sunnudagur, desember 11, 2005

Ég man ekki einu sinni hvenær..........


.......þetta gerðist síðast það er svo langt síðan. Þó var þetta mjög algengt hér áður fyrr að við sætum saman öll sex og áttum skemmtilega kvöldstund með popp, kók og nammi.

Á föstudaginn þegar Íris kom að sækja yngri skvísuna sína til mín þá sagðist hún vera búin að troða sér í Idol partíið sem yrði heima hjá okkur Erling þá um kvöldið. Ég hváði við enda vissi ég ekkert um fyrirhugað partí, hafði reiknað með að við Erling yrðum bara tvö heima þar sem Hrund var búin að plana að fara á unglingasamkomu og Eygló ætlaði með henni. Arna var í heimsókn með sínar skvísur og svo kom Eygló við eftir vinnu og fyrr en varði var sem sagt búið að plana partí, Hrund og Eygló hættu við að fara á samkomuna þegar þær fréttu að Íris ætlaði að koma hingað aftur (ekkert smá aðdráttarafl sem hún hefur) og Arna fór heim með dömurnar í svefninn og kom svo aftur rétt rúmlega átta.

Þannig atvikaðist þetta merkilega sem ég var að tala um, við Erling vorum heima með allar dæturnar rétt eins og í gamla daga en mér fannst reyndar fyndið að hugsa til þess hvað tengdasynirnir og ömmugullin eru orðin stór partur af okkur og ótrúlegt að hugsa til þess að einu sinni þekkti ég strákana “mína” ekki neitt og dömurnar voru ekki einu sinni til. Það vantaði allavega heilmikið í hópinn þetta kvöld en engu að síður skemmtum við okkur stórvel saman yfir Idolinu og vorum með misjafnar skoðanir á frammistöðu keppenda.

Annars hefur helgin verið mjög skemmtileg, í gær var partí heima hjá mömmu þar sem við systkinin komum öll saman með öllu okkar fólki og það var aldeilis glatt á hjalla í litla ömmuhúsinu hennar mömmu. Pabbi lék við hvern sinn fingur og lék við langafabörnin sín, ótrúlegt að þau séu orðin langamma og langafi. Mamma var með heimagerðar pizzur og brownies sem enginn gerir eins vel og hún.

Í dag vorum við svo bara heima hjónin og Danía Rut og Sara Ísold voru í heimsókn hjá okkur meðan mamma þeirra og Eygló skruppu aðeins í Smáralind. Það var mjög gaman að hafa þær og ég man líka vel eftir því hvað það var gott að skreppa aðeins barnlaus í búðir og fá að hafa stelpurnar aðeins hjá mömmu á meðan.

Erling er á lokaspretti í prófum og mikið verð ég fegin þegar þessari törn lýkur. Ég ætla að halda uppá það, Erling segir að hann þekki engan sem er jafn duglegur og ég að finna tilefni til að halda uppá eitthvað. Bara gaman að því enda er lífið svo stórmerkilegt og skemmtilegt.

Njótið aðventunnar……….munið eftir heita súkkulaðinu og þeytta rjómanum, tók forskot á það í dag með fjölskyldunni, þau elskuðu mig mjög eftir það……..

4 ummæli:

Erling.... sagði...

Við elskuðum þig alveg jafn mikið fyrir súkkulaðið og eftir það.
Kunnum samt ótrúlega vel meta hvernig þú dekrar við okkur alla daga. Þú er yndigullið okkar allra.

Íris sagði...

Þetta var alveg svakalega skemmtilegt!! Þó það sé alveg best í heimi að hafa litlu dömurnar með líka þá var þetta mjög svo skemmtilegt og minnti á gamla tíma ;)
Seinasti dagurinn í dag í prófunum!! Svo er ég mætt í jólaskapið og jólaundirbúninginn!!!

Íris sagði...

Btw, þetta er rosa fín mynd af okkur systrunum ;)

Nafnlaus sagði...

Eftir súkkulaðið og fyrir og ALLTAF. Já þetta var svolítið fyndið að vera svona gamla fjölskyldan aftur í eina kveldstund. En eigðu góðan dag og við sjáumst og takk fyrir að hafa leyft ömmugullunum þínum að vera hjá þér í gær meðan ég búðaðist aðeins. Arnan þín...