sunnudagur, febrúar 15, 2009

Sara Ísold á afmæli í dag, húrra fyrir henni....


Í dag eru fimm ár síðan þriðja barnabarn okkar Erling leit dagsins ljós norður á Akureyri. Við höfðum fylgst með framgangi fæðingarinnar alla nóttina í gegnum símtöl frá Örnu og svo var það snemma á sunnudagsmorgni sem við fengum símtalið um að dóttir væri fædd og allt í lagi með þær mæðgur.
Já hún Sara Ísold, lítil vinkona mín er fimm ára í dag og er búin að bíða lengi eftir þessum degi því svo er stutt þangað til hún verður sex ára og byrjar í skóla, eða það finnst henni allavega. Sara Ísold er mjög dugleg stelpa og ákveðin, aðeins byrjuð að stauta sig fram úr stöfum og um daginn spurði hún pabba sinn hvað þýddi R Ó L A en hún sá þessa stafi einhvers staðar en náði ekki alveg samhenginu. Hún er kát og skemmtileg en ef henni mislíkar eitthvað þá hikar hún ekki við að láta okkur vita af því. Brosið hennar heillar mann algerlega og blikið í augunum er oft ómótstæðilegt.

Afmælisveislan hennar var haldin hér í Húsinu við ána í gær og skemmti hún sér konunglega og virkilega naut athyglinnar. Það var samt skondið þegar við fundum hana steinsofandi í leikkróknum undir stiganum, hafði komið sér fyrir á öðrum grjónapúðanum og svaf. Skýringin gæti verið sú að hún ásamt Írisar börnum gistu hér nóttina áður og kl hálf sex um morguninn var kominn dagur hjá þeim og því hefur hún verið orðin dauðþreytt seinni partinn og lagði sig bara í sínu eigin afmæli.
Þegar langt var liðið á veisluna sagði hún við mömmu sína, "Þetta er fullkomið" hún var svo glöð.
Hennar helsta áhugamál eru hestar og hún var himinlifandi með stórt og flott baby born hesthús sem hún fékk frá mömmu sinni í afmælisgjöf og afi hennar setti það svo saman fyrir hana áður en hún fór heim.
Elsku Sara Ísold mín, innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, þú ert alger Guðs gjöf inní líf okkar og ég elska þig meira en orð fá lýst. Láttu nú mömmu þína og systur dekra við þig á allan hátt.

2 ummæli:

Eygló sagði...

Til hamingju með sætu ömmustelpuna þína :) Ekkert smá æðisleg mynd af henni pæjunni!
Knús á þig, þín Eygló

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir fallegan pistil mamma. Og fyrir alla hjálpin í afmælinu. Þú ert fullkomin eins og afmælisveislan;) Arnan