fimmtudagur, febrúar 21, 2008

Egyptaland...

Þar sem ég sat og passaði mig að horfa bara á hvítan vegginn, heyrði ég konuna segja;” Þú verður að anda, ertu hrædd við sprautur?” Þá fattaði ég að ég hafði bara rétt út vinstri höndina, flýtt mér að líta undan og svo hélt ég í mér andanum alveg ósjálfrátt því hún hafði sagt að ég þyrfti ÞRJÁR, já ég endurtek ÞRJÁR sprautur. “Það er mjög mikilvægt að þú gleymir ekki að anda, dragðu djúpt andann og þetta verður allt í lagi”. Auðvitað var allt í lagi og ég varla fann fyrir því sem hún var að gera. Já ég skrapp á heilsugæsluna í fyrradag og hitti hjúkrunarfræðing til að fá bólusetningu áður en við Erling höldum í stóru ferðina í tilefni af 30 ára brúðkaupsafmælinu okkar. 30. mars munum við fara í tveggja vikna ferð til Egyptalands. Við verðum í Kairó, siglum á skemmtiferðaskipi á Níl í eina viku og svo verðum við líka í borg sem heitir Luxor. Þetta er ferð þar sem allt er skipulagt fyrirfram og fjöldi skoðunarferða verða farnar. Meðal annars munum við fara í loftbelgsferðalag mjög snemma morguns til að sjá sólina koma upp yfir Karióborg. Held að það hljóti að vera ógleymanlegt. Ef þið hafið áhuga þá getið þið lesið hér ferðalýsinguna en við förum með Bændaferðum. Hef heyrt mjög góðar sögur af fólki sem ferðast hefur með þeim.

Annars gengur lífið bara sinn vanagang hér í Húsinu við ána. Veðrið er auðvitað umhleypingasamt hér eins og annars staðar á landinu en það fyrirgefst vegna þess að á landinu okkar fagra er svo gott að búa. Skemmtileg helgi er framundan, þorramatur hjá systkinum mínum, mökum okkar og foreldrum verður heima hjá Ástu og Kidda á laugardagskvöldið og ég hlakka mikið til að hitta þau öll. Að öðru leyti mun helgin fara í afslöppun og notalegheit. Erling ætlar að taka Musso í gegn því nú er hann að fara á sölu blessaður.

Eigið frábæra og skemmtilega helgi lesendur mínir..........þangað til næst

3 ummæli:

Íris sagði...

Já, svona er þetta að fara á svona framandi slóðir, maður verður að bólusetja sig við öllu sem er þar á ferð sem maður er ekki vanur hér.
En mikið rosalega finnst mér þetta skemmtilegt að þið ætlið að fara í svona óhefðbundna ferð í tilefni af brúðkaupsafmælinu ykkar. Bara frábært!!
Njótið vel helgarinnar og við sjáumst náttúrulega í þorramatnum, manstu þú ætlaðir ekkert að segja að ég viti af þessu hjá Kidda ;) hehe

Anyway, sjáumst!
Þín Íris

Karlott sagði...

Gott að gera eins og ég: horfa á þegar verið er að stinga mann... virkar alltaf!

Annars, dásamlegt að þið látið þetta verða að veruleika... megið ferðin verða yndisleg.

Karlott

Eygló sagði...

Sammála síðustu ræðumönnum :) Æðislegt að þið ætlið að fara í svona mergjaða og óhefðbundna ferð til að halda upp á þennan flotta og merka áfanga :)Þið eruð æðis!
Hlakka til að sjá myndir úr ferðinni, loftbelgnum og öllu þessu æðislega framandi sem þið munuð upplifa :) Sjáumst vonandi sem fyrst og takk fyrir skemmtilega samveru í gær :) Þú ert best :) Þín Eygló