fimmtudagur, mars 19, 2009

Ritgerðin.....og fleira skemmtilegt

Það er mikið um að vera í eldhúsinu núna þótt klukkan sé alveg að slá í miðnætti. Hrund á að skila stúdentsritgerðinni sinni á morgun og það er verið að leggja lokahönd á hana. Erling er að fara yfir hana og kemur fram með eina blaðsíðu í einu, rauða og leiðrétta og Hrund fer yfir þetta jafnóðum. Það er mikið lagt í vinnu við þessa ritgerð og vonandi fær hún einkunn í samræmi við að maður uppsker eins og maður sáir. Viðfangsefnið er kannski ekki það einfaldasta en það fjallar um áhrif sjálfsvíga á aðstandendur. Barbro vinkona var svo elskuleg að leyfa Hrund að taka viðtal við sig en eins og flestir lesendur mínir vita þá framdi elsti sonur hennar sjálfsvíg þegar hann var rúmlega tvítugur.

Á morgun er svo komin helgi eina ferðina enn og það er sko bara gaman. Við í Flugfreyju-klúbbnum erum að fara saman í sumarbústað og handavinnan verður sko tekin með. Ég fór í dag og keypti nokkar dokkur af ullargarni því hún Kolla ætlar að kenna mér og Sigrúnu að hekla svona dúlluteppi og mitt mun prýða rúmið okkar Erlings í kofanum svona í náinni framtíð.

Erling er alveg á bólakafi í verkefnavinnu svona eins og hann hefur verið frá því skólinn byrjaði en honum gengur mjög vel, er búinn að fá mjög góðar einkunnir það sem komið er og ég er svo stolt af honum, hann er að standa sig svo vel og svo þegar hann verður búinn með þetta nám þá verður kreppan búinn og fullt af tækifærum framundan.

Íris er búin að fá jákvætt svar við skiptinemanámi við háskólann í Árósum og mun hún því taka seinna mastersnámið í lögfræðinni þar úti ef húsnæðismál og allt það gengur upp. Þá flytja þau væntanlega í byrjun júní, sakni sakn.. það vill til hvað það er stutt að fljúga þangað og okkur foreldrum hennar hefur aldrei leiðst að ferðast.

Jæja, þá fer að koma að mér að lesa lokayfirferð yfir ritgerðina.....Njótið daganna lesendur góðir, það ætla ég að gera og sérstaklega ætla ég að njóta þess að eiga góðan tíma með dýrmætum vinkonum mínum um helgina.....þangað til næst....

2 ummæli:

Íris sagði...

Skemmtið ykkur vel í bústaðnum ;)

ArnaE sagði...

Eigðu góðan tíma með sætu vinkonum þínum mamma. Þú ert yndi dúllan mín, ME LOVES U:)