föstudagur, apríl 17, 2009

Lífið er ljúft.....

Um kaffileytið hringdi síminn minn kunnuglegri hringingu, hringingu sem aðeins heyrist þegar flotti maðurinn minn hringir. "Hvenær heldurðu að þú verðir heima ljúfust", spurði hann. Þar sem ég var á fullu ásamt mömmu og systkinum mínum að skreyta salinn fyrir afmælið hans pabba gat ég ekki alveg svarað honum. "Viltu láta mig vita svona ca klukkutíma áður" sagði hann þá. Það var auðvitað lítið mál og þegar ég renndi frá bílastæðinu við salinn, hringdi ég í hann og þar sem ég þurfti í Bónus myndi vera um það bil klukkutími í heimkomu. Það var fallegt að aka yfir fjöllin tvö heim á leið og ég naut tímans ein í bílnum með Mama Mia diskinn á fullu og stillt mjög miklu hærra heldur en þegar einhver er með mér. Hrund varð eftir í bænum, þær systur voru að fara í þrítugsafmæli frænku sinnar þar sem þemað var 80´stíll og fjör eftir því.

Í Bónus troðfyllti ég kerruna af gosi, meðlæti og öðru sem vantaði fyrir morgundaginn og rétt um klukkan sex renndi ég inn götuna mína og allt í mér fylltist stakri ró og vellíðan. Það er ekki ofsögum sagt að það sé lífsbætandi að búa svona aðeins utan við skarkala höfuðborgarinnar en njóta samt nálægðarinnar við hana því hún er vissulega líka sjarmerandi.

Erling kom út með svuntuna á sér og bar inn vörur og þegar inn var komið mætti mér gamalkunn en sjaldgæf lykt í dyrunum. Þar var komin í ljós ástæðan fyrir því af hverju hann vildi fá að vita nokkuð nákvæman tíma á heimkomu minni. Lyktin reyndist vera af gæs sem hann hafði skotið í haust og var nú í ofninum, elduð á gamla" mátann. Hún ásamt sósu og meðlæti var alveg hreint algert lostæti, ummmmmm frábært og gaman að fá svona móttökur.
Reyndar hefur það verið þannig eftir að hann byrjaði aftur í skólanum og er stundum heima á daginn að læra að hann er búinn að elda þegar við Hrund komum heim og það er svo notalegt.

Framundan er svo fríhelgi með fullt af skemmtilegum uppákomum. Hæst ber að nefna veisluna sem verður annað kvöld í tilefni þess að pabbi fyllti 70 árin um páskana og svo auðvitað er gaman að Óli bróðir er að koma til landsins og ég hlakka mikið til samveru við hann.

Jæja kæru vinir, nú ætla ég að fara inn í stofu til Erlings, setjast í límsófann og njóta þess að vera til og vera í nærveru hans sem er jú allra besti vinurinn minn, njótið helgarinnar...þangað til næst...

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þið eruð sætust og bestust við hvort annað og aðra líka, þar á meðal mig. Elska þig og pabba meira en ég get lýst með orðum. Arnan