miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Við erum komin heim.....


Þá erum við hjónin komin heim frá heitu löndunum, brún og sæt. Við vorum mjög heppin með veður í fríinu okkar þarna suðurfrá, sólin skein glatt og stundum var heitara en við hefðu kosið. Það er gaman að vera í sumarfríi, ferðast og skoða sig um og frábært að vera á ströndinni, stinga tánum í heitan sandinn og láta sólina baka sig og smá saman fær húðin þennan fallega gullna lit. Samt er alltaf best að koma heim aftur. Að sjá landið fagra fyrir neðan vænginn á flugvélinni er stórkostlegt. Það jafnast ekkert á við Ísland. Við lentum í Keflavík rétt eftir hádegi og því var bjart og landið sást vel. Um mig fer alltaf einhver sérstök tilfinning þegar ég sé landið mitt birtast. Þjóðernisstolt kallast það sennilega.

Auðvitað mætti vera aðeins heitara loftslag hér og það mætti alveg rigna aðeins minna en samt vildi ég ekki skipta á þessu og þurru og heitu loftslaginu í suðurhöfum þar sem þarf að kaupa allt vatn sem maður vill drekka og moskító stingur mann og sýgur úr manni blóðið. Það jafnast fátt á við að keyra um íslenska fjallavegi, sjá læk, ná sér í ílát til að drekka vatnið úr eða einfaldlega leggjast á hnén og fylla lófann af vatni og drekka. Ummmmm. Hvergi annars staðar vildi ég búa en ég er alltaf til í að ferðast til annarra landa.

Við fórum á Föðurlandið okkar á Fitinni síðustu helgi og gistum í krúttlega og notalega kofanum okkar sem við höfum byggt okkur þar. Meiriháttar og ég er alsæl með þetta athvarf sem er orðið þarna. Gaman að geta skroppið þangað úr ys og þys hins daglega lífs og notið lífsins í kyrrðinni þar. Við höfum ákveðið að hafa ekki sjónvarp þar bara góðar græjur til að geta notið þess að hlusta á góða tónlist.

Ég er að lesa mjög athyglisverða bók þessa dagana, ”Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn”. Sannsöguleg bók sem fjallar um virtan lögfræðing sem fær hjartaáfall og í kjölfarið ákveður að breyta algerlega um lífsstíl og leitar til vitringanna í Sivena sem búa hátt í Himalaya fjöllunum í Indlandi. Þeir kenna honum hvernig á að njóta lífsins á heilbrigðan hátt og aðferðin þeirra er meira en fimm þúsund ára gömul. Þetta eru sjö venjur sem þarf að tileinka sér og þegar ég er búin með bókina skal ég segja ykkur nánar frá þeim. Ég ætla allavega að lesa þetta og tileinka mér það sem er gott.

Það eru frábærar fréttir af Daníu Rut, ég tek mér það bessaleyfi að grípa niður í skrifin frá síðunni hennar Örnu

”En ég er með góðar fréttir í sambandi við Daníu Rut elsta gullið mitt. Við Davíð fórum um daginn og hittum Stefán Hreiðarsson, forstöðumann greiningar og ráðgjafastöð ríkisins. Og hann hafði góðar fréttir að færa. Það sem er að hjá henni Daníu Rut er að stundum gerist það að genin raða sér þannig upp að einn þroskaþáttur er seinni en hitt. Og það hefur gerst hjá Daníu Rut. Málþroskinn kemur en hann kemur bara hægar og seinna en hjá öðrum krökkum. Yndislegar fréttir, Guð er góður. ”

Njótið lífsins vinir, þangað til næst........

Engin ummæli: