fimmtudagur, janúar 22, 2009

Erlan var döpur í dag....

Við vorum snemma heima í dag hjónin, Erling sótti mig í vinnuna klukkan þrjú og við drifum okkur heim yfir fjöllin tvö. Hrund var lengur í bænum og er í þessum skrifuðu orðum á heimleið með Theunni sinni. Við komum við í Bónus eins og svo oft á fimmtudögum, okkur finnst nefnilega Bónus í Hveragerði miklu betri heldur en Bónusbúðin hér á Selfossi.

Ég setti matinn í ofninn og ákvað svo á fara á hlaupabrettið fyrir matinn fyrst tími gafst til. Ég kveikti á sjónvarpinu til að stytta mér tímann og fréttir Stöðvar 2 voru að byrja. Ég hef nú ekki fylgst mikið með þessum mótmælum í bænum en auðvitað hef ég vitað af þeim. Það sem ég sá í fréttunum gerði mig bæði hrygga og dapra. Ég get heils hugar tekið undir með Geir Jóni lögreglu að það er ótrúlegt að þetta séu Íslendingar sem eru að láta svona. Hvert erum við eiginlega komin sem þjóð þegar við líðum svona skrílslæti? Að sjá fólk með hamar vera að brjóta rúður í Stjórnarráðinu, velta við bekkjum og kveikja í þeim, kasta þvagi og saur ásamt því að grýta lögregluna og ég sá mjög fullorðna konu ganga á milli lögreglumannanna og berja skildina þeirra með grjóti !! Lögreglan hefur ekkert gert okkur illt og mér varð hugsað til þess hvort þetta sama fólk hringi ekki í 112 og biðji þessa sömu menn að koma og hjálpa sér ef það lendir í vandræðum? Lögreglan er alltaf til staðar fyrir okkur og á ekki skilið svona framkomu. Þetta eru menn eins og ég og þú sem eru að vinna vinnuna sína. Það var eina úrræðið sem þeir gátu beitt að nota táragas því það var að skapast hættuástand í miðbænum. Þegar fólk er farið að kveikja í eldsneyti í anddyri Alþingishússins þá er voðinn vís. Hins vegar sá ég líka að það eru ekki allir sem haga sér svona og ég gladdist yfir þeim sem tóku sér stöðu fyrir framan lögreglumennina til að hlífa þeim við þessum árásum :o)

Það var viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu og hún sagði að það væri líkt með þetta og höfuðmeinið sem er að hrjá hana. „Hún sagði að það þýddi lítið fyrir sig að öskra og æpa og reyta hár sitt út af meininu heldur yrði hún að hlusta á sérfræðingana sem væru að annast hana og fara eftir ráðum þeirra og það sama yrðum við að gera varðandi þennan vanda. Öskur og skrílslæti leysa engan vanda heldur verðum við að gefa þeim sérfræðingum vinnufrið sem nú þegar eru á fullu að leita leiða fyrir okkur“.

Nei, svona getur aldrei verið til góðs fyrir okkur og ég vona svo sannarlega að það verði ekki framhald á svona mótmælum og að lögreglumennirnir og fjölskyldur þeirra geti verið róleg heima hjá sér og þurfi ekki að óttast að einhver óþjóðalýður geri aðsúg að heimilum þeirra. Nóg er samt.
Sem Íslendingar þá höfum við sem betur fer rétt á að mótmæla og við megum segja okkur skoðun en það sem hefur verið að gerast er ekkert annað en skrílslæti sem við getum ekki liðið. Leyfum sérfræðingum að vinna vinnuna sína, munum að það er svo auðvelt fyrir okkur að leysa þetta allt saman heima í stofu því við erum ekki í skotlínunni eða undir smásjá þeirra sem leita logandi ljósi að mistökum annarra.

Þangað til næst vinir mínir.....

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góð færsla - virkilega góð!
Ég gæti ekki verið meira sammála þér! :)
-Hrund