sunnudagur, febrúar 03, 2008

Lífsgæðakapphlaupið og hamingjan

“Rannsóknir gefa til kynna að hamingjusamasta fólkið er umvafið fjölskyldu og vinum og ver minni tíma en aðrir í einveru. Það tekur ekki þátt í lífsgæðakapphlaupinu en setur eigin mælikvarða á líf sitt en skeytir ekki um mælikvarða annarra. Það leggur rækt við sjálft sig, er náið öðrum, gleymir sér við daglega tómstundaiðju og er fljótt að fyrirgefa” Fengið að “láni” úr Mbl.

Langaði að vekja athygli á þessu og þá kannski sérstaklega á mikilvægi þess að setja sín eigin gildi og viðmið fyrir líf sitt en taka ekki þátt í lífsgæðakapphlaupinu því þá kemst maður aldrei í mark. Lífsgæðakapphlaupið hefur enga endastöð.

Það var eitt kvöldið sem ég sat í “límsófanum” mínum og var að spá í lífið og tilveruna. Það er svo mikið áreiti á heimilin í landinu, auglýsingapésar flæða inn um bréfalúguna, öll blöð eru full af auglýsingum um hluti sem “allir” þurfa helst að eignast til að vera samkeppnisfærir í lífinu. Sem dæmi þá þykja sjónvarpsherbergin ekki flott nema vera með stóran flatskjá þar inni, jafnvel þótt “gamla” sjónvarpið sé í fullkomnu lagi.

Við Erling höfum sett okkar eigin gildi fyrir líf okkar og framtíð, það skiptir okkur engu máli hvað öðrum finnst um það, okkur líður vel með þau. Við keyptum eldra hús í staðinn fyrir að byggja og hvað gerir það til þótt það taki nokkur ár að gera það eins og við viljum. Það skiptir engu því þegar upp er staðið þá er miklu betra að eiga áhyggjulaus mánaðarmót, fá ekki bakreikninga heldur gera þetta þegar við eigum fyrir því. Þótt það sé mjög auðvelt að fá bankalán í dag þá þarf að greiða þau tilbaka og dágóða vexti af þeim líka. Fjármálum heimilisins þarf að stýra eins og hverju öðru fyrirtæki og best er það ef hægt er að safna fyrir því sem vantar og því sem okkur langar í. Samfara því er miklu meiri ánægja og vellíðan. Heimili landsins þurfa að taka upp “eitt í einu” væðinguna í stað “allt í einu” væðinguna. Það á kannski ekki síst við um unga fólkið í landinu sem er að hefja búskap. Það er nefnilega til millivegur á milli þess sem var t.d. þegar kynslóðin okkar Erlings var að byrja að búa og sófasett og annað nauðsynlegt var fengið gamalt og gefins eða í dag þegar allt er keypt nýtt, gjarna á Visa rað og svo sligast fólk undan þessu og heimilin flosna upp. Auðvitað er ekki hægt að setja alla undir sama hatt en þetta er samt alltof algengt.
Látum ekki aðra stjórna lífi okkar og líðan, setjum okkar eigin gildi og viðmið fyrir okkur, þau gildi sem passa okkur, veskinu okkar og löngunum.

1 ummæli:

Íris sagði...

Algjörlega sammála þér! Gott að minna sig á þetta, það er svo auðvelt að detta inní lífsgæðahlaupið og gleyma sér þar. Ég hef einmitt reynt að tileinka mér það að eiga fyrir hlutunum þó stundum sé það ekki hægt eða maður lætur undan lönguninni.
En takk fyrir góða áminningu!
Sjáumst hressar á eftir ;)
Þín Íris