sunnudagur, febrúar 22, 2009

Tíminn líður hratt...

Það er engum ofsögum sagt að tíminn líði hratt. Vikan hefur verið skemmtileg og viðburðarík og ég nýt þess að vera til. Ennþá er nóg að gera í vinnunni enda er þetta tími ársuppgjöra. Það er þó hætt við að vinnan minnki svo því mörg fyrirtæki sjá bara fram á gjaldþrot í kjölfar kreppunnar og er það auðvitað miður.

Á föstudagskvöldið hittumst við systkinin ásamt pabba og mömmu og kvöddum þorrann með tilheyrandi matarhlaðborði. Að vísu var fátt um súran mat á boðstólum enda var hann hvort tveggja uppseldur í búðunum og svo borðum við hann hvort sem er ekki mikið. Félagsskapurinn var góður og við öll svo skemmtileg þannig að úr varð hið besta kvöld. Þetta er siður sem við höfum viðhaft í mörg ár og við skiptumst á að hýsa boðið.

Í gær var svo rólegheitadagur hér í Húsinu við ána. Tveir skólafélagar Erlings komu hingað og voru þeir að vinna verkefni saman og ég var uppi á meðan að prjóna. Það er svo notalegt að sitja uppi með tónlist og prjóna. Ég var að spá í að kíkja á Sirrý systir en þá komu Hrund og Arna heim og svo fóru skólafélagarnir stuttu seinna og heimsóknum var frestað. Ég er að prjóna lopakjóla á litlu dömurnar mínar og það er mjög gaman. Í gærkvöldi fórum við svo öll fjögur til borgarinnar og var tilefnið sálmasamkoma í Samhjálp sem vinkona okkar Guðrún Einars stóð fyrir. Þetta var svo skemmtilegt og „alveg eins og í gamla daga“. Sammi Ingimars, Hafliði og Jói leiddu sönginn, Geiri og Helena Leifs voru með gítara, Guðni Einars spilaði á bassa, Kristján var á trommum og Þórir lék á píanóið. Tær snilld og hrikalega gaman, held við höfum sungið rúmlega 20 sálma og ég tek það fram að dætur okkar Erlings og litla Erla Rakel lögðu heldur betur sitt af mörkum til að lækka meðalaldur þeirra sem voru þarna.

Erling er alveg á bólakafi í verkefnavinnu og hefur það staðið yfir mjög lengi finnst mér en þótt ótrúlegt sé þá er önnin samt hálfnuð. Áðan hringdi síminn og lítil stúlka (Katrín Tara) talaði við afa sinn og var að bjóða okkur í bollukaffi. Þótt við höfum því miður þurft að afþakka það þá var svo gaman að fá svona hringingu. Reyndar var það ekki alveg afþakkað heldur var tekin ákvörðun að fresta því þangað til annað kvöld eftir skóla og ég hlakka til að fara og hitta þau.

Jæja vinir, njótið dagsins því hann er góður, ég ætla að fara og halda áfram með kjólana og hlusta á góða tónlist, var að kaupa safnið 100 íslenskar ballöður og það sem ég er búin að hlusta á lofar góðu með framhaldið. Þangað til næst....

1 ummæli:

Eygló sagði...

Jæja bloggið komið sem ég beið eftir ;) Frábær hefð hjá ykkur systkinum að halda þorrablót alltaf saman.
Og jújú við systurnar minnkuðum meðalaldurinn aaðeins í gær ;)
LU