föstudagur, desember 26, 2008

Jólin...

Það er ekki skrýtið að mann hlakki mikið til jólanna því þau eru svo hrikalega skemmtileg. Hér í Húsinu við ána hefur verið líf og fjör þessa yndislegu jólahátíð. Við, Hrund amman og afinn, nutum þeirra forréttinda að hafa Örnu og litlu dömurnar hennar hjá okkur, þær glæða húsið svo skemmtilegum blæ. Þær litlu voru við það að fara yfir um af spenning á aðfangadag en samt var mesta furða hvað þær létu pakkaflóðið undir trénu eiga sig. Ef einhver gerðist of nærgöngull við pakkana þá létu þær í sér heyra að það mætti ekki kíkja „fyrr en í kvöld“. Það var margt fallegt sem kom upp úr þeim pökkum og stuttu seinna leit stofan út eins vera ber á aðfangadagskvöld, varla hægt að þverfóta um gólf fyrir leikföngum, pappír og fleira. Eins gott að ég mundi eftir að kaupa svarta stóra ruslapoka.

Í gær, á jóladag, komu svo hinar stelpurnar með sitt fólk og við áttum saman mjög notalegan dag, vorum dugleg með nammiskálarnar og litla fólkinu fannst ekki leiðinlegt að það var alltaf sagt já þegar þau spurðu hvort þau mættu fá mola. Þótt enn hafi fjölgað hjá okkur þá var samt enn pláss fyrir alla við borðstofuborðið enda er Erla Rakel aðeins rúmlega tveggja mánaða. Þetta er mér svo dýrmætt að ég kem þeim hugsunum ekki á blað, get ekki lýst því hvað það gleður mig að hafa allt fólkið mitt hjá mér og allir eru sáttir og glaðir. Við hjálpumst öll að og þess vegna tekur undirbúningur og frágangur eftir matinn stuttan tíma og svo geta allir sest inn aftur yfir kaffi og Nóa konfekti ásamt ýmsu góðgæti sem var verslað í Boston, svona öðruvísi nammi.




Ég er nú vön því á frídögum að vera ekki að rífa mig upp allt of snemma og núna um jólin er engin undantekning á því. Þegar ég vaknaði í morgun var Erling að lesa og ég fór aldrei þessu vant á fætur á undan honum. Eftir sturtuna kom ég inn til hans og voru þá ekki komnar þrjár skvísur í mitt rúm og þeim fannst það ekki lítið fyndið. Ég sagði þeim að þær væru svo mikil krútt. Þá gall í Söru Ísold, „við erum krútt en ekki amma og afi.“ Nú sagði ég hvað erum við þá. Þá setti hún upp þetta líka fallega bros og sagði mjög blíðlega „þið eruð yndigull“ Getið þið ímyndað ykkur að það sé hægt að fá fallegri gullhamra? Það get ég alla vega ekki.


Í dag er stefnan svo sett á Fitina, ætlum að fara með stelpurnar og sýna þeim breytinguna þar en Hrund og Arna hafa ekki komið þangað síðan um verslunarmannahelgi og það er bara ekki hægt.
Litlu dömurnar eru spenntar að fara þangað, vita líka að amman ætlar að hafa til nesti og kókomjólk, ekki leiðinlegt finnst þeim. Við komum aftur heim í kvöld því þá er okkur boðið að vera með í góðra vina hópi og við hlökkum til

Njótið lífsins vinir mínir, það er bæði gott og skemmtilegt....Þangað til næst...

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

en notaleg færsla... ekkert smá mikil dúlla hún Sara Ísold með gullhamrana sína:)

Hlakka til að fara með ykkur upp í kofa, þetta verður gaman:)

- Hrund

Nafnlaus sagði...

Elsku Erla....hver þarf veraldlegt gull g silfur sem á svona mikla demanta í fórum sínum.
Þú ert rík af himneskum verðmætum og þú ert að uppskera nákvæmlega eins og þú hefur sáð til.
Drottinn blessi fallegu fjölskylduna þína.
Ég er stolt af að vera Uppáhalds minnsta systir þín og Guði þakklát fyrir vináttu þína mín yndislega.
Þín einasta eina Sirrý litla OVER

Nafnlaus sagði...

Mikið er þetta fallegt blogg...
Manni hlýnar alveg við lesturinn og ég er ekki hissa að þú elskir jólin :D
Kær kveðja
Hafrún Ósk

Eygló sagði...

Krúttið hún Sara Ísold.. og hún hafði rétt fyrir sér, þið eruð yndigull :)
LU