mánudagur, mars 02, 2009

Afmælisskvísur


Í dag fagna Eygló og Arna, tvíburadætur mínar, 28 ára afmælinu sínu. Þær munu samt ekki vera hrifnar af mér að tala um þær sem tvíbura, þær elska að vera tvíburar en það má ekki tala um þær sem slíkar og ég er alveg sammála þeim en stundum leyfum við þeim að heyra að þær séu líffræðilega nákvæmlega eins og það var Íris systir þeirra sem einu sinni fann þetta fína orð og það er óspart notað til að stríða þeim. Auðvitað eru þær ekki alveg eins en þær eru ótrúlega samrýmdar og það er einhver óskiljanlegur þráður á milli þeirra. Þeim dreymir jafnvel sömu drauma sömu nótt og stundum kaupa þær alveg eins gjafir handa hvor annarri án samráðs.

Það var skrýtin tilfinning að vita að það væru tvö börn á leiðinni en mjög spennandi og þær hafa alla tíð verið yndi mín og stolt ásamt hinum systrum sínum. Þær hafa það alveg beint frá mér að elska að eiga afmæli og löngu áður en dagurinn rennur upp er búið að skipuleggja hann og skrifa niður afmælisgjafaóskalista. Ég vona að þær haldi þessu áfram alltaf, leyfi afmælisbarninu í sér alltaf að njóta sín í botn.

Eygló er núna í fæðingarorlofi en hún eignaðist sitt fyrsta barn 5 október sl. Arna vinnur á leikskóla og á þrjár yndislegar stelpur og er mjög dugleg með þær. Þær eru miklar vinkonur og talast við á hverjum degi og reyna að hittast líka daglega.

Elsku stelpurnar mínar, ég óska ykkur innilega til hamingju með afmælisdaginn ykkar. Vona að hann verði ykkur góður og ánægjulegur. Elska ykkur meira en orð fá lýst og er stolt af ykkur.

3 ummæli:

Eygló sagði...

Takk fyrir þennan skemmtilega afmælispistil mamma :)
Rétt er það með tvíburatalið en þá aðallega ef það er td sagt "tvíburarnir eru mættir" eða "tvíburarnir eiga afmæli" eins og við séum e-ð fyrirbæri.. En jújú við elskum að vera tvíburar :)
Það er alveg æði og við sækjum það nú ekki langt að elska afmælisdaginn okkar ;)
Elska þig endalaust, þín Eygló

Nafnlaus sagði...

Tek undir með Eygló, þetta með tvíburatalið... Við myndum aldreu segja, "Hey einstaklingurinn er kominn" hahahah, það væri reyndar pínu fyndið.. En love U mamma og takk fyrir þennan pistil:)

Eygló sagði...

Haha já eða einburinn ;);) Það væri ennþá fyndnara en þú gleymir að kvitta undir Arna mín ;)