föstudagur, febrúar 15, 2008

4ra ára afmælisprinsessa


“Amma, mamma er búin að kaupa ís til að fara með á leikskólann á morgun” sagði Sara Ísold við mig í gær. Af hverju spurði ég og Danía Rut var sneggri að svara, Sara Ísold á afmæli.....auðvitað. “Ég verð svona gömul, sagði Sara Ísold og sýndi mér fjóra putta um leið og hún sagði hátt og skýrt, “ég verð fjögurra ára á morgun”.
Já enn ein lítil vinkona mín á afmæli í dag og hún er mjög stolt af því enda búin að hlakka lengi til. Ég man að við Erling fylgdumst með alla nóttina þegar Arna var að eiga hana á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og svo loksins kom símtalið langþráða.

Sara Ísold er mjög skemmtilegt barn og bráðskýr. Hún talar mikið og spáir í hlutina og það koma mörg skemmtileg gullkorn frá henni. Mamma hennar drekkur dálítið mikið Pepsi Max en þær systur fá ekki að drekka gos og vita að það er bara fyrir fullorðna. Svo var það um daginn að Arna var að drekka undanrennu. Sara Ísold tók eftir því og spurði í einlægni, “mamma, er Pepsi Maxið búið?” Að hennar mati var það eina ástæðan fyrir því að Arna væri að drekka mjólk en ekki gos. Reyndar var það ekki þannig samt.
Í gær var svo Arna með ommilettu í matinn og allt í einu spyr Sara Ísold mömmu sína hvort amma þeirra eigi matinn sem þær eru að borða. Nei, svarar Arna, við eigum matinn. Já en af hverju heitir maturinn þá ömmuletta? Hún er algerlega ómótstæðileg.
Hún vill fá hesta í afmælisgjöf, það var það eina sem ég fékk uppúr henni þegar ég spurði hvað hana langaði að fá. Það skyldi nú aldrei vera að hún fengi óskina uppfyllta.

Elsku Sara Ísold mín, ég óska þér innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn. Þú er mikil Guðs gjöf inn í líf okkar og ég bið hann að vaka yfir hverju þínu skrefi, alla þína ævi. Ég elska þig marga grilljón hringi og hlakka til afmælisveislunnar þinnar.

2 ummæli:

Erling.... sagði...

Ég hlakka líka til að fá afmælisbarnið hingað um helgina. Hún er eins og amman segir algjört yndi þessi stelpa og er mikill vinur afa síns.
Til hamingju með daginn gullið mitt.

Nafnlaus sagði...

Takk elsku mamma fyrir fallegan afmælispistil. Já hún er sko algjört yndigull hún Sara Ísold mín og mikill pælari eins og þetta með "ömmulettuna" Þú ert frábær amma og auðvitað mamma líka:) Sjáumst á morgun:) Arnan