laggirnar. Hún lýsti reynslu sinni og svo sagði hún að draumur hennar væri að eignast húsaskjól, hún þyrfti ekki önnur föt en þau sem hún var í. Annar sagðist ekki hafa fengið vatnssopa þann daginn þrátt fyrir að vera þyrstur, sá var að vinna á öskuhaugunum. Fleiri ömurlegar sögur voru sagðar sem ég endurtek ekki hér.

Á Íslandi eiga flestir húsaskjól, nóg af fötum og hreint rennandi vatn í krönunum, er ekki mál að hætta að kvarta um kreppu og njóta alls þess góða sem okkur er úthlutað af náttúrunnar hendi. Við erum lukkunnar pamfílar, Íslendingar......

föstudagur, apríl 17, 2009

Lífið er ljúft.....

Um kaffileytið hringdi síminn minn kunnuglegri hringingu, hringingu sem aðeins heyrist þegar flotti maðurinn minn hringir. "Hvenær heldurðu að þú verðir heima ljúfust", spurði hann. Þar sem ég var á fullu ásamt mömmu og systkinum mínum að skreyta salinn fyrir afmælið hans pabba gat ég ekki alveg svarað honum. "Viltu láta mig vita svona ca klukkutíma áður" sagði hann þá. Það var auðvitað lítið mál og þegar ég renndi frá bílastæðinu við salinn, hringdi ég í hann og þar sem ég þurfti í Bónus myndi vera um það bil klukkutími í heimkomu. Það var fallegt að aka yfir fjöllin tvö heim á leið og ég naut tímans ein í bílnum með Mama Mia diskinn á fullu og stillt mjög miklu hærra heldur en þegar einhver er með mér. Hrund varð eftir í bænum, þær systur voru að fara í þrítugsafmæli frænku sinnar þar sem þemað var 80´stíll og fjör eftir því.

Í Bónus troðfyllti ég kerruna af gosi, meðlæti og öðru sem vantaði fyrir morgundaginn og rétt um klukkan sex renndi ég inn götuna mína og allt í mér fylltist stakri ró og vellíðan. Það er ekki ofsögum sagt að það sé lífsbætandi að búa svona aðeins utan við skarkala höfuðborgarinnar en njóta samt nálægðarinnar við hana því hún er vissulega líka sjarmerandi.

Erling kom út með svuntuna á sér og bar inn vörur og þegar inn var komið mætti mér gamalkunn en sjaldgæf lykt í dyrunum. Þar var komin í ljós ástæðan fyrir því af hverju hann vildi fá að vita nokkuð nákvæman tíma á heimkomu minni. Lyktin reyndist vera af gæs sem hann hafði skotið í haust og var nú í ofninum, elduð á gamla" mátann. Hún ásamt sósu og meðlæti var alveg hreint algert lostæti, ummmmmm frábært og gaman að fá svona móttökur.
Reyndar hefur það verið þannig eftir að hann byrjaði aftur í skólanum og er stundum heima á daginn að læra að hann er búinn að elda þegar við Hrund komum heim og það er svo notalegt.

Framundan er svo fríhelgi með fullt af skemmtilegum uppákomum. Hæst ber að nefna veisluna sem verður annað kvöld í tilefni þess að pabbi fyllti 70 árin um páskana og svo auðvitað er gaman að Óli bróðir er að koma til landsins og ég hlakka mikið til samveru við hann.

Jæja kæru vinir, nú ætla ég að fara inn í stofu til Erlings, setjast í límsófann og njóta þess að vera til og vera í nærveru hans sem er jú allra besti vinurinn minn, njótið helgarinnar...þangað til næst...

mánudagur, apríl 13, 2009

Páskar

Með vindinn í fangið þeystum við af stað í dag á mótorfáknum okkar og stefnan var tekin á höfuðborgina. Það er allt öðruvísi ferðamáti að vera á mótorhjóli heldur en í bíl. Allt umhverfið færist nær, alls konar lykt, misgóð eða misvond, fyllir vitin og skynjunin er önnur. Þar sem þetta var fyrsta ferðin á þessu vori þá var smá beygur í mér varðandi Kambana, það er þessi tilfinning að finnast við vera að fara á hliðina í beygjunum en svo var öryggið komið mjög fljótt. Erling veit að ég er alltaf svona þegar við byrjum á vorin og þessi elska fór sérlega varlega í þessu. Ég treysti honum algerlega fyrir mér og þetta er mjög gaman. Við kíktum á pabba og mömmu og svo á vini okkar Sigrúnu og Heiðar og áttum bara mjög skemmtilegan dag í borginni. Það var ekki mikill lofthiti, aðeins 3 gráður en þar sem Erling var búinn að kaupa handa mér norsk ullarföt til að vera í innan undir leðurgallanum fann ég ekki fyrir neinum kulda, alger munur að vera svona heitt.

Páskahelgin hefur verið mjög notaleg, við vorum á Föðurlandi yfir bænadagana og eins og ég hef áður sagt ykkur þá er einstaklega notalegt að eyða tíma þar, yndisleg kvöld yfir spjalli með góðum vinum og hlusta á timbrið snarka og loga í kamínunni er eitthvað svo róandi og notalegt. Það er allavega alveg öruggt að við komum heim algerlega afslöppuð og með fullhlaðin batteríin.

Dæturnar voru svo hér allar í gær með sitt fólk og fjörið í börnunum jókst í réttu hlutfalli við minnkandi páskaeggin, þau eru alveg hreint yndisleg þessi kríli. Yngsta daman er bara sex mánaða og fékk ekkert páskaegg en fylgdist áhugasöm með frændsystkinum sínum.

Á morgun byrjar svo ný vinnuvika hjá mér en prófalestur er að byrja hjá Erling, stíf törn framundan og þar sem ég vissi að ég myndi missa hann inná skrifstofu næsta mánuðinn eftir páskana þá nýtti ég hverja stund af þessu páskafríi til samveru við hann.
Nú eru Arna og Hrund komnar heim í sveitina og þær, ásamt Theu sitja inni í stofu og ég ætla að fara inn og setjast í límsófann og spjalla við þær, vonandi næ ég að draga Erling inn með mér....Þangað til næst vinir mínir.....

fimmtudagur, apríl 09, 2009

Heill þér sjötugum, ég elska þig pabbinn minn


Ég er svo heppin að tilheyra stórri fjölskyldu og fyrir það er ég Guði þakklát. Því fylgir auðvitað að afmælisdagar eru margir og mér finnst alltaf mikil ástæða til að fagna hverjum og einum þeirra því lífið sjálft er gjöf sem okkur er gefin.Í dag er merkisdagur í lífi Sunnuhlíðarfjölskyldunnar því ættfaðirinn hann pabbi minn fagnar 70 ára afmælisdegi sínum.
Hann pabbi er alveg frábær, greiðvikinn og sérlega umhyggjusamur um okkur öll, vill alltaf vita þegar við erum á ferðinni og ósjaldan hefur hann hringt og athugað með mig og mitt fólk, hvort við séum örugglega komin heim í hús þegar veður eru válynd á heiðum eða þegar slys hafa gerst á þeirri leið sem við ökum til og frá vinnu þá hringir hann og athugar hvar við erum stödd. Mér þykir afskaplega vænt um þetta og svona hefur hann alltaf verið.
Pabbi var lengst af bílstjóri á Hreyfli, var formaður félagsins í langan tíma og eins og segir í korti sem honum barst ásamt höfðinglegri gjöf frá félaginu þá vann hann af miklum heilindum fyrir félagið og var t.d sá sem lagði mikla áherslu á að tölvuvæða bílana og kom þeirri hugmynd í framkvæmd. Hann spilar alltaf brige með félögum sínum og það eru ófá verðlaunin sem hann hefur komið með heim eftir spilakvöld, hins vegar veit ég varla muninn á spaða og ás.
Afkomendur hans og tengdabörn eru eitthvað í kringum 50 og því er bæði þröngt á þingi en endalaust gaman þegar við komum öll saman í litla ömmuhúsinu hans og mömmu. Litlu langafabörnin hans kalla hann Langa að eigin ósk og að mér læðist sá grunur að hann sé bara nokkuð stoltur af okkur öllum.
Elsku pabbinn minn, innilega til hamingju með daginn þinn, vona að hann verði þér frábær og ég hlakka mikið til veislunnar þinnar sem verður haldin eftir rúma viku, þegar Óli bróðir er kominn heim í tilefni dagsins. Allt það hrós sem þú fékkst í afmæliskortum vina þinna í gær áttu algerlega inni fyrir.
Elska þig endalaust
Erlan þín

laugardagur, apríl 04, 2009

Vorið er komið að kveða burt snjóinn

Það er óvenju hljótt núna hér í húsinu við ána og sennilegasta skýringin er sú að ég er ein heima og er svo róleg og stillt. Erling er í málflutningi mastersnema í Héraðsdómi Reykjavíkur og svo skemmtilega vildi til að hann og Íris voru dregin saman að vinna þetta verkefni ásamt einni skólasystur í víðbót. Ég er búin að laga það til hér sem ég nenni að gera og hef verið að undirbúa kvöldið. Já við hjónin ætlum að fara í Kofann okkar og slaka þar á þangað til á morgun. Eftir svona törn eins og Erling er búinn að vera í finnst honum sérlega notalegt að fara austur austur eins og við segjum stundum og vinda þar ofan af spennunni. Þegar hann kemur heim á eftir verð ég sem sagt búin að útbúa okkur með nesti og nýja skó (nei annars ekki nýja), sem minnir mig á að það er alltof langt síðan ég hef keypt nýja skó :o) Einn viðskiptavinur minn kom færandi hendi á skrifstofuna um daginn og gaf mér bringur af bæði önd og gæs og þær fara á grillið við Kofann í kvöld og með því verður gott hrásalat, rjómasósa, kartöflur og gott rauðvín, ummmm

Annars gengur lífið sinn vanagang, við öll þrjú sem hér búum höfum verið svo heppin að losna alveg við allar þær pestir sem hafa verið að hrjá fólk og við erum farin að halda að það sé miklu hvítlauksáti að þakka, ja hver veit allavega. Hrund er alveg á síðustu skóladögunum sínum í Kvennó og er bæði spennt og kvíðin að útskrifast, gaman að ljúka þessum áfanga en söknuður að kveðja frábæran skóla, kennara og starfsfólk sem er orðið eins og vinir hennar. Hún er komin með vilyrði fyrir sumarvinnu á sambýli hér á Selfossi og það finnst henni mjög gaman. Svo í haust mun hún halda á vit nýrra ævintýra en hún ætlar að flytja með Írisi og Karlott til Danmerkur og vera þar einn vetur áður en háskólanám tekur við. Eins mikið og ég samgleðst henni að fara og láta draum sinn rætast þá veit ég að við Erling munum sakna hennar alveg ferlega mikið, það er svo skemmtilegur félagsskapur af henni og svo er hún bara öll svo yndisleg og foreldrum sínum mikil uppspretta ánægju og gleði eins og þær reyndar allar eru dætur okkar. Tilhugsunin um að Íris og Karlott flytji af landi brott er skrýtin og ég veit að það verður erfitt að hafa þau í öðru landi en ég samgleðst þeim líka innilega. Nú er bara að koma sér vel við flugfélögin og fá Danmerkurferðir á góðu verði, það bara hlýtur að vera hægt.

Enn á ný njótum við þeirra forréttinda að hafa Örnu og dætur hennar um páskahátíðina og ég hlakka mikið til. Eygló ætlar líka að vera hjá okkur með litlu Erlu Rakel þar sem Bjössi fékk afleysingavinnu á sjónum og verður ekki heima um páskana. Íris og Karlott og litlu stóru yndigullin þeirra koma svo á páskadag og verða með okkur þannig að þið sjáið að ég hef mikið að hlakka til. Ég elska það þegar við erum öll samankomin hér í Húsinu okkar fallega við ána.

Nú vöknum við á morgnana við alls konar fuglahljóð sem berast inn um glugganan og það er svo vorlegt og notalegt. Ég bíð spennt eftir að vita hvort nágrannar okkar Nína og Geiri hafi lifað veturinn af og komi og geri sér hreiður hér úti í hólma en það hafa þau gert undanfarið ár. Við Erling þurfum endilega að fara að fjárfesta í góðum kíki til að geta betur fylgst með þessum vinum okkar.

Jæja vinir, best að sinna aðeins þvottinum og kíkja svo aðeins á vinkonur mínar á Bláregnsslóð, þær eru algerlega óborganlega skemmtilegar. Njótið daganna, hlakkið til hátíðarinnar sem er framundan. Ég er byrjuð að bíða eftir Erling, hlakka til að heyra hvernig þeim gekk með málið og svo er bara svo gaman að eyða tímanum með honum. Ég er svo sannarlega lánsöm kona...þangað til næst....