mánudagur, júní 15, 2009

Sumarfrí

Það var ekki leiðinlegt að slökkva á tölvunni í vinnunni núna fyrir helgi, búin að vinna allan vsk pakkann og ganga frá öllum launum og öðru smálegu sem gera þurfti. Ég kvaddi samstarfsfólkið með orðunum, sjáumst eftir tvær vikur, njótið lífsins og saknið mín mikið.
Létt í lund settist ég undir stýri og ók heim á leið yfir fjöllin tvö eins og hún Petra Rut mín segir stundum.
Það er eitthvað svo sérlega notalegt að vera í fríi og ég fann það sérstaklega í dag. Það er mánudagur en samt gat ég sofið út, kom niður og þar var Erling að lesa blöðin og var eitthvað svo sérstaklega notalegur að sjá. Við fengum okkur morgunmat saman, síðan litaði hann á mér hárið og við tók svo ýmislegt stúss sem tilheyrir því að fara í sumarfrí. Dagurinn hefur því verið góður og áðan kvöddum við Örnu og litlu stóru gullin hennar en þær kíktu á okkur því þegar við komum heim aftur verða dömurnar farnar burtu með pabba sínum í þrjár vikur.
Eftir hádegi á morgun munum við hjónin sitja á Ráðhústorginu og fylgjast með mannlífinu og svo rölta niður að Nýhöfn og bara njóta þess að vera til.
Á 17. júní fljúgum við svo norður á bóginn til Óla bróður og hans fjölskyldu og ætlum að eyða með þeim nokkrum dögum og ég hlakka mikið til. Köben hefur alveg sérstakan sjarma í okkar augum, eitthvað svo heimilisleg borg.
Njótið lífins vinir mínir, ég skelli inn myndum þegar við komum heim aftur...þangað til næst...

Engin ummæli: