sunnudagur, desember 21, 2008

Jólin eru alveg að koma, jibbí

Þá mega jólin koma, húsið er skreytt og fallegt jólatréð stendur í stofunni og marglit ljósin lýsa upp skrautið á því. Hver hlutur á trénu á sína sögu og það er svo gaman þegar þeir koma uppúr kössunum og rifja upp hvar þeir voru fengnir. Stelpurnar okkar vita alveg hvað á að vera hvar og taka hiklaust eftir ef eitthvað vantar í skreytingum á trénu. Nostalgía hvað......

Helgin hefur verið viðburðarík og skemmtileg með eindæmum. Stelpupartí á föstudagskvöld, jólatónleikar Sinfóníunnar í gær og eftir þá var brunað beint á Skagann til að fagna með vinum okkar Barbro og Sigga en Marianne dóttir þeirra var að útskrifast sem stúdent og hún gerði sér lítið fyrir og dúxaði eftir að hafa lokið 148 einingum á 7 önnum í stað 8 eins og venjan er. Dugleg skvísan sú.

Við náðum samt að komast heim í gærkvöldi áður en veðrið versnaði og allt varð kolófært. Hér á Selfossi hefur snjóað mjög mikið og í morgun var gatan okkar bara alveg ófær. Erling fór tvisvar út í dag að aðstoða fólk sem var búið að festa bílana sína fyrir framan gluggana okkar.

Nú er frábær dagur að kvöldi kominn, eins og segir í upphafi þessa pistils þá er búið að skreyta allt húsið og við meira að segja brutum áralanga hefð og skreyttum jólatré áður en sjálf Þorláksmessa rann upp svo nú er bara spurning hvað á eiginlega að gera á Þorláksmessu fyrst ekki þarf að skreyta og pússa allt hér heima? Hrund er að reyna að draga okkur gömlu með á jólatónleika á Thorsplani í Hafnarfirði en hún hefur samt ekki enn fengið svar við því.

Á morgun er síðasti vinnudagur fyrir jól og reyndar kannski á þessu ári, veit það ekki alveg en í mesta lagi þarf að mæta aðeins milli jóla og reikna laun annað ekki. Ég er líka alveg viss að vinnudagurinn á morgun verður ekki langur, kannski til kl eitt. Eftir það ætlum við Hrund að skreppa aðeins saman að versla jóla, jóla, jóla........og fá okkur svo einhvers staðar kaffi á eftir, hún er að segja mér að smakka kaffi latte, hef aldrei smakkað það en „barnið“ drekkur það :o) Alllavega hlakka ég til að eyða deginum með henni og svo keyrum við þrjú saman heim að loknu dagsverki okkar allra.

Jólalögin óma úr stofunni, ég ætla að fara inn í límsófann og njóta samveru við feðginin mín, þau eru svo skemmtileg....Njótið daganna því þeir eru góðir...... Þangað til næst

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

já þetta er búið að vera æðislegur dagur!
Ekkert smá gaman að hafa allt svona skreytt og fínt og fallegt:)

Sé þig inni í stofu eftir smá:)

elsk elsk
-Hrund

Nafnlaus sagði...

Ég hlakka til að koma til ykkar, get varla beðið:) Love U, Arna