sunnudagur, mars 01, 2009

Rústað......

Við Erling fórum í gærkvöldi í leikhús en það er eitt af því sem okkur finnst gaman að gera. Að þessu sinni var leikhúsferðin svolítil áskorun því við höfðum heyrt að þetta verk væri nokkuð sérstakt og svakalegt á köflum. Þegar það var fyrst sett á fjalirnar árið 1995 olli verkið straumhvörfum því það þótti fara langt fram úr möguleikum kvikmyndarinnar að ná til fólks. Sumir hafa gengið út og algerlega ofboðið, aðrir segja að verkið hafi haft langtímaáhrif á sig og svona mætti áfram telja.

Ingvar E. Sigurðsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Björn Thors eru einu leikendur Rústað og þau sýna öll alveg hreint ótrúlega magnaðan leik í svo erfiðum hlutverkum sem þau eru í. Sérstaklega finnst mér þó Ingvar ótrúlega góður miðað við hversu nærgöngult og djarft hlutverk hann leikur. Rústað er grimmt leikrit sem dregur áhorfandann niður á lægsta plan mannlegrar veru og tilfinninga, það er áleitið og nærgöngult. Við fengum að skyggnast inní hugsun og tilfinningar þess sem er grimmur og skiljum örlíitð afhverju hann er eins og hann er. Það er full ástæða til að vara viðkvæma við þessu verki og eins að hafa það bannað innan 16 ára en fyrir þá sem hafa áhuga á mannlegu eðli og því sem viðkemur mannsins huga þá er verkið áhugavert.

Stundum heyrðist kliður eins og „nei ekki og þetta er ekki hægt“ í salnum og tvisvar sinnum varð ég að líta undan, gat ekki horft. Ég get tekið undir með þeim sem segja að svona verk hafi aldrei verið sett upp áður, ég hef aldrei séð neitt þessu líkt á sviði og förum við Erling þó nokkuð oft í leikhús en ég sé alls ekki eftir að hafa farið að sjá svona verk sem talað er um sem tímamótaverk og enn og aftur er ég minnt á það hversu heppin og lánsöm ég er að vera fædd á þessu yndislega landi sem þrátt fyrir kreppu býður okkur mannsæmandi líf.

Njótið daganna vinir....þangað til næst...

Engin ummæli: