mánudagur, desember 31, 2007

Á síðasta degi ársins

Það er við hæfi á þessum tímamótum að líta um öxl, horfa tilbaka yfir árið sem er að kveðja okkur og sjá hvort ekki leynist eitthvað sem hægt er að læra af. Hetjur og menn ársins eru kosin hingað og þangað og víst er að sitt sýnist hverjum um það en sá sem velur í hvert og eitt sinn hefur sínar ástæður fyrir valinu. Ég ætla nú ekki að feta í þau fótspor að opinbera hér á síðunni minni hver er að mínu mati einstaklingur ársins en hef á því ákveðnar skoðanir.

Árið hefur verið mér afar gott og ég lít tilbaka sátt og glöð. Auðvitað er alltaf hægt að gera betur og mín áramótaheit að þessu sinni snúast um að gera betur á nýja árinu því þótt ég leggi mig yfirleitt fram um að gera hlutina vel þá má alltaf bæta sig. Ekki ætla ég samt að leggja fram mín áramótaheit hér en þau snúast ekki að því að grennast, hætta að reykja eða drekka minna. Þau snúast um um mannlegar hliðar lífsins. Með hverju árinu er mér það ljósara hversu miklu máli fjölskylda mín og vinir mínir skipta mig. Hversu mikilvægt það er að rækta garðinn sinn því ekki blómstrar hann af sjálfsdáðum.

Talandi um fjölskylduna þá langar mig að minnast á jólaboð sem var hér í Húsinu við ána fyrir nokkrum dögum. Við höfðum boðið hingað systkinum Erlings ásamt mökum, börnum og barnabörnum og buðum þeim að koma með veitingar með sér. Það var mjög góð mæting, ekki síst hjá ungu kynslóðinni sem kom með litlu krílin sín með sér. Það var mikið fjör og gleði hér fram eftir degi og um kvöldið þegar við vorum búin að ganga frá þá settumst við niður, ég og Erling ásamt Örnu og Hrund og spjölluðum saman um hvað þetta var gaman. Þá fann ég þessa gleðitilfinningu fara um mig því ég fann að þarna var búið að sá í garðinn minn. Allir sem komu voru ánægðir með þetta og ég vissi að fjölskylduböndin voru hnýtt fastari böndum. Eins og stendur í helgri bók þá er fólkið hans Erlings mitt fólk og fólkið mitt hans fólk og þannig vil ég hafa það. Mér finnst ég vera frænka allra þessara “krakka” (systkinabarna Erlings) og mér þykir svo mikið vænt um þau og fólkið þeirra. Stelpurnar mínar vilja gera þetta að hefð og við Erling erum meira en til í að sjá um það með þeim.

Við mágkonur og svilkonur Erlings megin höfum tekið ákvörðun að efla tengslin okkar á milli og það gleður mig líka mikið. Við erum að leggja í sjóð til að fara saman í aðventuferð næsta haust og ekki efast ég um að það verður gaman hjá okkur.

Það er með mikilli tilhlökkun sem ég horfi fram á nýja árið. Við Erling munum, ef Guð lofar, fagna 30 ára brúðkaupsafmæli okkar þann 4. mars og ætlum að halda uppá það. Lífið er ljúft, gott og yndislegt og ég fagna hverjum degi. Ég bið góðan Guð að blessa ykkur lesendum mínum nýja árið og veita ykkur það sem hjarta ykkar þráir. Ég þakka ykkur heimsóknir á síðuna mína og hlakka til meiri samveru við ykkur í bloggheimum. Þangað til næst........

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gleðilegt ár elsku mágkona og takk fyrir allar skemmtilegu samverustundirnar á árinu sem er að líða.
Ég er innilega sammála um að fjölskyldan er það besta og mikilvægasta í lífinu.
Þín mágkona Gerða

Eygló sagði...

Elsku mamma/tengdamamma, takk fyrir allar skemmtilegu stundirnar á gamla árinu 2007 :) Hlökkum til að hitta ykkur sem oftast á nýja árinu :)

Sjáumst hress fljótlega.
Áramótakveðja frá Akureyri:
Eygló + Bjössi :)

Nafnlaus sagði...

Erlan er bara perlan.

bestu kveðjur til ykkar allra við ána og þakkir fyrir liðnar ánægjustundir.

Kiddi Klettur

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir allar skemmtilegu stundirnar á árinu mamma. Það er alltaf æði að hitta þig. Mér finnst þú alveg rosalega dugleg að rækta garðinn þinn, þú ert til fyrirmyndar í þeim efnum. Þið pabbi saman. Eigðu frábært nýtt ár;) Arnan þín

Íris sagði...

Takk fyrir skemmtilegt blogg ;) Takk líka fyrir árið sem er að líða og vonandi verður næsta bara enn betra (ef það er hægt ;)
Tek þig til fyrirmyndar og tel fjölskylduna það mikilvægasta í öllu!
Þín Íris