mánudagur, apríl 13, 2009

Páskar

Með vindinn í fangið þeystum við af stað í dag á mótorfáknum okkar og stefnan var tekin á höfuðborgina. Það er allt öðruvísi ferðamáti að vera á mótorhjóli heldur en í bíl. Allt umhverfið færist nær, alls konar lykt, misgóð eða misvond, fyllir vitin og skynjunin er önnur. Þar sem þetta var fyrsta ferðin á þessu vori þá var smá beygur í mér varðandi Kambana, það er þessi tilfinning að finnast við vera að fara á hliðina í beygjunum en svo var öryggið komið mjög fljótt. Erling veit að ég er alltaf svona þegar við byrjum á vorin og þessi elska fór sérlega varlega í þessu. Ég treysti honum algerlega fyrir mér og þetta er mjög gaman. Við kíktum á pabba og mömmu og svo á vini okkar Sigrúnu og Heiðar og áttum bara mjög skemmtilegan dag í borginni. Það var ekki mikill lofthiti, aðeins 3 gráður en þar sem Erling var búinn að kaupa handa mér norsk ullarföt til að vera í innan undir leðurgallanum fann ég ekki fyrir neinum kulda, alger munur að vera svona heitt.

Páskahelgin hefur verið mjög notaleg, við vorum á Föðurlandi yfir bænadagana og eins og ég hef áður sagt ykkur þá er einstaklega notalegt að eyða tíma þar, yndisleg kvöld yfir spjalli með góðum vinum og hlusta á timbrið snarka og loga í kamínunni er eitthvað svo róandi og notalegt. Það er allavega alveg öruggt að við komum heim algerlega afslöppuð og með fullhlaðin batteríin.

Dæturnar voru svo hér allar í gær með sitt fólk og fjörið í börnunum jókst í réttu hlutfalli við minnkandi páskaeggin, þau eru alveg hreint yndisleg þessi kríli. Yngsta daman er bara sex mánaða og fékk ekkert páskaegg en fylgdist áhugasöm með frændsystkinum sínum.

Á morgun byrjar svo ný vinnuvika hjá mér en prófalestur er að byrja hjá Erling, stíf törn framundan og þar sem ég vissi að ég myndi missa hann inná skrifstofu næsta mánuðinn eftir páskana þá nýtti ég hverja stund af þessu páskafríi til samveru við hann.
Nú eru Arna og Hrund komnar heim í sveitina og þær, ásamt Theu sitja inni í stofu og ég ætla að fara inn og setjast í límsófann og spjalla við þær, vonandi næ ég að draga Erling inn með mér....Þangað til næst vinir mínir.....

Engin ummæli: