sunnudagur, desember 04, 2005

Katrín Tara eins árs

















Það var fyrir um ári síðan, nánar tiltekið aðfararnótt 3. desember. Það var þrengra í rúminu okkar Erlings en vanalega, jú það var lítil prinsessa sem fékk að vera hjá afa og ömmu um nóttina því foreldrar hennar, Íris og Karlott, voru vant við látin annars staðar. Litla prinsessan okkar, Petra Rut, var að fara að eignast systkini og það var ástæða þess að hún var hjá okkur þessa nótt. Undir morgun hringdi síminn og það var stolt móðir sem tilkynnti okkur fæðingu dóttur sinnar og fékk daman nafnið Katrín Tara.

Það er alveg ótrúlegt að það sé ár síðan þetta gerðist, mér finnst svo stutt síðan. Katrín Tara hefur vaxið vel og dafnað og er mjög dugleg stelpa. Hún er farin að ganga og hún er svo sannarlega ákveðinn einstaklingur sem veit hvað hún vill. Hún er líka mjög forvitin og þarf að skoða allt sem hún sér og opna allar skúffur sem hún getur, veit það sennilega frá Hrund frænku sinni að þeir sem eru ekki forvitnir vita einfaldlega minna.

Katrín Tara er sannkölluð Guðs gjöf inn í fjölskylduna okkar og mikill gleðigjafi eins og systir hennar og frænkur. Petra Rut er mjög dugleg að gæta hennar og er alltaf að segja mér að hún sé LITLA systir hennar og að hún sjálf sé STÓRA yndigullið okkar.

Elsku Katrín Tara mín, innilega til hamingju með eins árs afmælið þitt. Ég bið Guð að blessa þig og vaka yfir hverju þínu skrefi.

1 ummæli:

Íris sagði...

Takk fyrir þetta mamma! Falleg skrif, ég er alveg sammála þér að hún er algjört yndigull og þvílíkur sólargeisli inn í líf okkar!!!
Það var gaman að hitta þig í dag ;)
sjáumst
Þín Íris