sunnudagur, mars 15, 2009

Sunnudagur til sælu

Klukkan er langt gengin í ellefu og alveg að koma háttatími. Ég sit hér í eldhúsinu og á móti mér er Hrund að skrifa stúdentsritgerðina sína og Erling situr við verkefnavinnu inni á skrifstofu. Dagurinn hefur verið sérlega notalegur, þau feðgin eru búin að læra í allan dag, ég hins vegar sinnti húsmóðurshlutverkinu og þreif húsið, þvoði þvott og straujaði ásamt því að lesa og prjóna. Úti hefur ýmist gengið á með éljagangi og hryðjum eða sól og blíðu eins og á sumardegi, svo sannarlega íslenskt veður. Ég segi það aldrei of oft að ég algerlega elska svona daga, allir heima að sinna sínum verkum og svo annað slagið hafa námsmennirnir mínir tekið sér frímínútur og við öll sest inn í stofu og spjallað saman smá stund. Við elduðum lambalæri í kvöldmatinn og það var svona "gamaldags" matur, með brúnni sósu og rauðkáli, ummmm hrikalega gott. Áðan átti ég langt og skemmtilegt spjall við Óla bróðir sem býr í Danaveldi og ég hlakka mikið til í sumar þegar við Erling förum í heimsókn til þeirra hjónanna. Við höfum reynt að hitta þau einu sinni á ári og þá er alltaf glatt á hjalla hjá okkur.

Í gær fórum við til borgarinnar í tilefni afmælisins hennar mömmu og að vanda var skemmtilegt í litla ömmuhúsinu hennar og það sannaðist einu sinni enn að þröngt mega sáttir sitja. Það er alltaf gaman að hitta fólkið sitt og eiga samfélag við það. Kvöldið endaði svo með leikhúsferð okkar Erlings í Þjóðleikhúsið að sjá Hart í bak. Flott sýning, frábærir leikarar, mæli með þessu verki.

Á morgun tekur svo við ný vinnuvika og ný tækifæri. Ég er þakklát fyrir öll þau gæði sem ég bý við og veit að það er ekki sjálfsagt að hafa það svona gott. Þangað til næst vinir mínir....

Engin ummæli: