
Þegar ég lít útum eldhúsgluggann minn þá er varla hægt að trúa því að það sé 4. janúar. Veðrið er alveg ótrúlega gott miðað við árstíma, frekar eins og það sé að vora en ekki að framundan séu leiðinlegustu mánuðir ársins. Skil reyndar ekkert í mér að tala um janúar sem einn leiðinlegasta mánuðinn og bæði ég og Hrund eigum okkar afmælisdaga í þessum líka fína mánuði.
Það er við hæfi á svona tímamótum að staldra aðeins við, gera upp árið sem nú er horfið og kemur aldrei tilbaka og horfa svo fram á nýtt ár sem okkur er fært, óskrifað og gera okkur grein fyrir því að þegar öllu er á botninn hvolft þá höfum við svo mikið um það að segja hvernig þetta ár verður. Það er undir okkur komið hvort dagarnir verða góðir eða leiðinlegir, það er undir okkur komið hvort við stöldrum við og njótum augnablikanna, hvort við tínum upp þá hversdagslegu gimsteina sem liggja víða við götukantinn og geta svo auðveldlega glatt okkur á einfaldan hátt. Við ráðum því sjálf hvort við þjótum áfram í daglega lífinu og erum svo upptekin við að gera áætlanir að lífið fer framhjá okkur á meðan.
Ég var svo lánsöm að hafa allt fólkið mitt, nema Örnu dætur, hjá mér þegar gamla árið kvaddi og við buðum nýtt ár velkomið. Þau gistu svo öll hér og eftir hádegi á nýársdag settumst við öll inn í stofu meðan litlu krílin sváfu úti í vagni. Ég náði í blað og penna og skrifaði niður samræður okkar því við vorum að segja frá væntinum okkar fyrir þetta nýja ár og svo verður gaman að ári að draga fram blaðið og sjá hvað hefur ræst. Auðvitað höfum við mjög misjafnar væntingar til þessa árs en allt var þetta þó spennandi og skemmtilegt. Ég held að það sé mjög gott að setja sér markmið og vinna svo að þeim.

Tvö ár í röð höfum við haft jólaboð fyrir alla þá afkomendur Hrefnu og Magga sem hafa áhuga á að vera með og umgangast fólkið sitt. Þetta hefur mælst vel fyrir og mæting hefur verið góð. Auðvitað vitum við að það komast ekki allir þrátt fyrir áhuga og það er bara þannig, þeir koma þá bara næst. Mér finnst alveg ótækt að stelpurnar mínar séu hálf feimnar við frænsystkini sín bara af því að þau sjást svo sjaldan. Í gær voru hér því 65 manns og mikið fjör.

Heitt súkkulaði fyrir 60 manns

1 ummæli:
Skemmtilegur pistill hjá þér mamma. Jólaboðið var snilld og ég er svooo ánægð að þið tókuð af skarið og hóuðu öllum saman =) Algjört æði!
Sjáumst vonandi fljótlega =)
Eyglóin
Skrifa ummæli