laugardagur, mars 01, 2008

Dýrmæt gjöf

Smellið á myndina til að sjá hana betur.

“Eruð þið til í að kíkja við hjá okkur pabba þínum einhvern daginn eftir vinnu” spurði mamma mig fyrir stuttu. “Mig langar aðeins að ræða við ykkur” Ekkert mál, sagði ég en er það eitthvað leiðinlegt? “Alls ekki, bara gaman” og okkur kom saman um að við myndum kíkja á miðvikudaginn var. Það eru hentugir dagar til að kíkja við hjá þeim því mamma er aldrei að vinna á miðvikudögum. Ég var að vonum forvitin um erindið en beið þolinmóð eftir deginum umsamda. Þegar við Erling svo komum þangað þá beið okkar kaffi og alls kyns góðgæti með því og enn var forvitni minni ekki svalað. Eftir spjall og kaffidrykkju þá sagði hún að þeim langaði að færa okkur gjöf í tilefni af 30 ára brúðkaupsafmælinu okkar.

Þeir sem þekkja mömmu mína vita að hún er snillingur. Það er ekkert sem hún getur ekki gert í höndunum ef hún ætlar sér. Svo ég fari nú aðeins með ykkur lesendur mínir aftur í tímann þá var það fyrir þó nokkru síðan að hún sýndi mér útsaumsmynd sem hún hafði pantað á netinu og var byrjuð að sauma hana. Ég sá nú að myndin var mjög falleg en þegar leið á og meira og meira var búið af myndinni var ég algerlega heilluð af henni. Ég sagði henni að mér þætti myndin mjög falleg en passaði mig alveg á að segja henni ekki hvað mig myndi langa að eiga hana. Það er nefnilega þannig að ef ég nefni að mig langi í eitthvað sem hún á þá gefur hún mér það “því hún þarf sko ekkert á því að halda” allt í einu. Þannig að ég passaði mig vel á að segja henni ekki hvað mig langaði hrikalega mikið í þessa mynd.

Nema hvað, var ekki myndin góða allt í einu búin og komin í fangið á mér innrömmuð og innpökkuð með hamingjuóskum til okkar Erlings með 30 árin okkar.
Þetta er ein fallegasta og best gerða útsaumsmynd sem ég hef séð en á myndinni hér að ofan kemst það ekki alveg nógu vel til skila hvað hún er falleg þannig að þið verðið bara að koma í heimsókn og sjá hana. Elsku mamma og pabbi, þúsund þakkir fyrir þessa dýrmætu og fallegu gjöf og gott hvað hann pabbi var nú duglegur að hjálpa mömmu með öll smáatriðið í myndinni :o)

1 ummæli:

Íris sagði...

Já, þessi mynd er algjört stórvirki! Alveg hrikalega flott og mikil vinna á bakvið hana!
Innilega til hamingju með hana, sómir sér eflaust vel uppi á vegg hjá ykkur!
Takk fyrir okkur í gær ;) Gaman að kíkja!