fimmtudagur, janúar 08, 2009

Tvítug....


Það var sunnudagurinn 8. janúar og klukkan alveg að verða fjögur að degi til þegar daman fæddist. Hún opnaði annað augað, sá föður sinn, leist vel á hann og lokaði augunum aftur, hefur sennilega séð að hún var komin í öruggar hendur.
Allar götur síðan hefur hún verið sannkallaður gleðigjafi þessi dama, yngsta stelpan okkar Erlings sem í dag fagnar 20 ára afmælinu sínu. Þetta er auðvitað mjög merkilegur afmælisdagur, fyrsta stórafmælið, sjálfráða og þarf ekki að spyrja neinn um það sem hún vill. Ég er nú samt alveg viss að hún mun halda áfram að leita ráða enda skynsöm stúlkan sú.
Hrund hefur margoft sýnt og sannað hvað í henni býr. Hún er yndisleg og hefur verið okkur til mikils sóma hvar og hvenær sem er. Hún hefur alltaf verið ákveðin og vitað hvað hún vill, hún má ekkert aumt sjá og hefur oft komið skólasystkinum sínum til hjálpar þegar aðrir hafa snúist gegn þeim. Hrund er ein af þeim sem eru fæddir leiðtogar og því hefur það reynst henni auðvelt að fá félaga sína til að láta af leiðinlegri breytni sinni gagnvart þeim sem eru minni máttar. Hún er líka samkvæm sjálfri sér og lætur verkin sín frekar tala en orð en samt er henni aldrei orðavant, það má segja að frá því hún var altalandi, aðeins eins og hálfs árs gömul, þá hefur hún varla stoppað.
Hún er á síðustu önninni í Kvennó og útskrifast sem stúdent í vor. Þar tekur hún þátt í verkefni sem heitir Mentor og felst í því að vera vinur grunnskólabarns. Einu sinni í viku hittir hún lítinn 7 ára nýbúadreng í 3 tíma í senn og eru þau mestu mátar. Ekki er alveg ákveðið hvað tekur við eftir útskrift en hugurinn stefnir á sjálfboðaliðastarf í eitt ár helst á vegum ABC og koma svo heim og fara í háskólann en það er heldur ekki alveg ákveðið hvaða leið hún ætlar að fara þar. Ég yrði ekki hissa þótt hún myndi í framtíðinni vinna með fólk og læra annað hvort sálfræði eða félagsráðgjöf.
Elsku Hrundin mín, innilega til hamingju með þennan merkisdag í lífi þínu. Láttu okkur nú dekra við þig á allan hátt. Hlakka til að eyða kvöldinu með þér. Elska þig meira en orð fá lýst.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með dúlluna okkar;);) Hún er frábær eins og mamma sín og pabbi;);) LU:) Arna

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þetta:)
og takk fyrir allt sem þið gerðuð á afmælisdaginn minn, þið eruð æði og ég elska ykkur svooo mikið!:)

-Hrund