sunnudagur, janúar 18, 2009

Lífsins lystisemdir í góðu meðalhófi....

Eins og ykkur lesendum mínum er kunnugt þá hef ég alltaf gaman af því að eiga afmæli, þetta er jú eini dagurinn á árinu sem er MINN og ég nýt þess og miðvikudagurinn sl var engin undantekning.

Vekjaraklukkan hringdi jafn ógurlega snemma og hún gerir á virkum dögum, ég teygði mig til að slökkva á henni og var að fara framúr þegar hendi var lögð yfir mig og hvíslað í eyrað mitt: „Til hamingju með daginn krúttlan mín, þú þarft ekki að fara framúr, mátt sofa lengur“. Ég á nú að mæta í vinnuna og Hrund í skólann sagði ég. „Ég er búin að fá frí í dag fyrir þig og Hrund keyrir bara sjálf í skólann“ sagði þessi flotti maður minn. Hrikalega var ég ánægð. Ég fór samt og vakti Hrund og spjallaði aðeins við hana og fór svo inn í myrkvað herbergið mitt aftur og lagðist á, að ég hélt koddann minn, en nei nei...það var eitthvað á koddanum sem ég var næstum búin að kremja með höfðinu. AFMÆLISGJÖFIN. Í fallegum kassa var uppáhalds ilmvatnið mitt og peningur. Gaman....

Ég sofnaði strax aftur og klukkan var orðin hálf ellefu þegar afmælisbarn dagsins kom niður. Algerlega mér að óvörum beið mín þetta líka flotta morgunverðarhlaðborð, bæði með hollustu og óhollustu, kertaljós og alles. Við hjónin áttum svo frábæran dag heima, Teddi bróðir kíkti á okkur í hádeginu en upp úr kl fjögur fórum við til borgarinnar því ég var búin að ákveða að hitta stelpurnar mínar og þeirra fólk heima hjá Írisi og við borðuðum öll saman og ég fékk flottar afmælisgjafir frá þeim og samfélagið var svo skemmtilegt. Ég elska þegar við erum öll saman.
Um kvöldið komu svo mamma og pabbi úr borginni til okkar og það gladdi mig ekkert smá að þau skyldu leggja þetta ferðalag á sig til að gleðja mig. Sirrý og Guðjón komu líka og það var mjög gaman. Afmælisdagurinn minn einkenndist af notalegheitum og ég naut hans í botn. Fór ekki að sofa fyrr en ég var búin að sjá klukkuna komna fram yfir miðnætti :o)

Í dag höfum við haft það rólegt hér í Húsinu við ána. Erling er að lesa enda byrjaður í skólanum á ný og það þýðir ekkert að slá slöku við lesturinn til að ná árangri. Við fórum samt í göngutúr áðan og það var meira að segja ég sem átti frumkvæðið að því og dró hann út frá tölvunni. „Gott fyrir sellurnar“ sagði ég, „þær virka betur eftir að hafa fengið heilnæmt Selfossloftið í sig“. Við klæddum okkur vel og gengum út í frostið, upp með ánni, hún hefur einhver seiðandi áhrif á okkur þessi flotta vinkona okkar, Ölfusáin. Þarna í þessari gönguferð tók ég ákvörðun um hvað ég ætla að gera við afmælispeninginn frá Erling. Ég var búin að hugsa mér að kaupa leðurstígvél en er sem sagt búin að breyta. Gönguskór skulu það vera. Við höfum bæði mikinn áhuga á að fara að ganga meira og eftir að hafa skoðað myndir á fésinu hjá henni Maríu frænku minni sem er mikil göngukona þá varð áhuginn enn meiri.

Á gamlárskvöld, rétt fyrir miðnætti, þegar fólkið mitt var úti að horfa á flugeldana fór ég inn og sat við eldhúsgluggann minn og horfði út. Margar hugsanir fóru um huga minn en ein hugsun var hinum miklu sterkari og á nýársdag sagði ég fólkinu mínu að ég ætlaði ekki að strengja nein áramótaheit en árið 2009 yrði tileinkað heilsu minni. Ekki svo að það sé eitthvað að, ég er við hestaheilsu en ég geri mér samt grein fyrir því að ég er að komast á „viðgerðaraldurinn“ og ég veit að ofþyngd orsakar mjög marga sjúkdóma og m.a er áunnin sykursýki algeng í minni ætt. Ég ætla því að gera það sem ég get til að lifa sem lengst og þar með eignast aukin lífsgæði og setja heilsuna í forgang þetta árið. Ekki neinar ákvarðanir um að missa svo og svo mörg kíló heldur vera meðvituð um heilbrigða lífshætti og þess vegna ætla ég að eyða afmælispeningunum mínum í gönguskó. Ef ég missi einhver kíló í kjölfarið þá er það bara bónus. Ég ætla að njóta lífsins lystisemda í góðu meðalhófi....

3 ummæli:

Íris sagði...

Mér finnst það frábært hjá þér að kaupa gönguskó! Og líka gott hjá þér að ætla að huga að heilsunni, það ættu allir að gera!
Kannski fær maður að labba eitthvað með þér eða ykkur ;)
Sjáumst annars fljótlega :)
Þín Íris

Erla sagði...

Næst þegar þið komið austur ættum við að fara í göngutúr upp í skóg og sýna krökkunum hellinn. Þau hefðu gaman af því og ég líka að vera með ykkur. Hlakka til að sjá þig næst....

Eygló sagði...

Æðislega notalegt blogg hjá þér mamma og frábært hvað þú áttir æðislegan afmælisdag =)
Og flott hjá þér að ætla að kaupa þér gönguskó..
LUL, Eygló