sunnudagur, janúar 20, 2008

Líf og fjör og notalegheit....

Það var svo sannarlega glatt á hjalla í Húsinu við ána í gær. Allar stelpurnar komu með sitt fólk og það var líka orðið mál til komið. Ég hafði ekki séð ömmubörnin mín frá áramótum fyrir utan að Petra Rut og Erling Elí komu með mömmu sinni í afmælið hennar Hrundar um daginn og þá var Katrín Tara fjarri góðu gamni enda með skarlatsótt og voru þau þá heima feðginin hún og Karlott og Örnu stelpur voru í sveitinni með pabba sínum.

Þau eru svo yndisleg þessi börn og gaman að hafa þau hér. Erling Elí er nú ennþá svo lítill að það fer ekkert fyrir honum en stelpurnar hlaupa hér um allt hús, upp og niður stigann milli þess sem þær leika sér í leikhorninu undir stiganum. Okkur Erling finnst svo mikil forréttindi að vera vinir krakkanna okkar og að þau skulu vilja og nenna koma hingað með krílin sín, ég á bara ekki nógu sterk orð til að lýsa því hvað ég er ánægð með þau. Gærdagurinn leið svo við spjall og notalegheit. Strákarnir horfðu auðvitað á handboltaleikinn en tengdapabbi þeirra deilir ekki boltaáhuga með þeim en hefðu þeir sett veiðispólu í tækið hefði ekkert haldið honum frá sjónvarpsholinu.

Að ömmusið bakaði ég pönnukökur og þær hurfu ljúflega og jafnóðum ofaní maga fólksins og sérstaklega hafði ég gaman af áhuga litlu skvísanna á bakstrinum. “Amma, má ég smakka aðeins meira, þetta er gott”. Já, þetta gefur svo sannarlega lífinu gildi og ég finn að ég er mjög blessuð kona. Hrund var að vinna til kl 5 og þá sótti hún Theu sem kom og var með okkur. Við Erling vorum búin að segja þeim að við færum til Reykjavíkur um sexleytið því það var þorrablót hjá systkinum Erlings í gærkvöldi. Stelpurnar létu það ekkert á sig fá og ákváðu að borða öll saman hér í gærkvöldi þótt við færum. Ég held að þær hafi enga grein gert sér fyrir því hvað þetta gladdi mig. Það er mér svo dýrmætt hvað þær eru allar góðar vinkonur.

Þegar við Erling vorum að fara af stað, komin í betri fötin og Eygló búin að slétta á mér hárið þá kom Sara Ísold til mín og spurði mig af hverju ég væri með svona hár.
“Amma, af hverju ertu ekki með krullurnar þínar?” Ég sagði henni að ég væri bara að breyta aðeins til. Þá sagði hún mér að henni finndist ég flottari með krullur. Gaman að því hvað þessi börn eru skemmtilega hreinskilin. Reyndar er afi hennar alveg sammála henni. Það snjóaði aðeins þegar við vorum að fara og ég setti því nýju húfuna mína á höfuðið og þá sagði Petra Rut við mig. “Amma, gott hjá þér að passa að NÝJA hárið þitt blotni ekki”. Ekkert smá fyndið, “nýja” hárið.
Það var svolítið skondið að kveðja þau og fara héðan og sjá þau svo öll innum gluggana þegar við vorum að fara í burtu.

Þorrablótið heppnaðist mikið vel og var gestgjöfunum, Unu og Benna, til mikils sóma. Maturinn góður og félagsskapurinn skemmtilegur. Það eru meðal annars þessar stundir sem vökva garðinn okkar Erlings og ég finn alltaf betur og betur mikilvægi þess að rækta fólkið sitt og eyða tíma í samvistum við þá sem eru manni kærir. Það veit enginn hvað við eigum mikinn tíma hér á jörðinni og því vert að gefa því gaum hvernig maður notar hann. Eins og ég hef áður sagt ykkur lesendur mínir þá ætlum við systur Erlings og mágkonur að fara saman í haustferð næsta haust. Ég trúi því að það verði okkur til blessunar og gleði, þjöppum okkur betur saman og bara njóta þess að eiga tíma saman.

Klukkan var farin að halla langt í tvö í nótt þegar við keyrðum inn götuna okkar. Það var allt orðið hljótt í húsinu, Hrund svaf á efri hæðinni og þessar elskur höfðu lagað allt til og gert mjög fínt og því var mjög notalegt að koma heim. Við settumst aðeins inní “límsófann” í stofunni og spjölluðum áður en við fórum að sofa. Ég hef sagt ykkur áður hvað þær stundir eru mér dýrmætar.

Í dag er rólegt hér heima, við hjónin erum bara tvö því Hrund er að vinna á sambýlinu.
Okkur hefur aldrei leiðst þótt við séum bara tvö þótt við höfum líka mjög gaman af því þegar einhver rekur inn nefið og þiggur kaffisopa með okkur.
Heyrumst síðar, stofan og kaffiilmurinn dregur mig til sín að sinni enda er Erling þar....

1 ummæli:

Eygló sagði...

En gaman að lesa þetta hamingjublogg hjá þér elsku mamma :) Það er bara eitthvað við það að koma um helgar í sveitina og eyða tíma saman, ómetanlegt :) Frábært að þorrablótið var svona vel heppnað og mér finnst hrein snilld að þið mágkonur og svilkonur ætlið saman í haustferð :)Hafðu það rosalega gott sæta, þín Eygló