miðvikudagur, desember 07, 2005

Endir og nýtt upphaf

Það er mjög notalegt að vera “bara” heima þessa dagana. Það er vika síðan ég hætti að vinna á Verkvangi. Ég fékk flotta kveðjugjöf, fann að það var lögð alúð í að finna gjöf handa mér og mér þótti vænt um það. Svo er mér boðið að koma með þeim á jólahlaðborð á föstudaginn og það verður gaman að hitta þau, sérstaklega Mettu, að hinum ólöstuðum, hún er alveg frábær, góður vinnufélagi og vinur. Það er reyndar skrýtin tilfinning að vera ekki með fasta vinnu en ég er að prófarkalesa fyrir Samhjálp og það má alveg koma fram hér að ég tek að mér að lesa yfir allt mögulegt ef ykkur vantar svoleiðis, les t.d. handrit og ritgerðir fyrir skólafólk.

Síðasta sunnudagskvöld vorum við mæðgurnar að gera svona gamaldags aðventukransa og í gærkvöldi gerðum við heimabúið konfekt og Arna og Eygló skelltu nokkrum plötum af spesíum í ofninn svona til að gleðja pabba sinn. Þetta var mjög gaman fyrir utan það að Íris og Hrund voru ekki með okkur vegna prófaundirbúnings.

Ég hef líka verið í ömmuleik með stelpurnar hennar Írisar því hún er á kafi í prófalestri eins og pabbi hennar og eiga þau bæði tæpa viku eftir og við Karlott hlökkum mikið til þegar þessari törn lýkur. Þegar ég sótti Petru Rut á leikskólann í gær, með svörtu krullurnar mínar úfnar eftir rokið, þá horfði einn lítill gutti á mig og spurði svo; ert þú að leika Grýlu? Ég sagði nei og sagðist bara vera amman hennar Petru Rutar og hún kom fagnandi til mín, þá sagði sá stutti bara; nú er það, gaman. Skemmtilegt hvað þessi litlu börn eru hreinskilin. Þegar ég var svo að hjálpa Petru Rut í skóna leit hún á mig með eftirvæntingu í augunum og spurði; “erum við núna að fara heim til afa?” Hún er alveg meiriháttar og það er gaman að vera með þessum litlu, stóru krúttum.

Síðustu daga hef ég verið að umbreyta heimilinu í jólaland, hef pakkað niður heilmiklu af dótinu okkar Erlings og sett fallega jóladótið okkar upp í staðinn. Ég fann jólakerti sem Róbert Örn gaf mér í fyrra og ég hafði ekki klárað, ég var fljót að kveikja á því og nú ilmar húsið af jólalykt og jólaljósin lýsa upp skammdegið. Á morgun ætlar Erling að gefa sér tíma og setja ljósin upp á svalirnar og það verður gaman. Ég er svo mikið jólabarn og ég ætla aldrei að hætta að vera það. Þetta er svo skemmtilegur tími en það þarf samt að vera á varðbergi að láta ekki stressið í þjóðfélaginu ná tökum á sér. Ég er farin að henda jafnóðum auglýsingabæklingum sem streyma inn, það er tóm vitleysa að við þurfum á öllu þessu dóti að halda og það er alveg víst að við verðum ekkert hamingjusamari þótt við keyptum það allt saman.

Hitum súkkulaði og nýmjólk saman, þeytum rjóma, setjum mandarínur og osta á borðið og fallegan jóladisk undir geislann......klikkar ekki........mér líður svo vel, vildi bara segja ykkur það.

2 ummæli:

Íris sagði...

Akkurat þannig sem mig langar að upplifa jólin. Með heitt súkkulaði, mandarínur, smákökur og kannski smá konfekt ;) Myrkrið úti og að hlusta á t.d. Kenny G diskinn ;) Þó það sé gaman að fá pakka þá slær það ekki út þá hamingju að vera með fjölskyldu og vinum sem maður elskar!!
Ohh, hlakka svo til að vera búin í prófum og get farið að njóta aðbíðunnar eins og Arna sagði!
Leiðinlegt að geta ekki bakað með ykkur né gert konfekt en það kemur seinna!!
Takk æðislega fyrir hjálpina með skvísurnar mínar, þeim finnst sko ekki leiðinlegt þegar amma kemur að sækja þær og þær fá að fara með þér heim og til afa líka!
Sjáumst og gott að þú ert að njóta þess að vera til!
Þín elsta dóttir
Íris

Nafnlaus sagði...

Mikið áttu nú yndislegt líf systir mín. Til hamingjum með það og njóttu þess í botn. Hringdu svo i mig næst þegar þú ert með heitt kakó á könnunni, mandarínur og osta. Ég skal alveg hjálpa þér að koma því vel fyrir.