laugardagur, desember 15, 2007

Skemmtilegt

Í gær var komið að okkar árlega “út að borða” stelpnanna í minni fjölskyldu. Ég er ekki með það alveg á hreinu í hvað mörg ár við höfum gert þetta en allavega er löngu komin hefð á það og nú var stefnan tekið á jólahlaðborð á Grand hótel.

Mamma, stelpurnar hennar og tengdadætur og svo stelpurnar okkar og tengdadætur, fara saman fyrir jólin út að borða og eiga skemmtilegt kvöld saman. Alís vinkona okkar og Sissa frænka komu með okkur eins og áður og það er gaman að þær vilja vera með okkur. Dúdda frænka hefur líka stundum komið með okkur en komst ekki að þessu sinni.

Fyrir okkur Selfossbúa leit ekki vel út í gærmorgun að komast til byggða. Við fjölskyldan í Húsinu við ána fórum á fætur á réttum tíma en þegar halda skyldi af stað til höfuðborgarinnar var veðrið orðið það slæmt að Erling tók ákvörðun að fresta för.
Við mæðgurnar skriðum aftur undir sæng en hann var á vaktinni.
Í hádeginu kom svo miðja lægðarinnar yfir og við nýttum okkur lognið á undan næsta stormi og ókum til byggða.

Það voru 14 prúðbúnar stelpur sem hittust svo í anddyrinu á Grand hótel og við áttum mjög skemmtilegt kvöld saman. Það var nánast full mæting fyrir utan að Ella Gitta var veik, Sólveig var að vinna og Thea ekki komin heim í jólafrí frá Svíþjóð. Maturinn var mjög góður, eina sem var ekki í lagi var að sósan með heita matnum kláraðist og það var korters bið í að önnur sósa kæmi. Svona á auðvitað ekki að gerast á fínu hóteli en við vorum nú ekki að velta okkur uppúr því.

Við skiptumst á jólapökkum og það er alltaf spennandi að vita hvað er í þeim pakka sem dregið er. Ég fékk t.d. flottan kertastjaka frá Sirrý systir sem hún hafði búið til sjálf enda er hún listakona af Guðs náð og gerir fallega keramikmuni.

Sigga Beinteins og Bryndís Ásmundsdóttir sungu svo fyrir okkur og nokkrir stigu dans og ég er nú ekki frá því að ef Erling hefði verið með okkur þá hefðum við jafnvel nýtt okkur danskunnáttuna frá námskeiðinu okkar, allavega fann ég kitlið í fótunum undir lögunum þeirra. Þær voru alveg frábærar.

Kvöldið heppnaðist frábærlega vel og við Hrund ókum heim á leið um kl ellefu og það gekk bara vel á heimleiðinni og komumst heilar á höldnu heim þrátt fyrir mikinn éljagang og hvassviðri á Sandskeiði og Hellisheiði.

Framundan er svo skemmtileg helgi með fullt af uppákomum. Á eftir erum við að fara á jólatónleika sinfóníuhljómsveitarinnar og strax á eftir í jólaboð til Eyglóar og Bjössa.
Á morgun er svo afmæli Katrínar Töru og annað kvöld förum við á Frostrósartónleikana.

Já aðventan er svo sannarlega skemmtilegur tími og ég nýt hennar í botn og ég vona svo sannarlega að þið gerið það líka vinir mínir. Takk fyrir skemmtilega samveru í gærkvöldi stelpur mínar, það er svo gaman að tilheyra stórri fjölskyldu ekki síst því við erum allar svo skemmtilegar. Þangað til næst......

2 ummæli:

Eygló sagði...

Oh já það var SVO gaman hjá okkur og maturinn góður og samveran enn betri :) Mér finnst líka svo sniðugt að hafa pakkaskipti! Og eins gott að þið komust í bæinn :):) Sjáumst svo hress á eftir sætu öll! þín uppáhalds Eygló

Íris sagði...

Takk sömuleiðis fyrir gærkvöldið og samveruna í dag og svo hlakka ég mikið til að fá ykkur hingað heim.
Hafðu það áfram rosa gott ;)
Love u milljón skrilljón!
Þín Íris