mánudagur, desember 24, 2007

Aðfangadagur jóla.....

Augnablik var ég búin að gleyma því að þrjár litlar snúllur gistu í afa- og ömmuhúsi og því var ég að hugsa þegar ég vaknaði hvaða raddir þetta væru frammi. Að venju var ekki farið snemma að sofa á Þorláksmessu en sú tilbreyting var þó núna að við hjónin vöktum bæði fram á nótt, lukum við að gera það sem húsmóðurinni finnst algerlega nauðsynlegt að sé lokið áður en aðfangadagur rennur upp. Klukkan var farin að halla langt í þrjú í nótt þegar við settumst inn í fallega skreytta stofuna okkar, nutum kyrrðarinnar í húsinu og rifjuðum upp gamla tíma. Við erum nefnilega bestu vinir og það er svo gaman að eyða tíma með þeim sem manni finnst vænst um.

Þótt ótrúlegt sé, er enn einu sinni kominn aðfangadagur jóla, úti er hvítur snjór yfir öllu, ég sit inni á skrifstofu og pikka nokkrar jólalínur á tölvuna, frammi eru þrjár af ömmustelpunum mínum orðnar hálf trylltar af biðinni og kannski líka að nammið hafi þessi áhrif. Eygló og Bjössi voru að koma inn og ætla að eyða kvöldinu með okkur og þau og Arna og Erling sitja og spjalla frammi í eldhúsi. Hrund er að vinna til kl fjögur.
Hér ríkur yndislegur friður og ró, sannkölluð jólastemming eins og ég vil hafa hana.
Grauturinn og sírópið er að kólna úti á palli, hryggurinn bíður á eldhúsborðinu eftir að Erling geri hann tilbúinn í ofninn og tími til kominn fyrir mig að fara að gera salatið og huga að kartöflunum.

Inni í stofu er ljósum skrýtt jólatré ofan á mikilli pakkahrúgu og ekki skýtið þótt þrjár litlar stúlkur eigi erfitt með að bíða eftir að fá að rífa utan af þeim. Jólatónlistin ómar um húsið og mér líður svo vel. Það eru forréttindi af fá að upplifa jól á þennan hátt.

Ég vil óska ykkur lesendum mínum gleðilegra jóla og bið ykkur ríkulegrar Guðs blessunar og að friður Hans og gleði megi umvefja ykkur á sérstakan hátt.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ohh, þið pabbi eruð svo sæt:) Það var mjög gaman að koma niður í morgun og sjá hvað þið voruð búin að gera borðið flott og stelpurnar voru svo skotnar í jólatrénu. Ég hlakka mikið til að vera hérna yfir jólin með stelpurnar mínar og ég veit að þeim þykir gaman hérna. Þið pabbi eruð frábær. Gleðileg jól mamma og takk fyrir það gamla:) Arnan þín